Eitt sinn skal hver deyja

Mér brá í brún í morgun þegar ég las á forsíðu Fréttablaðsins að Einar Oddur Kristjánsson væri allur. Ég sat eitt kjörtímabil á þingi með honum og kynntist honum vel enda vorum við saman í efnahags- og viðskiptanefnd. Hann var ákaflega litríkur og skemmtilegur maður og það var bæði gaman að spjalla við hann og deila við hann.

Einar Oddur vakti mikla alhygli þegar þjóðarsáttarsamningarnir stóðu yfir og var hann kallaður bjargvætturinn frá Flateyri. Eftir á kom í ljós að þessir samningar mörkuðu tímamót og þeir gerðu Einar Odd að formanni Vinnuveitendasambandsins en sem slíkur var hann mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni.

Einar var nýkominn á þing þegar snjóflóðin féllu á Flateyri í október 1995 og þau reyndu svo sannarlega á heimamanninn. Eitt sinn fór félagsmálanefnd Alþingis um Vestfirði m.a. til Flateyrar til að skoða hvernig uppbygging gengi eftir snjóflóðin. Þá tók Einar á móti okkur, leiddi okkur um staðinn og bauð okkur loks heim á Sólbakka þar sem við hittum Sigrúnu konu hans. Hann var höfðingi heim að sækja. Einar Oddur hafði mikla innsýn í atvinnurekstur hér á landi ekki síst sjávarútveg sem hann þekkti vel af eigin raun. Um leið og hann stóð vörð um hagsmuni atvinnulífsins, var hann líka maður sátta og sanngirni.

Mér er mjög minnisstætt þegar fyrstu lögin voru samþykkt sem veittu samkynhneigðum aukin réttindi. Það var töluvert reynt til að fá lögin einróma samþykkt en Einar Oddur þráaðist við. Hann sagði: "Æ, ég er svo gamall og gamaldags. Ég bara get ekki samþykkt þetta." Þetta var ekki í eina skiptið sem hann stóð fast á sinni skoðun og í þessu réttlætismáli þótti honum einum of langt gegnið.

Nú hefur hann kvatt mjög snögglega og Alþingi hefur svo sannarlega misst einn sinn litríkasta fulltrúa. Blessuð sé minning hans.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

finnst þér viðeigandi að segja frá andstöðu hans við þetta mikla réttlætismál sem þú nefnir á dánarstund hans ?

 Hver er tilgangurinn ???

Hilmar V. (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 23:12

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Falleg eftirmæli hjá þér Kristín - sérstaklega að minnast hans eins og hann var í staðinn fyrir að reyna að grafa skoðanir hans með honum. Er nokkuð viss um að honum sjálfum þætti vænt um það. Veit allavega að eftir minn dag vil ég ekki að fólk láti eins og ég hafi haft aðrar skoðanir á málum en ég hef. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.7.2007 kl. 10:51

3 identicon

Kristín!

Óheppileg mynd við eftirmæli þín!

Eða segir hún .....?  

Ólafur

Ólafur Jóhannsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband