10.5.2007 | 20:51
Blessuð litlu börnin
Eitt það hræðilegasta sem ég get hugsað mér er að lenda í viðlíka hremmingum og foreldrar litlu stúlkunnar Madeleine sem nú er leitað í Portúgal og á Spáni. Hvernig skyldi litla anganum líða ef hún er á lífi? Að bíða eftir fréttum af barninu sínu lífs eða liðnu við þessar kringumstæður, það er ekki hægt að ímynda sér neitt skelfilegra. Megi þjáningum foreldranna ljúka sem fyrst og vonandi finnst barnið á lífi. Það verður þó mikið verk að hjálpa litlu stúlkunni í gegnum það "trauma" sem ránið á eftir að valda henni.
Í Bandaríkjunum var að ljúka afar sérstöku máli (kannski bara fyrri hluta þess) sem einnig snertir lítið barn. Í dag féll dómur yfir foreldrum um þrítugt sem dæmd voru í ævilangt fangelsi fyrir að svelta sex vikna gamlan son sinn til dauða. Þau eru grænmetisætur og gáfu barninu aðeins sojamjólk og eplasafa að borða. Það var alls ekki nóg. Barnið tærðist upp og dó. Foreldrarnir fóru ekki með barnið til læknis þótt þeim ætti að vera ljóst að drengurinn var ekki heill heilsu. Þau voru að yfirfæra lífsstíl sinn yfir á barnið og svo virðist sem þau hafi talið móðurmjólkina til óhollustu eins og aðrar mjólkurvörur. Sérkennileg hugmyndafræði að ímynda sér að sú ráðstöfun náttúrunnar að mæður framleiði mjólk handa afkvæmi sínu sé af hinu illa.
Ég veit ekki hvaða lærdóma á að draga af þessum tveimur sorgarsögum. Kannski fyrst og fremst að gæta barnanna betur og láta þarfir ÞEIRRA sitja í fyrirrúmi ekki eigin þarfir eða skoðanir. Þar með er ég ekki að álasa foreldrum Madeleine, þau voru rétt hjá en það má greinilega ekki af börnum líta í þessum heimi barnaníðinga og líffærasölu eða hvað það nú er sem fyrir barnsræningjunum vakir.
Þáð má lesa nánar um dóminn í Bandaríkjunum á www.politiken.dk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 18:02
Hvað leyfist stjórnmálamönnum?
Í Dagens Nyheter í gær var mikil umfjöllun um það uppátæki Göran Persson fyrrverandi forsætisráðherra að ráða sig í hálft starf sem ráðgjafi stórfyrirtækis. Með þessu athæfi er hann að rjúfa hefðir krata og að fara yfir línu sem hingað til hefur skilið að og verið skýr. Í Svíþjóð eru menn annað hvort verkalýðs/kratamegin eða borgaramegin.
Vangaveltur bæði krata og þeirra sérfræðinga sem blaðið leitaði til ganga út á það hvað stjórnmálamönnum leyfist. Það má ljóst vera að maður eins og Persson býr yfir mikilli þekkingu á sænsku þjóðfélagi, stjórnmálaflokkum, verkalýðshreyfingunni, innviðum stjórnkerfisins og alþjóðamálum. Hann er því mikill fengur fyrir hinn nýja vinnuveitenda sinn. En getur hann skaðað einhvern? Býr hann yfir þekkingu sem getur nýst fyrirtækinu þvert á hagsmuni ríkisins eða almennings? Það er ekki gott að segja.
Er það siðferðilega rétt að stjórnmálamenn sem hafa verið kjörnir sem fulltrúar fólksins - almannavaldsins - gangi til liðs við stórfyrirtæki? Í spurningunni felst nánast að um andstæða hagsmun i sé að ræða milli fyrirtækisins og almennings. Er Persson að svíkja þá sem trúðu honum og treystu árum saman? Er hann að gera flokki sínum óleik? Er þá enginn munur á þessum tveimur fylkingum þegar betur er að gáð? Um það snýst umræðan. Einn stjórnmálafræðinganna sem blaðið ræðir við telur að það beri að setja stjórnmálamönnum siðareglur, það megi ekki varpa skugga á stjórnmálin með þessum hætti og gera stjórnmálamenn ótrúverðuga.
Þetta er athyglisverð umræða sem ég efast um að gæti komið upp hér á landi. Hér erum við svo vön því að sumum stjórnmálamönnum (körlum ) sé "reddað" með embættum eða öðrum störfum að við spyrjum ekki einu sinni hvort þeir geti þar með verið að skaða almannahagsmuni. Það er í það minnsta vert að velta þeirri spuningu fyrir sér þótt erfitt sé að sjá í hverju hættan er falin.
Í raun held ég að aðalmálið sé brot Perssons á hefðum. Hann er að kaupa sér herragarð í stað þess að búa í blokk eins og gömlu krataleiðtogarnir sem bjuggu innan um sitt fólk. Hann ætlar nú að vera í ráðgjafastarfi við hlið þingmennskunnar, enda vantar hann pening fyrir herragarðinum, segir einn kratanna í DN. Hann er að stilla sér upp við hlið ríku borgaranna og það líkar krötum ekki. Hann er að draga úr þeim andstæðum sem sænsk stjórnmál hafa byggst á í meira en 100 ár. Fróðlegt verður að sjá hvernig kratarnir bregðast við og hvort þeir sverja Persson af sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 11:56
Af hverju Hjálmar?
Ég hef verið að bíða eftir skýringu á því hvers vegna Hjálmar Árnason þingmaður var ráðinn til að stýra uppbyggingu væntanlegs starfsgreinaháskóla á Keflavíkurflugvelli ásamt Runólfi Ágústssyni eða er þetta ekki örugglega sama stofnunin? Kjörtímabilið er ekki einu sinni búið en Hjálmar er kominn í vinnu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig öllum hinum þingmönnunum sem eru að hætta gengur að fá vinnu og hvort konunum gengur jafn vel og körlunum. Í það minnsta hefur enn einn karlinn verið valinn til að vinna að stofnun hins nýja skóla. Koma konur bara alls ekki til greina? Er nema von að spurt sé hvernig staðið var að þessari ráðningu.
Já, hvers vegna var Hjálmar ráðinn? Hver réði hann? Var staðan auglýst? Hefur Hjálmar prófessorsgengi? Þarf ekki manneskju með doktorspróf til að stýra skóla á háskólastigi? Sú krafa er alla vega gerð innan Háskóla Íslands. Hjálmar hefur M.Ed próf í skóalstjórnun og reyndist vel sem skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum. En gilda ekki sömu reglur um hann og aðra sem ráðnir eru til háskólastofnana? Hvaða stofnanir koma að þessari ráðningu? Ég veit ekki betur en að Háskóli Íslands sé aðili að þessu verkefni. Samþykkti hann þessa ráðningu? Eða er ég að misskilja allt þetta mál? Það væri fróðlegt að fá skýringar á þessari ráðningu sem enginn fjölmiðill hefur fjallað um svo ég viti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 11:36
Grænt eða grátt?
Nú eru aðeins tveir dagar til kosninga og línur vægast sagt óskýrar. Fellur ríkisstjórnin eða heldur hún velli. Það er greinilega möguleiki á að fella hana en einhvern veginn hefur stjórnarandstöðunni ekki tekist að undirstrika nægilega vel nauðsyn breytinga. Því geta úrslitin orðið á hvorn veginn sem er. Ég veit ekki hvort ástæðan er ótti við að loka leiðum fyrirfram með sterkum yfirlýsingum eða ómarkviss kosningabarátta.
Ég lærði á ferð minni um Bandaríkin fyrir rúmlega áratug að besta leiðin í kosningabaráttu sé að einbeita sér að fáum málum, draga fram það sem skilur á milli. Mér finnst íslenskir stjórnmálaflokkar vera með allt of mörg mál undir. Það eru atvinnumálin, samgöngumálin, stóriðjustefnan, heilbrigðismálin, velferðarkerfið o.s.frv. Hins vegar komast stórmál eins og mennta- og jafnréttismál lítt á dagskrá fjölmiðlanna þrátt fyrir þá staðreynd hve mikilvægt fylgi kvenna er. Allt eru þetta mikilvæg mál en til að ná athygli og árangri þarf að draga áhersluna saman í örfá og skýr skilaboð. Þetta var það sem Blair og félögum tóks 1997, fyrir nákvæmlega 10 árum, reyndar eftir margra ára yfirlegu. Þótt mér finnist Blairstjórnin hafa farið illa með vald sitt og komið sér í ótrúlegar ógöngur, ekki síst með Írakstríðinu, þá var leið hennar til valda allrar athygli verð.
Eftir endurtekna ósigra tók Verkamannaflokkurinn sér fjögur ár í að liggja yfir breytingum á bresku samfélagi, spurði sig grundvallarspurninga og skilgreindi leiðir til úrbóta, auk þess að velja sér nýja forystu. Eitt af því sem úttekt þeirra leiddi í ljós var breytt stéttaskipting. Fækkað hafði mikið í þeim hópum sem alla tíð höfðu myndað kjarnann í flokknum, einkum í röðum verkafólks, t.d. meðal námuverkamanna, starfsmanna bjóriðnaðarins og fleiri greina. Þess í stað hafði fjölgað mjög í röðum millistéttarfólks, þeirra sem unnu í þjónustugeiranum. Þangað var fylgi að sækja en hverjar voru þarfir þeirra hópa? Í ljós kom að hin sívaxandi millistétt hafði mestan áhuga á menntun barna sinna og nauðsynlegri þjónustu fyrir vinnandi fólk, karla sem konur. Verkamannaflokkurinn skilgreindi nokkur slík mál og lagði meginherslu á þau. Þetta kunnu ekki allir að meta og ég minnist þess að biskupinn af Kantaraborg ásakaði breska stjórnmálaflokka um að hafa gleymt hinum fátæku og þeim sem stóðu höllum fæti í þjóðfélaginu. Það sem læra má af Verkamannaflokknum er nauðsyn þess að skilgreina þarfir nútímafólks, karla, kvenna og ekki síst barna af mismunandi þjóðerni og menningu, en gleyma ekki þeim sem minnst mega sín.
Að mínum dómi ættu kosningarnar á laugardag að snúast um það hvers konar þjóðfélag við ætlum að þróa hér á landi á næstu áratugum. Grænt eða grátt. Gamaldags iðnaðar- og stóriðjusamfélag eða samfélag sem leggur áherslu á þekkingarsköpun, menningarhagkerfið, fjölbreytni og velferð fyrir alla. Það þýðir líka sjáflbært samfélag sem byggist á virðingu við náttúruna. Það þýðir líka að það er ekki og verður ekki hægt að halda áfram á sömu braut. Það er iðnaðar- og hagvaxtarstefnan, sem byggist á gegndarlausri neyslumenningu vesturlandabúa sem er aðalsökudólgurinn að baki þess umhverfisvanda sem blasir við okkur, hvar sem við búum á jörðinni. Sá vandi kallar á nýjar lausnir og breytt samfélag. Það verður að draga saman seglin, draga stórlega úr loftmengun, ef okkur á að takast að bjarga jörðinni. Það er mikil blekking að halda að hægt verði að halda áfram á sömu braut. Það þýðir miklu færri bíla, nýtt eldsneyti, stórauknar almenningssamgöngur, mun minni ferðalög, minni flutninga með hráefni (t.d. báxít fyrir íslensku álverin) og þannig mætti áfram telja. Nýjar orkulindir, verði þær til, duga ekki til. Í sjálfbæru samfélagi framtíðarinnar verður eigin matvælaframleiðsla ómetanleg.
Valið snýst því um græna samfélagið og að snúa af eyðingar- og eyðileggingarbrautinni eða gráa samfélagið með einhæfni og mengun. Við eigum ekki að taka að okkur mengunariðnaðinn sem er að flýja hækkandi orkuverð og væntanlega mengunarskatta og eyðileggja um leið íslenska náttúru. Allt tal um vistvæna orku og endurnýjanlegar orkulindir er kjaftæði. Hvernig getur það verið vistvænt að eyðileggja stór landsvæði? Hvað um eiturefnin sem dælt er upp úr jörðinni í gufuaflsstöðvunum? Hvað um loftmengunina frá þeim? Þessi vandamál hafa alls ekki verið leyst. Borholurnar tæmast á mislöngum tíma og það að dæla upp öllu þessu vatni getur valdið landsigi. Hefur það verið rannaskað hér á landi? Ég bara spyr? Hvers vegna fara fjölmiðlar ekki ofan í þessa umræðu og kanna hvað er á bak við fögru orðin? Gleymum ekki þeirri grundvallarspurningu: hvers vegna er orkan svona ódýr á Íslandi? Í þessu rándýra landi? Af hverju er ekki spurt um það? Við fáum ekki einu sinni að vita hvert verðið er en það er greinilega lægra en í flestum öðrum löndum. Hvernig stendur á því? Enn einu sinni segi ég: það verður að að skera mengunariðnaðinn stórlega niður og eins gott að horfast í augu við það.
Grænt eða grátt? Sjá http://kjosa.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 10:33
Þetta gengur ekki
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 20:31
Spádómar um forseta í Frakklandi
Bloggar | Breytt 2.5.2007 kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.5.2007 | 19:09
Hitnar í kolunum í Tyrklandi
Það ríkir einkennilegt ástand þessa dagana í Tyrklandi. Stjórnarskrárdómstóll og herinn eru að reyna að koma í veg fyrir að heittrúarmaður verði kjörinn forseti landsins og það gæti stefnt í átök. Frá því á þriðja áratug 20. aldar hefur Tyrkland verið veraldlegt ríki þar sem greint er á milli trúarlegs og veraldlegs valds. Byltingarmaðurinn Mustafa Kemal og stuðningsmenn hans reyndu m.a. að útrýma blæjunni sem konur gengu með og er hún enn bönnuð í opinberum byggingum. Islamistum hefur vaxið fiskur um hrygg og eru nú við stjórnvölinn.
Þegar ég las um ástandið í Tyrklandi rifjaðist upp fyrir mér fyrirlestur sem ég hlustaði á í fyrrasumar á kynjafræðiráðstefnu í Lodz í Póllandi. Þar ræddi tyrkneski mannfræðingurinn Ayse Gül Altinay um hernaðarhyggju sem tröllríður tyrknesku samfélagi og byggist á því að Tyrkir séu hernaðarþjóð og að allir landsins synir séu fæddir hermenn. Þessi "hugsjón" felur í sér réttlætingu á endalausu ofbeldi og yfirgangi gagnvart minnihlutahópum og stutt í að gripið sé til vopna. En hugsjónin felur líka í sér mótsagnakennda afstöðu til kvenna.
Árið 1915 stóðu tyrknesk stjórnvöld fyrir fjöldamorðum á armenska minnihlutanum sem bjó innan hins víðlenda Tyrkjaveldis sem reyndar var í andaslitrunum. Talið er að hundruð þúsunda Armena hafi ýmist verið drepnir eða reknir á flótta. Margvíslegar heimildir eru til um þessa útrýmingu og í Armeníu eru margir minnisvarðar um fórnarlömbin. Í tyrkneskri sögu er þessi atburður ekki til og það er hreinlega bannað að nefna hann. Rithöfundar sem hafa rætt þennan harmleik eru fordæmdir og ofsóttir. Ayse Gül Altinay var reyndar ekki að fjalla um þessa atburði heldur það hvernig hernaðarhyggjan hefur réttlætt atburði af þessu tagi. Hún byrjaði á því að minna á að Mustafa Kemal átti fósturdóttur sem varð eins konar tákn hinnar nýju blæjulausu konu í Tyrklandi. Hún gerðist orustuflugmaður og tók m.a. þátt í loftárásum á kúrdnesk þorp í fjallahéruðum Tyrklands. Í einu þessara þorpa bjuggu afi og amma kúrdnesku baráttukonunnar Nebahat Akkog (ekki þori ég að sverja að nafnið sé rétt skrifað hjá mér). Altinay spurði sömu spurningar og margir feministar hafa gert í tímans rás: voru konur að biðja um frelsi til að taka upp ósiði og valdníðslu karlveldisins? Þeirri spurningu svaraði Nebahat neitandi. Hún er kennari að mennt og fékkst við kennslu í þorpinu sínu þar til tyrkneskir hermenn réðust á það, handtóku eiginmann hennar og myrtu hann. Hún hóf baráttu gegn yfirgangi hersins með þeim afleiðingum að hún var handtekin og pyntuð. Sú reynsla vakti hjá henni margar spurningar um baráttuaðferðir og hvort Kúrdar væru að fara réttar leiðir. Kúrdar hafa háð vopnaða baráttu í fjöllum Tyrklands um áratugaskeið og er menning þeirra undirlögð af hernaðardýrkun rétt eins og meðal Tyrkja, að sögn Altinay. Hermenn eru hetjur og konur sem fórna sér annað hvort í sjálfsmorðsárásum eða grípa upp vopn bræðra sinna eða eiginmanna eru líka hetjur. Nebahat ákvað að fara aðrar leiðir og stofnaði friðarsamtökin The Women's Initiative for Peace (www.kamer.org.tr). Hún hefur verið fordæmd og ógnað úr öllum áttum, líka af sínu eigin fólki en mannréttindasamtök víða um heim hafa staðið vörð um líf hennar og frelsi. Sem betur fer er til fólk sem reynir að fara nýjar leiðir og trúir því að leið friðarins reynist betur en vopn og blóð. Betur að fleiri tileinkuðu sér þann boðskap. og vonandi tekst Tyrkjum að ná niðurstöðu í forsetamálinu án vopnaðra átaka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 17:06
1. maí um land allt
Fyrir nokkrum árum hóf ræðumaður ávarp sitt 1. maí með þessum orðum: Í dag er 1. maí um land allt. Þetta fannst mörgum fyndið en í dag má spyrja hvort það sé haldið upp á baráttudag verkalýðsins um land allt? Er frí á Kárahnjúkum? Ég heyrði ekki betur í hádeginu en að enn hefði orðið að gera hlé á vinnu þar á bæ vegna mengunar í göngunum. Svo mikið er víst að það er ekki nema hluti verslunarfóks í Reykjavík sem fær frí á þessum degi.
Ég fór í bæinn áðan þrátt fyrir að útlit væri fyrir rigningu. Hún lét sem betur fer á sér standa þannig að gangan komst þurrum fótum niður Laugaveginn. Ég sá ekki betur en að mætingin væri mun betri en í fyrra, kannski er það vegna þess að kosningar eru í nánd og mörgum finnst brýnt að minna á kröfur um jöfnuð og þörf þess að standa vörð um velferðarkerfið. Það var mikið um stjórnmálamenn í bænum, einkum frá Samfylkingu og VG. Ungt fólk úr VG hafði æft kröfukór sem lét rækilega í sér heyra rétt fyrir aftan okkur feministana sem gengum undir bleikum borðum eins og undanfarin ár. Í göngunni birtast alls konar hópar sem endurspegla pólitíska flóru í landinu. Það var verið að safna fé til styrktar Palestínumönnum, veifað var spjöldum sem á stóð: Ísland úr NATO - engan her, auk fjölmargra fána verkalýðsfélaganna. Einn verkalýðsforingjanna kvartaði yfir því fyrir nokkrum árum að alls kyns hópar væru að eyðileggja 1. maí en það er nú öðru nær, þeir gera daginn skemmtilegan og litríkan.
Ræða ASÍ foringjans var með daufara móti en Kristín Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélagsins bætti það upp með mjög kröftugri hvatningu til fundarmanna. Baggalútur steig á svið og söng m.a. karlrembulagið sem við feministar vitum ekki almennilega hvernig við eigum að túlka. Ég hef litið svo á að þau ólíkindatól sem skipa Baggalút séu að hæðast að svona karlpeningi sem lætur þjóna sér í bak og fyrir en aðrir halda því fram að þessi texti falli mörgum körlum vel í geð, svona eigi þetta að vera. Hvað um það á torginu hitti ég spákonu sem sagðist hafa fengið þá vitrun að ríkisstjórnin mynd falla í kosningunum og að Ómar kæmist að. Guð láti gott á vita.
Undir lok fundarins dreif ég mig út á kaffi París enda var mér að verða kalt þrátt fyrir 12 stiga hita. Þar var margt um manninn og margir sem ég þekkti. Ég spjallaði við frambjóðandann Ósk Vilhjálmsdóttur og Hjálmar Sveinsson, Gerði Steinþórsdóttur og Gunnar Stefánsson og loks mína gömlu vinkonu Steinunni Hafstað. Við ræddum fram og aftur um kosningarnar og bar saman um að umvherfismálunum hefði verið viskað út af umræðuborðinu og að baráttan væri fremur ófókuseruð. Hún virtist aðallega snúast um skoðanakannanir og fjölmiðlarnir væru mjög bitlausir. Nú eru 10 dagar eftir af kosningabaráttunni og enn eru margir óákveðnir. Hvernig ætli kosningarnar fari?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)