Sælueyjan Ísland

Mér hefur oft fundist að eitt helsta einkennið á íslenskum stjórnvöldum og kannski þjóðinni líka sé afneitun og þöggun. Hér er ekkert að. Það er engin stéttaskipting á Íslandi og engin fátækt. Til skamms tíma var vændi og kynbundið ofbeldi þagað í hel. Hafi hluti aldraðra og öryrkja átt erfitt þá er það að batna. Jafnrétti kynjanna er handan við næsta horn. ALLT er á réttri leið. Og hvaða leið er það? Jú, það er leið vaxandi kaupmáttar eins og það sé það eina sem skiptir máli í lífinu. Vissulega hefur margt batnað á Íslandi og við skulum ekki gleyma því að lífskjör eru almennt betri hér á landi en víðast hvar annars staðar enda vinna Íslendingar eins og þeir eigi lifið að leysa. Við búum við ómetanlegan frið, höfum nægt vatn og orku. Lýðræði er að mestu leyti virt og mannréttindi yfirleitt ekki brotin nema á konum og fötluðum (sennilega útlendingum líka). Það er sem sagt ekki ALLT í lagi. Hér eins og annars staðar eru hópar sem eru utanveltu, eiga erfitt eða brotið er á með einhverjum hætti. Það þýðir ekki annað en að horfast í augu við það og taka á málum. Það hefur ekki verið gert, hvað sem stjórnvöld segja og það hefur gengið mikið á þetta kjörtímabil. En minni okkar virðist afar bágborið. Það stefnir jafnvel í að enn einu sinni eigi að kjósa yfir okkur sömu ríkisstjórn. Ég hefði haldið að tími væri kominn til að gefa þeim flokkum sem hana skipa langt frí, eða eins og bróðursonur minn segir: hvað um ríkisstjórn með ZERO Framsókn? Hvað um ríkisstjórn með ZERO Sjálfstæðisflokk? Ég ætla að rifja upp nokkrar staðreyndir frá tímabilinu 2003-2007.

1. Írakstríðið. Í mars 2003, nokkrum vikum fyrir kosningar ákváðu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, án þess að bera málið undir Alþingi, að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða, þ.e. að lýsa yfir stuðningi við stríðsrekstur Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Skoðanakannanir sýndu að 80% þjóðarinnar var á móti stríði í Írak en þeir félagar létu það sem vind um eyru þjóta. Þessi ákvörðun var harðlega gagnrýnd en allt kom fyrir ekki. Ríkisstjórnin hefur enn ekki fengist til að draga stuðninginn til baka þrátt fyrir að tíminn hafi leitt í ljós hvílík hörmungarmistök innrásin í Írak var. Þar er allt í kaldakoli. Þar geisar borgarstríð eins og sagan kennir okkur að verður nánast alltaf raunin þegar samfélög eru sett á annan endann og valdakerfi steypt. Hundruð þúsunda Íraka liggja í valnum og milljónir eru á flótta. Allt var þetta fyrirséð en það var ekki hlustað. Fyrir utan að styðja þetta hræðilega stríð hefur mér alltaf þótt hvað alvarlegast að íslensk stjórnvöld skyldu taka þátt í þeirri aðför sem þessi innrás var að Sameinuðu þjóðunum. SÞ voru hunsaðar og hafa ekki borið sitt barr síðan. Ákvörðun þeirra Davíðs og Halldórs var mikið óheillaspor.

2. Jafnréttismálin. Strax eftir kosningarnar 2003 kom í ljós að hlutur kvenna hafði minnkað á Alþingi úr 36% í 31%. Þetta var mikið áfall og afturför. Á kjörtímabilinu hefur talan hækkað upp í það sem hún var áður þar sem hver karlinn á fætur öðrum hefur haldið á vit nýrra starfa sem forstjórar, bankastjórar og sendiherrar, þar á meðal þeir Davíð og Halldór sem ekki standa skil gerða sinna á þesu vori. Sagan gæti endurtekið sig vegna þess hve fáar konur skipa efstu sæti á framboðslistum. Hver könnunin á fætur annarri hefur leitt í ljós að launamunur kynjanna minnkar ekki. Kynbundinn launamunur er 15,7% samkvæmt könnun Capacent frá 2006. Stór hópur kvenna hefur skammarlega lág laun og enn einu sinni hyggja kvennastéttir á aðgerðir til að reyna að rétta hlut sinn. Þátttaka kvenna í umfjöllun fjölmiðla stendur í stað, var og er 30%. Konum fjölgar löturhægt sem stjórnendum og stjórnarmönnum stórfyrirtækja þrátt fyrir mikla menntun. Það eru ekki konur sem taka þátt í útrás víkinganna. Kynbundið ofbeldi er síst minna hér á landi en annars staðar og mikil þörf á aðgerðum. Það er loks búið að samþykkja aðgerðaáætlun en það vantar peninga og rannsóknir til að fylgja henni eftir. Það er svo sannarlega þörf á að setja jafnréttismál í forgang en það er svo langt í frá að það hafi verið gert á þessu kjörtímabili fremur en hinum fyrri.

3. Gamla fólkið. Heldri borgurum þessa lands fjölgar jafnt og þett og þeir eru hundóánægðir með kjör sín. Það hefur lengi verið skortur á úrræðum fyrir veikt gamalt fólk. Ástandið hefur samt aldrei verið verra en nú. Á þessu kjörtímabili hef ég fylgst með baráttu nokkurra vina minna við að koma fárveikum foreldrum sínum inn á hjúkrunarheimili. Það hefur gengið seint og illa enda skorturinn á slíkum heimilum yfirþyrmandi. Vinnandi fólk á afar erfitt með að taka að sér veika foreldra og það er þjóðfélaginu ekki til góðs að fólk þurfi að minnka við sig vinnu eða sífellt að taka sér frí til að geta sinnt öldruðum foreldrum. Gamla fólkið á skilið góða þjónustu. Það hefur borgað sína skatta og skyldur auk þess að ala okkur upp. Ástandið í málefnum aldraðra er til háborinnar skammar.

4. Geðfatlaðir. Siðustu daga höfum við enn einu sinni verið minnt á aðstöðuleysi barna með geðræna sjúkdóma.  Hvað er mikilvægara í þessum heimi en líðan barna? Biðlistarnir eru langir bæði vegna skorts á plássum en ekki síður vegna skorts á starfsfólki. Hvernig er hægt að halda uppi þjónustu við sjúka og aldraða ef launin verða ekki bætt. Það skortir pláss á geðdeildum, það vantar búsetuúrræði og það vantar vinnu fyrir geðfatlaða. Enn eitt málefnið sem er til skammar hjá okkur.

5. Fjölmiðlamálið. Vorið 2004 ákvað ríkisstjórnin að hefja herferð gegn samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum (svokölluðum Baugsmiðlum). Þetta var sannarlega mál sem vert var að ræða en brussugangurinn var svo mikill og svo augljóst að það átti að klekkja á Baugi að þjóðinni blöskraði. Mótmælt var í miðbæ Reykjavíkur dag eftir dag og á endanum batt forseti Ísalnds enda á málið með því að neita að undirrita lögin. Það þýddi að málið skyldi lagt fyrir þjóðina en það mátti alls ekki. Ríkisstjórnin tók ekki séns á afleiðingum þjóðaratkvæðagreiðslu og dró lögin til baka. Þarna voru á ferð fádæma vinnubrögð og yfirgangur stjórnvalda sem kjósendur ættu að minnast.

6. Samþjöppun efnahagslegs valds og Baugsmálið. Á kjörtímabilinu (og reyndar áður) hefur átt sér stað gífurleg samþjöppun efnahagslegs valds. Lítill hópur karla á nánast öll stærstu fyrirtæki landsins og til er orðinn hópur vellríkra karla sem kaupir sér íbúðir í London eða New York og fjárfestir út um allan heim. Það er von að kaupmáttur aukist! Allt er þetta hluti af alþjóðavæðingu en ég spyr hvort þessi mikla samþjöppun geti ekki orðið hættuleg. Þessi hópur getur haft mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf  með ákvörðunum sínum um að kaupa eða selja og flytja fyrirtæki úr landi (eða inn í landið) ef þeir kjósa. Ekkert hefur verið gert til að koma í veg fyrir þessa miklu samþjöppun eða draga úr henni, setja skorður. Slík lög eru meira en hundrað ára gömul í Bandaríkjunum. Þess í stað hafa verið rekin endalaus málaferli gegn einni samsteypunni - Baugi - þar sem ríkissaksóknari hefur tapað hverri orustunni á fætur annarri. Þessi málaferli lykta vægast sagt af pólitískum ofsóknum eins og margoft hefur verið bent á. Óháðir aðilar ættu að rannsaka hvernig innrásin í skrifstofur Baugs kom til og hvernig málum hefur verið stýrt. Það er hins vegar engin hætta á að slík rannsókn fari fram ef svo heldur fram sem horfir.

7. Stóriðjustefnan. Ég gæti skrifað langt mál um stjóriðjustefnuna og mun gera það síðar. Það sem ég ætla að segja hér er þetta: Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álvers og mikið hefur verið rætt um stopp í nokkur ár. Forsætisráðherra segir að ekkert muni gerast á næstu árum. Staðreyndin er hins vegar sú að undirbúningur er á fullri ferð vegna álvera í Helguvík, á Keilisnesi og Húsavík með öllum þeim afleiðingum sem þau munu hafa. Fleiri virkjanir, fleiri verksmiðjur, meiri mengun, meira land eyðilagt, hrikaleg línustæði og línur um allar trissur. Enn meira innflutt vinnuafl (sem sífellt er verið að brjóta á), spenna í hagkerfinu og kolröng áhersla í atvinnumálum. Íslendingar virðast ætla sér að vera á iðnaðarstiginu meðan Evrópa stefnir hraðbyri inn í þekkingarþjóðfélagið sem vel að merkja þýðir að hverfa frá nýtingu náttúruauðlinda til nýtingar mannauðs og þekkingar, að framleiða og selja þekkingu. Til að mynda mun þekking á lausn umhverfisvandamála verða mikil auðlind í framtíðinni. Nei, fólk utan Reykjavíkur á að vinna í verksmiðjum en við í borginni verðum í hálaunastörfunum, menntum þjóðina, stýrum fjármálunum og stjórnum landinu. Það er verið að keppast við að mennta þjóðina og er hlutfall háskólamenntaðra nú um 25% vinnuaflsins og fer ört vaxandi. Það vantar störf fyrir háskólamenntað fólk en skortir vinnuafl meðal ófaglærðra. Í álverinu í Straumsvík eru 15% starfsmanna með háskólamenntun.  Í álverunum verða ekki störf fyrir allt þetta menntaða fólk. Ég spái því að vinnuafl fyrir álverin verði meira og minna flutt inn en hvað verður um menntaða fólkið, flytur það úr landi í leit að störfum við sitt hæfi? Stóriðjustefnan er tímaskekkja.   

Ég gæti haldið áfram lengi enn, læt þó staðar numið. En - er ekki kominn tími til að tengja? Taka gamla álsamfélagið úr sambandi og setja nýja tima í samband, tíma sjálfbæra samfélagsins sem setur þekkingu og virðingu við náttúruna í forgang.     

 


Af ljóskum og jafnrétti

Í veikindunum hef ég lesið blöðin vandlega og reynt að fylgjast með kosningaumfjöllun fjölmiðlanna svona eftir því sem heilsan hefur leyft, auk þess að kíkja í póstinn minn. Á póstlista feminista hefur verið mikil umræða um ummæli Jóns Baldvins um "ljóskuna í menntamálaráðuneytinu" sem hann lét falla í Silfri Egils síðast liðinn sunnudag. Menn eiga að sjálfstögðu að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn en þessi orð endurspegla ótrúlega kvenfyrirlitningu og hroka og eru Jóni til litils sóma. Þetta er einmitt það sem Karen Ross var að vekja athygli á í fyrirlestri sínum um daginn. Það er fjallað örðu vísi um konur en karla með áherslu á útlit þeirra, einkum í þeim tilgangi að gera lítið úr þeim. Það vita allir að orðið "ljóska" er niðurlægjandi og tengt heimsku. Það á Þorgerður Katrín engan veginn skilið enda kemur útlit hennar málinu ekkert við. Mér fannst stórkvenlegt hjá Svandísi Svavarsdóttur að sýna Þorgerði samstöðu í Mogganum í morgun. Hvar sem við stöndum í stjórnmálum, þá viljum við ekki svona karlrembuummæli um konur. Við viljum réttláta og sanngjarna umræðu, takk. 

Auglýsing Íslandshreyfingarinnar vakti athygli mína í morgun en þar var verið að kynna Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking og hugmynd hennar um að gera norræna reynslu í jafnréttismálum að útflutningsvöru. Mjög athyglisverð hugmynd. Við gætum komið upp öflugri norrænni rannsóknar- og fræðslumiðstöð í jafnréttismálum sem beindi sjónum að öllum heiminum. Þótt margt megi betur fara í jafnréttismálum á Norðurlöndum þá höfum við mikla reynslu og töluverða sérstöðu hvað varðar baráttuaðferðir (t.d. kvennalistar), lög og eftirfylgni þeirra (t.d. bann við kaupum á vændi í Svíþjóð) og glímu við hraðar þjóðfélagsbreytingar sem m.a. hafa birst í breyttri stöðu kvenna. Nú síðast hefur það gerst að konur eru komnar í meirihluta í ríkisstjórn Finnlands, í fyrsta sinn í sögunni og er ástæða til að óska Finnum til haminjgju með það. Svo ætla Norðmenn að feta í fótspor Svía og banna kaup á vændi. "First we take Manhattan, then we take Berlin". Ísland skal verða næst!!!

En talandi um konur í meirihluta. Í danska sjónvarpinu er nú (á þriðjudagskvöldum) verið að sýna bresku sjónvarpsseríuna The Amazing Mrs. Pritchard (frá BBC). Þessi sería er í sex þáttum og þegar er búið að sýna tvo þætti.  Ég hef aðeins séð brot en hún virðist mjög skemmtileg. Söguþráðurinn er eftirfarandi: Frú Pritchard er framkvæmdastjóri stórmarkaðar, gift og tveggja dætra móðir. Dag einn verður hún vitni að eins konar framboðsfundi fyrir komandi þingkosningar fyrir utan miðstöðina og verður svo hneyksluð á fíflaganginum og bullinu að hún ákveður að bjóða sig fram sjálf til að sýna að hún (og reyndar hver sem er) séu betri fulltrúar þjóðarinnar en þau skrípi sem einkenni þingið. Hún fær þegar í stað rífandi undirtektir og til verður hreyfingin "Purple Alliance" (Fjólubláa bandalagið - hér má skjóta því inn að fjólublái liturinn var annar af litum bresku súffragettanna). Þar er skemmst frá að segja að Pritchard og stuðningskonur/menn hennar vinna kosningarnar og fella ríkisstjórn Tony Blair! Pritchard flytur inn í Downingstræti 10 og er kölluð á fund drottningar. Hún skipar ríkisstjórn þar sem ráðherrar(frúr) eru eingöngu konur. Fyrsta ákvörðun þeirra er að flytja þingið frá Whitehall i London út á landi til að losna undan Lundúnavaldinu og færa það nær fólkinu sem Pritchard skýrir í þrumandi ræðu. Þetta eru auðvitað talin helgispjöll og stjórnarandstaðan (sem er nær eingöngu skipuð körlum) verður alveg vitlaus. Það verður fróðlegt að sjá hvað úr verður en málin sem þarf að leysa hrannast upp á borðum ríkisstjórnarinnar nýju. Það er Sally Wainright sem er handritshöfundur en á netinu kemur fram að hún varð svo reið og leið yfir stöðu breskra stjórnmála í aðdraganda síðustu þingkosninga að hún ákvað að gera eitthvað í málinu, sýna aðra hlið á stjórnmálum og þá af sjónarhóli kvenna. Hvað er sterkara til þess en háð og grín.

Ég vona að við fáum að sjá hina frábæru frú Pritchard sem allra fyrst í íslensku sjónvarpi. Það reynir á hvort þeir sem þeim ráða vilja rétta af ískyggilegan kynjahallann í efni sjónvarpsstöðvanna.    

 

 

 


Risið upp úr flensu

Ég sé að nokkrir gestir hafa kíkt á bloggsíðuna mína undanfarna daga. Þeir hafa eflaust hugsað: hvað er þetta ætlar konan ekkert að skrifa? Skýringin á þögninni er sú að á síðast liðinn laugardag lagðist ég í flensu með hita og ógnarlegri barka- og raddbandabólgu og hef legið síðan. Ég er loks orðin hitalaus en næturnar eru erfiðar með þungum hósta. Það stendur ekki á ráðum sem kona fær liggjandi í flensu. Rommtoddý (romm í heitu vatni og helst hunangi í stað sykurs). Engifer í heitu vatni (ég er einmitt með fullt glas af þeim drykk hér á borðinu), hunang í skeiðatali og svo alls kyns jurtate. Það síðasta sem ég lærði í þessum fræðum var að vanillute væri töfralyf. Ég reyni það næst.

Það versta sem ég veit við veikindi er ef ég get ekki lesið. Að þessu sinni var það ekki raunin og því klára ég hverja bókina á fætur annarri en þær bíða ólesnar í stöflum. Sú frábæra saga Skuggi vindsins er að baki, Óafía sem ég byrjaði á um jólin en varð að leggja til hliðar er líka búin og svo las ég frábæra bók sem var að koma út, Skíðaferðina eftir Emmanuel Carrère. Þetta er ógnvænleg saga um lítinn dreng sem ég mæli eindregið með. Við vitum frá byrjun að hann bjargast og því verða raunir hans ekki óbærilegar. Fyrst ég er nú að skrifa um bækur þá er ég líka nýbúin að lesa tvær bækur eftir þann frábæra norska höfund Lars Saabye Christensen, Hermann og Módelið. Módelið er nýkomin út og er með bestu bókum sem ég hef lesið um árabil. Hermann kom út 2005. Hún er svo skemmtileg (um leið og hún er ljúfsár) að ég hló hvað eftir annað upphátt. Lars Saabye hefur skrifað mikið um drengi sem eru utanveltu á einhvern hátt eða verða fyrir áföllum. Hermann er einn af þeim. Hann lendir í veikindum og lýsir höfundurinn því frábærlega vel hvernig vonleysi og þunglyndi legst á þennan litla dreng. Í lokin er þó von. Hermann er alltaf að lenda í vandræðum og beitir öllum brögðum til að losna úr þeim, einkum frábærum tilsvörum. Hann kemur t.d. alltaf of seint í skólann af því að hann fer að glápa á eitthvað eða er að velta einhverju fyrir sér og þarf að ljúga sig út úr vandræðunum. Ég er svo rétt að byrja á Dætrum hússins eftir Michèle Roberts en hún kom út fyrir síðustu jól og er ein þeirra bóka sem tilnefnd var til þýðingaverðlaunana á dögunum.  Nóg um bækur og veikindi að sinni.


Launamisréttið úr sögunni 2070 eða 2633?

Það reynist vel að halda morgunverðarfundi um ákveðin málefni. Ellefu kvennasamtök boðuðu til stefnumóts við stjórnmálaflokkana í gærmorgun á Grand hótel. Þetta var fínn fundur þótt gestir hefðu mátt vera fleiri. Það kom reyndar ekki að sök því umfjöllun fjölmiðla var aldeilis ljómandi og ef skilaboðin komast út í samfélagið er tilganginum náð.

Eins og staðan er nú hafa konur að meðaltali 62% af launum karla en kynbundinn launamunur, þ.e. munur sem eingöngu verður skýrður með kyni er 15.7% samkvæmt könnun Capacent frá árinu 2006. Þessi mikli munur bæði á meðallaunum og kynbundnum launamun endurspeglar mismunandi stöðu kynjanna. Konur fá lægri laun, ákveðin ábyrgðarstörf sem konur sinna í mun ríkara mæli en karlar eru lægra metin til launa, konur vinna fremur hlutastörf en karlar af því að þær sinna fremur börnum og búi en karlar og þannig mætti áfram telja. Fram kom í erindi Lilju Mósesdóttur hagfræðings að launamunur kynjanna  er meiri hér á landi en í nokkru öðru landi í Evrópu. Þær skýringar sem hún setti fram voru m.a. veik jafnréttislöggjöf, en launaleynd er til að mynda bönnuð á Norðurlöndunum. Stjórnvöld sem ættu að ganga á undan með góðu fordæmi eru ívið skárri en einkageirinn en þó er mikið um láglaunastöf kvenna innan opinbera geirans. Þetta er auðvitað óþolandi ástand og það þarf svo sannarlega að breyta hugarfarinu gagnvart störfum kvenna!

Árið 1976 var gerð launakönnun í framhaldi af kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975. Sú könnun leiddi í ljós að laun kvenna í þéttbýli voru að meðaltali 45% af launum karla. Árið 2006 var hlutur kvenna almennt kominn upp í 62% samkvæmt skattaframtölum. Ef gengið er út frá þessum tölum og áfram þokast löturhægt má búast við að jöfnuði verði náð árið 2070. Mörður Árnason þingamður benti hins vegar á að ef miðað væri við þróun mála frá 1994 (þegar stór log sambærileg aunakönnun var gerð) mætti búast við að launajafnrétti yrði komið á árið 2633. Ég veit ekki hvað á að kalla þennan hraða. Hann er minni en hraði snigilsins. Það er eins gott að bretta upp ermar og þrýsta á aðgerðir.

Lilja Mósesdóttir benti á þrjár nauðsynlegar aðgerðir. Í fyrsta lagi að lögfesta nýtt frumvarp til jafnréttislaga þar sem m.a. er kveðið á um bann við launaleynd og jafnréttisstofu veittar skýrari heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Í öðru lagi að færa laun í hefðbundnum kvennastörfum til samræmis við laun í hefðbundnum greinum karla og í þriðja lagi að sett verði töluleg markmið til að draga úr launamun kynjanna næstu fimm árin. Það er ekki síst tillaga nr. tvö sem mér finnst brýnt að ræða. Eins og Lilja benti á er launamunurinn og vanmat á störfum kvenna þjóðfélaginu til mikils tjóns. Sífelld óánægja er meðal kvennastéttanna, t.d. kennara, sjúkrliða, hjúkrunarfræðinga o.fl. Þessir hópar hafa staðið í verkföllum og uppsögnum ár eftir ár sem auðvitað kosta ekki bara þá heldur samfélagið allt bæði vandræði og fé. Það er ekki gott, t.d. fyrir menntun barna að þær konur sem annast kennslu séu sífellt óánægðar eða hverfi á braut vegna þess að þeim finnst þær og störf þeirra lítils metin. Ég fullyrði að það sé mikill og stöðugur flótti úr kvennastéttunum yfir í önnur störf. Það er verulegur skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkráliðum enda gífurlegt álag á starfsfólki heilbrigðiskerfisins og nú er enn einu sinni mikill urgur í kennurum.

Hvernig ætlar íslenskt samfélag að verða samkeppnishæft þekkingarsamfélag (sem það er ekki samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins) sem byggist á háu menntunarstigi ef grunnurinn er lélegur? Það þarf að stórbæta kjör kennara og styrkja undirstöður velferðarkerfisins í stað þess að byggja bæði menntun og velferð á illa launuðum konum. Það gengur ekki lengur. Gott velferðarkerfi er einn helsti styrkur Norðurlandanna og hins norræna módels sem hefur gert Norðurlöndin að samkeppnishæfustu ríkjum heims. Meira um það síðar en það þarf svo sannarlega að grípa til markvissra aðgerða til að bæta launakjör kvenna. Karlarnir verða bara að gjöra svo vel að sætta sig við það og sitja hjá í næstu umferð.  


Tilboð á Laugavegi

Ég rölti upp Laugaveginn í blíðunni í gærkvöldi eftir að hafa notið Cavalleria Rusticana. Það var margt um manninn, erlendir ferðamenn voru greinilega að koma úr langferð, fólk að fá sér að borða á veitingahúsunum og aðrir á leið í bæinn. Mér var sagt fyrir nokkru að það væri starfandi hóruhús við Laugaveginn svo ég notaði tækifærið til að horfa upp í glugga til að reyna að átta mig á því um hvða hús væri að ræða. Ég hef engar sönnur á að þessi saga sé rétt en eitt hús kemur augljóslega til greina. Sem ég gekk fram hjá einni búllunni ofarlega við Laugaveginn snöruðust þar út tveir menn. Annar þeirra snéri sér að mér og spurði af einlægni, eins og ekkert væri sjálfsagðara: Langar þig ekki til að eiga barn með mér? Ég svaraði því til að það væri um seinan. Þar með var það mál tekið út af dagskrá en í staðinn vildi hann fá að vita hvernig mér litist á framboð Ómars. "Hvað er hann Ómar eiginlega að hugsa?",spurði hann sinni hásu röddu. Við ræddum það mál og stöðuna í kosningabaráttunni meðan við héldum áfram upp Laugaveginn. Hinn maðurinn steinþagði. Sá ræðni sagðist búinn að gera upp sinn hug. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann væri svona hás vegna þess að hann hefði verið skorinn á háls. Nokkru ofar við Laugaveginn kölluðu tveir náungar í hann og hann hljóp yfir götuna en kom að vörmu spori með þau tíðindi að þeir hefðu verið að bjóða sér eiturlyf en hann væri hættur öllu slíku. Þar með skildu leiðir.

Já, það er sem sagt boðið upp á eiturlyf og hugsanlega vændi á Laugaveginum. Þar eru svaðalegar búllur innan um fín veitingahús. Mér finnst það verulegt umhugsunarefni fyrir borgaryfirvöld hvernig hægt er að hreinsa Laugaveginn þannig að hann verði ekki að "rauðri" götu eða einhverju þaðan af verra. Hási náunginn sem vel að merkja var bæði ræðinn og kurteis og vinir hans verða einhversstaðar að vera en hvað á saman í miðborg Reykjavíkur? Reyndar varð mér hugsað hvaða sögu þessi maður ætti. Skorinn á háls en hættur í eiturlyfjum. Ég vona að hann fyrirgefi mér þessa frásögn, frétti hann af henni, og vonandi vegnar honum vel í lífsbaráttunni.   


Cvalleria Rusticana

Það var með hálfum huga sem ég fór í íslensku óperuna í gærkvöldi. Ég var með lausan miða en enginn vildi koma með mér. Sýningin hafði fengið heldur slælega dóma og því átti ég svo sem ekki von á miklu. En þvílík stemning! Það var klappað, stappað og flautað í lokin. Cavalleria Rusticana eftir Mascagni er einhver fallegasta ópera sem samin hefur verið (að mínum dómi) frá fyrsta stefi til hins síðasta. Kórinn hefði mátt vera betri á köflum en einsöngvararnir bættu það heldur betur upp og hljómsveitin var fín. Elín Ósk er fædd í hlutverk Santuzzu og var mjög dramatísk. Jóhann Friðgeir var mjög fínn og mikið er gaman að fylgjast með Ólafi Kjartani, hann verður sífellt betri. Ég er viss um að hann á eftir að ná langt með sína sterku og fallegu rödd - það geislar af honum krafturinn. Eins og fleiri óperur fjallar Cavalleria Rusticana um ástir, svik og afbrýðisemi sem leiða til óhamingju og dauða og það á sjálfum páskunum á Sikiley. Það er athyglisverður kynjavinkill í þessari óperu því Santuzza er "fallin" kona og á sér ekki viðreisnar von ef Turiddu giftist henni ekki. Þess í stað er hann drepinn vegna þess að hún sagði frá og örvætning hennar er hyldjúp. Þótt þetta sé mikið drama gekk ég út úr Gamla bíó alveg í skýjunum og raulaði stefin á leiðinni upp Laugaveginn. Boðskapurinn er: ekki taka of mikið mark á blaðadómum! Tónlistin stendur fyrir sínu.    

Konur í stjórnmálum

Það var gaman að hlusta á Karen Ross í gær í Norræna húsinu þegar hún fjallaði um fjölmiðla og konur í stjórnmálum. Karen hefur rannsakað fjölmiðla um árabil og rætt við stjórnmálakonur í Bretlandi, S-Afríku og Ástralíu. Hún er nú á leið til Nýja Sjálands en þar ætlar hún að ræða bæði við konur og karla í stjórnmálum til að fá samanburð á samskiptum þeirra við fjölmiðla. Upphafið er að finna í reynslu hennar sjálfrar frá því að hún bauð sig fram til borgarstjórnar og undraðist þá mjög hvernig  fjölmiðlar fjölluðu um hana. Þar er skemst frá að segja að alls staðar er sömu sögu að segja. Fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á aldri, klæðnaði, skartgripum eða klippingu kvenna en því hvað þær hafa fram að færa. Niðurstaða Karen Ross er sú að með slíkri umfjöllun sé stöðugt verið að gera lítið úr konum og draga úr trúverðugleika þeirra. Þær gera helst aldei neitt rétt. Ýmist eru þær of ungar eða gamlar, illa klæddar eða of ríkmannlega. Ráð kvenna eru þau að vera trúar sjálfum sér, passa að fjalla ekki eingöngu um mál sem leiða til þess að þær séu afskrifaðar af fjölmiðlum, heldur blanda sér í þær umræður sem fjölmiðlar telja til „stjórnmála“(gleyna þó alls ekki málefnum kvenna og barna), vera meðvitaðar um þær aðferðir sem fjölmiðlar beita, þar með talið hvernig ljósmyndir eru teknar af konum og gefa sem minnst færi á að vera negldar í staðalmyndir af móðurinni, glamúrgellunni eða karlkonunni. Konur þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að þær sitja ekki við sama borð og karlar og hætta að afneita því. Dæmin eru allt of mörg og alveg sama hvort um er að ræða kratann Monu Sahlin eða íhaldskonuna Angelu Merkel í Þýskalandi.

Fjöldi rannsókna á fjölmiðlum staðfesta niðurstöður Karen Ross og sýna að þeir taka allt öðru vísi á konum en körlum. Fyrir allmörgum árum var gerð rannsókn í Danmörku sem leiddi í ljós að almennt fjölluðu fjölmiðlar neikvætt um konur í stjórnmálum og hömuðust á ákveðnum konum. Þáverandi menntamálaráðherra krata hét Jytte Hilden og það var alveg sama hvað hún gerði. Ef ekki var hægt að tæta í sundur eitthvað sem hún sagði þá var það klippingin eða klæðnaðurinn. Svo velja fjölmiðlar sér eina konu sem þeir hampa. Ég læt því ósvarað hver er í því hlutverki hér á landi nú um stundir. Á fyrstu árum Kvennalistans á þingi voru þingkonur hans fastagestir á listum yfir verst klæddu konur landsins. Þær voru auðvitað ekki almennilegar KONUR. Það þarf vart að minna á meðferðina á Monu Sahlin. Henni varð á í messunni og gerði dýrkeypt mistök en að lokum var hún  sýknuð af skattayfirvöldum en varð að segja af sér eftir að hafa farið í frí til Máritiíus ásamt aðstoðarmanni og lífvörðum, sem sagt á kostnað skattgreiðenda. Sænskir fjölmiðlarnir hökkuðu hana í spað og hafa alið á tortryggni í hennar garð. Hún reis samt upp að nýju og er nú formaður sænska Sósíaldemokrataflokksins. Allt áhugafólk um stjórmál ætti að lesa Krónprinsessuna eftir Hanne Vibeke Holst. Hún kom út á íslensku fyrir nokkrum árum og er byggð á talsverðri rannsóknarvinnu. Kveikjan að bókinni var herferðin gegn Monu Sahlin.  

Fyrir nokkrum dögum las ég grein um Nancy Pelosi sem nú er forseti Bandaríska þingsis. Hún er hatramur andstæðingur Írakstríðsins, styður frjálsar fóstureyðingar og hefur beitt sér í réttindamálum samkynhneiðgra. Hún er kona með sterkar skoðanir en þykir afar klók og mikil samningakona sem hefur tekist að þjappa demokrötum saman. Þegar Bush flutti síðustu
stefnuræðu sína sat hún sem fastast og klappaði ekki fyrir honum. Hún hefur setið í 20 ár á þingi. Þegar hún tók við embætti höfðu blöðin það helst um hana að segja hvað hún hefði verið í fínni dragt og með dýra skatrgripi (það þarf ekki að taka fram að hún er vellrík enda komast ekki
aðrir á þing í USA). New York Times setti í fyrirsögn á forsíðu: Ræður hún við starfið? (Can she do the job?). Eftir 20 ár á þingi! Hvað er nú þetta annað en kvenfyrirlitning. Konur eru ekki velkomnar inn í völundarhús karlveldisins og þær fá að finna fyrir því enda gefast margar upp.

Um þessar mundir er verið að endurtaka rannsókn frá árinu 2003 en þá var fylgst með hlut kvenna og karla í spjallaþáttum í útvarpi og sjónvarpi. Árið 2003 var hlutur kvenna 24% sem er auðvitað ekki í neinu samræmi við þátttöku kvenna í þjóðlífinu. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú fjórum árum síðar og hvort heimsókn Karen Ross leiðir til þess að fjölmiðlar líti í eigin barm. Ekki veitir af.


Kosningahegðun kynjanna

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur flutti stófróðlegan fyrirlestur hjá RIKK núna í hádeginu. Hann hefur fengist við kosningarannsóknir um árabil og hefur verið að skoða mismunandi kosningahegðun kynjanna hér á landi. Í ljós kemur að munur á konum og körlum fer sívaxandi og stefnir í að hann nái nýrri hæð í kosningunum 12. maí ef marka má skoðanakannanir. Þessi munur er töluvert meiri hér en á hinum Norðurlöndunum sem vekur margar spurningar, einkum um flokkakerfið og afstöðu til velferðarmála sem eru konum mjög hugleikin.

Markvissar kosningarannsóknir hófust hér á landi árið 1983 en það var einmitt þá sem Kvennalistinn bauð fyrst fram til Alþingis. Árið 1983 mældist fremur lítill munur á konum og körlum en Kvennalistinn fékk þó megnið af sínu fylgi frá konum. Frá og með 1987 varð breyting á og síðan hafa konur kosið í sífellt meira mæli til vinstri. Kvennalistinn skilgreindi sig sem nýja vídd í stjórnmálum en ef viðmiðið er fyrst og fremst afstaða til velferðamála og hlutverks ríkisins við að tryggja jöfnuð þegnanna var Kvennalistinn vissulega til vinstri auk þess sem hann var andvígur ríkjandi stóriðjustefnu og lagði mikla áherslu á umhverfismál. Svo virðist sem kjósendur Kvennalistans hafi aðallega skilað sér til Samfylkingarinnar fyrst eftir að ævi hans lauk en nú liggur straumur kvenna yfir til VG.

Rannsóknir Einars Mars leiða í ljós að karlar eru mun flokkshollari en konur og að það eru málefnin fyrst og fremst sem ráða afstöðu kvenna. Það virðist líka hafa áhrif hvort konur eru ofarlega á lista. Konur kjósa konur og málefni. Samkvæmt því sem fram kom hjá Einari er verulegur munur á afstöðu kynjanna einkum til velferðarmála og umhverfismála eins og fam hefur komið í fréttum.

Í umræðum á eftir var spurt hvers vegna sjónum væri ekki beint að körlum? Hvers vegna eru karlar svona hægrisinnaðir? Er skýringin sú að þeir eru tengdari valdakerfinu og vinna í ríkara mæli í einkageiranum en konur? Það var líka bent á hve fylgissveiflurnar eru nátengdar stöðu efnahagsmála á hverjum tíma. Það er atriði sem vert væri að kanna nánar. Hefur sú mikla samþjöppun sem orðið hefur undanfarin ár á efnahagslegu valdi í höndum lítils hóps vellríkra karla, leitt til þess að munurinn á kjörum karla og kvenna hefur orðið augljósari en áður? Er það ein skýringin á því að konur streyma til vinstri? Það er líka athyglisvert að þegar Sjálfstæðar konur voru hvað virkastar innan Sjálfstæðisflokksins var kynjamunur hvað minnstur þar á bæ meðal kjósenda. Það er nokkuð sem sá flokkur mætti læra af. Samfylkingin sem hefur verið að missa fylgi kvenna þarf hins vegar að átta sig á því að það eru málefnin sem skipta mestu. Þar þarf hún að skerpa áherslur og tala til kvenna ætli hún sér að ná flugi að nýju og taka þátt í að fella ríkisstjórnina.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband