Ingmar Bergman

"Ósköp deyr af fólkinu" er haft eftir gamalli konu. Já, það kveðja margir þetta jarðlíf þessa mánuðina. Mér finnst ég alltaf vera að skrifa um fólk sem er farið yfir móðuna miklu. Í dag er það sá stórbrotni leikstjóri Ingmar Bergman. Ég þekkti hann auðvitað ekki persónulega en mikið skilur sá maður eftir sig af góðum kvikmyndum. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá Sjöunda innsiglið í fyrsta sinn. Ég var bara ekki söm eftir þá upplifun.

Sænsku blöðin hafa gert Bergman góð skil í dag og í Dagens Nyheter er hægt að kynna sér ævi Bergmans frá vöggu til grafar. Það er merkileg lesning. Það tók Bergman mörg ár að finna sinn kvikmyndastíl og hann gerði mistök, kvikmyndir og leiksýningar sem voru algjört flopp. Á sjötta áratugnum blómstraði hann með kvikmyndum eins og Sjöunda innsiglinu, Smultronstället og fleiri myndum. Löngu seinna komu svo myndir eins og Fanny og Alexander og handritið að Den goda viljan en þessar síðasttöldu myndir byggjast á ævi Bergmans sjálfs og föður hans. Þá er uppsetning hans á óperunni Töfraflautunni ógleymanleg en hann gerði hana fyrir sænska sjónvarpið.

Einkalíf Bergmans var afar skrautlegt. Hann var marggiftur og átti oft í samböndum við leikkonurnar sem hann var að leikstýra. Bergman var mjög viðkvæmur og skapmikill maður. Um 1980 var Bergman grunaður um skattsvik. Hann varð svo reiður að hann flutti frá Svíþjóð og hótaði að stíga aldrei framar fæti á sænska jörð. Hann var að lokum sýknaður og gat þá ekki lengur haldið sig frá sinni elskuðu Svíþjóð og eyjunni Fårö. List hans átti rætur í sænsku samfélagi.

Í dag hafa leikarar og leikstjórar minnst Bergmans. Margir þeirra eiga honum frægð og frama að þakka. Leikarahópur hans varð heimsfrægur enda vann Bergmansliðið til margra verðlauna. Max von Sydow, Liv Ullman, Erland Josephsson, Bibi Anderson, Pernille August, Mikael Persbrandt og fleiri og fleiri. 

Nú fáum við vonandi að sjá bestu myndir Bergmans til að rifja upp kynnin við þennan stórbrotna leikstjóra.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til lukku með nýja starfið!

Þórður (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 13:53

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Kristín, til hamingju með stöðu frámkvæmdastýru/stjóra Jafnréttisráðs.

Bestu kv. Edda Agnarsdóttir

Edda Agnarsdóttir, 2.8.2007 kl. 19:21

3 identicon

Gaman að lesa þennan pistil þinn um Bergman. Langaði annars að óska þér hjartanlega til hamingju með nýja starfið.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 20:52

4 identicon

Elsku nafna

Innilega til hamingju með jafnréttisstýru starfið!

Baráttu kveðjur

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 21:19

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Innilega til hamingju með nýja starfið. Ég er glöð fyrir okkar allra hönd.

María Kristjánsdóttir, 2.8.2007 kl. 23:28

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Til hamingju með starfið Kristín og velkomin norður

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 3.8.2007 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband