Færsluflokkur: Bloggar

Loksins, loksins

Það verður ekki á einkavæðinguna logið. Það er búið að taka mig meira en hálfan mánuð að fá nettengingu hjá fyrrum almannaeigninni Símanum. Númerið var skráð vitlaust og mér var sagt að hringja á vinnutíma til að takast mætti að fylgja beiðninni eftir. En loksins hitti ég ákveðna og hjálpsama stúlku sem gekk í málið. Ég legg til að Brynjólfur Bjarnason hækki hana í tign en kanni annars hvernig þjónustu símans er varið. Það skyldi þó ekki vera að sparnaður sé í gangi og of mikið álag á starfsfólki?

Hvað um það, nú þarf ég að vinna upp langt blogghlé og spurning hvar ég á að byrja. Ætli sé ekki best að byrja á fréttum af sjálfri mér. Eins og ég sagði í mínum síðasta pistli sem ég skrifaði til að gefa frá mér lífsmark þá flutti ég norður til Akureyrar um mánaðarmótin ágúst-september og hér hef ég búið síðan í gulu blokkinni með útsýni yfir til Vaðlaheiðarinnar. Mjög fallegt. Ég stóð í þeirri trú að veðrið væri eiginlega alltaf gott á Akureyri en það hafa komið dagar mikillar rigningar, slyddu og roks. Það er sem sagt ofsögum sagt að hér sé alltaf gott veður en vissulega koma dásamlegir dagar, eins og til dæmis í dag þegar sólin skein og loftið var undurtært en skítkalt.

Minn vinnustaður Jafnréttisstofa er til húsa í nýbygginu Háskólans á Akureyri þar sem er að finna margar rannsóknarstofnanir. Það er gott að vera í návígi við skólann og háskólasamfélagið. Það er alltaf líf og fjör í kringum skóla en ég á eftir að sjá betur hvernig við getum nýtt það í þágu jafnréttismálanna. Það var haldið upp á 20 ára afmæli skólans um daginn með pomp og prakt og þá hitti ég fjölda fólks af svæðinu sem er að fást við allt milli himins og jarðar. Það er meira að segja sagnfræðingafélag í bænum sem ég á eftir að ganga í. Ég er yfirleitt komin á kaf í félagstörf áður en við er litið en nú ætla ég að passa mig. Ég ætla að stunda lestur og fræðistörf í frístundunum og nýta mér þá frábæru náttúru sem hér er að finna.

Ég er þegar búin að taka upp nýja lifnaðarhætti (eða að endurnýja þá) því nú geng ég til vinnu minnar á hverjum morgni, hálftíma göngu og oftast síðdegis líka. Ég verð komin í fínt form eftir nokkrar vikur, ekki veitir af.

Það er mikið framundan hjá mér. Fundir í Reykjavík á morgun og á föstudag og síðan liggur leiðin af landi brott í næstu viku til fundar við Evrópusambandið og Evrópuráðið. Það er gott að fá tækifæri til að setja mig inn í stöðu mála í Evrópu svona í byrjun. Ég skrifa fréttir af þeim fundum síðar meir.


Ég er ekki hætt að blogga!

Kæru vinir í bloggheimi.

Ég er ekki hætt að blogga þótt ég sé búin að vera í óvæntu og löngu bloggfríi. Það hefur gengið svo mikið á í lífi mínu að undanförnu að ég hef ekkert mátt vera að því að blogga. Nú er ég flutt til Akureyrar og er enn ónettengd þar sem ég bý í "gulu (flottu) blokkinni". Ég vinn nú hörðum höndum að því að fá nettengingu en það er eitthvert fyrirtæki skráð fyrir símanum í íbúðinni og mér gengur illa að ná í einhvern þar á bæ. Sem sagt bloggskrif standa til bóta og ég hef svo sannarlega frá mörgu að segja.

Nú bíð ég eftir heimsókn félagsmálanefndar Alþingis hingað á Jafnréttisstofu og ákvað að nota nokkrar mínútur til að minna á mig í bloggheimum.

 


Ingmar Bergman

"Ósköp deyr af fólkinu" er haft eftir gamalli konu. Já, það kveðja margir þetta jarðlíf þessa mánuðina. Mér finnst ég alltaf vera að skrifa um fólk sem er farið yfir móðuna miklu. Í dag er það sá stórbrotni leikstjóri Ingmar Bergman. Ég þekkti hann auðvitað ekki persónulega en mikið skilur sá maður eftir sig af góðum kvikmyndum. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá Sjöunda innsiglið í fyrsta sinn. Ég var bara ekki söm eftir þá upplifun.

Sænsku blöðin hafa gert Bergman góð skil í dag og í Dagens Nyheter er hægt að kynna sér ævi Bergmans frá vöggu til grafar. Það er merkileg lesning. Það tók Bergman mörg ár að finna sinn kvikmyndastíl og hann gerði mistök, kvikmyndir og leiksýningar sem voru algjört flopp. Á sjötta áratugnum blómstraði hann með kvikmyndum eins og Sjöunda innsiglinu, Smultronstället og fleiri myndum. Löngu seinna komu svo myndir eins og Fanny og Alexander og handritið að Den goda viljan en þessar síðasttöldu myndir byggjast á ævi Bergmans sjálfs og föður hans. Þá er uppsetning hans á óperunni Töfraflautunni ógleymanleg en hann gerði hana fyrir sænska sjónvarpið.

Einkalíf Bergmans var afar skrautlegt. Hann var marggiftur og átti oft í samböndum við leikkonurnar sem hann var að leikstýra. Bergman var mjög viðkvæmur og skapmikill maður. Um 1980 var Bergman grunaður um skattsvik. Hann varð svo reiður að hann flutti frá Svíþjóð og hótaði að stíga aldrei framar fæti á sænska jörð. Hann var að lokum sýknaður og gat þá ekki lengur haldið sig frá sinni elskuðu Svíþjóð og eyjunni Fårö. List hans átti rætur í sænsku samfélagi.

Í dag hafa leikarar og leikstjórar minnst Bergmans. Margir þeirra eiga honum frægð og frama að þakka. Leikarahópur hans varð heimsfrægur enda vann Bergmansliðið til margra verðlauna. Max von Sydow, Liv Ullman, Erland Josephsson, Bibi Anderson, Pernille August, Mikael Persbrandt og fleiri og fleiri. 

Nú fáum við vonandi að sjá bestu myndir Bergmans til að rifja upp kynnin við þennan stórbrotna leikstjóra.     


Spennandi norrænt spennuefni

Á sumrin er ágætt að sökkva sér niður í GÓÐAR spennumyndir og krimma í bókum og sjónvarpi. Það mætti halda af pistlum mínum að ég sitji löngum stundum yfir sjónvarpi en það er alls ekki svo. Ég vil bara fá að sjá eitthvað almennilegt þá sjaldan að ég sest við skjáinn. Og þá eru það norrænu stöðvarnar sem  eru mín huggun.

Í vetur voru sýndar nýjar framhaldsspennumyndir bæði í sænska og danska sjónvarpinu sem nutu mikilla vinsælda enda þrælspennandi. Þær eru nú að ganga á milli norrænu stöðvana. Nema auðvitað á  Íslandi.  Annars vegar er það danska myndin Afbrotið (Forbrydelsen) en nú er verið að auglýsa næsta hluta hennar sem hefst í september í danska sjónvarpinu. Hins vegar er mynd um sænsku lögreglukonuna Höök sem var sýnd í vetur í sænska sjónvarpinu og er nú í því danska.

Þegar ég var á ferð í Umeå í byrjun sumars las ég pistil í einu heimablaðanna um kvikmyndaiðnaðinn sem nú blómstrar í borginni Luleå sem er mjög norðarlega við Nordbotten í Svíþjóð. Hún er á  svæði Sama en byggðin er orðin mjög blönduð eins og annars staðar. Í Luleå er stórt kvikmyndaver og þar hafa verið framleiddar margar frábærar myndir undanfarin ár, t.d. þessi um lögreglukonuna Höök. Í greininni sem ég las höfðu menn nokkrar áhyggjur af því að verið væri að draga upp mynd af heldur þunglyndum og brotlegum íbúum norðurhéraðanna en hvað sem því líður þá á sér stað mikil og spennandi sköpun í kvikmyndaborginni Luleå.

Nú er það spurningin hvenær fáum við hér á ísaköldu landi að sjá þessar myndir frá samfélögum sem eru svo miklu skyldari okkur en stórborgir USA með allt sitt ofbeldi? Það er huggun harmi gegn að átta sig á því að það er ýmislegt sem sameinar okkur hér á  norðurslóðum.     


Mistök leiðrétt

Úps. Mér varð heldur betur á í messunni í síðasta pistli þegar ég endurskírði Lyngdalsheiðina, sem vel að merkja er heiðin mili Laugardals og Þingvalla. Ég fékk margar athugasemdir sem enduðu með því að ágætur náttúrufræðingur hringdi í mig til að leiðréttingin kæmist nú örugglega til skila.

Ég kann nú enga skýringu á þessu aðra en að leiðslum hafi slegið saman í heilanum á mér eftir hristinginn yfir heiðina (sem sagt vottur af heilahristingi), því ég veit vel hvað heiðin heitir. Líndalsheiði er bara alls ekki til, hins vegar eru til örnefni kennd við lín sem minna á þá daga þegar lín var ræktað hér á landi, t.d. Línakradalur norður í Húnavatnssýslu.

Svo þakka ég fyrir athugasemdirnar.  

 

 


Hossast yfir Lyngdalsheiði

Í gærkvöldi var ég á árlegum sumarfundi BISER-kvenna austur á Laugavatni. Vilborg Auður Ísleifsdóttir sagnfræðingur bauð kvenskapnum í bústað sinn og eldaði smjörsteiktan silung úr Apavatni. Fyrir þá sem ekki vita þá er BISER félag sem sem starfar í Bosníu, Þýskalandi og Íslandi og vinnur að því að styðja stríðshrjáðar konur í Bosníu.

Þótt meira en áratugur sé liðinn frá því að styrjöldinni lauk í Bosníu er ástandið þar hörmulegt. Stríðshörmungar hvorki hverfa né gleymast á einum áratug og margar konur búa yfir  mjög sárri reynslu sem þær þurfa hjálp við að vinna úr. Hér má minna á að Serbar beittu fjöldanauðgunum sem stríðsvopni í þessari viðbjóðslegu styrjöld. Það er mikið atvinnuleysi í Bosníu og margar ekkjur og ógiftar konur (konur eru miklu fleiri en karlmenn) eiga erfitt með að sjá sér og sínum farborða í þessu landi spillingar, glæpa og fátæktar. Það var dæmigert að um það bil tveimur árum eftir að átökunumm lauk létu nánast öll hjálparsamtök sig hverfa og héldu til næsta átakasvæðis. Fólkið sem eftir situr er ekki í því ástandi að geta byggt upp sitt samfélag hjálparlaust, því miður. BISER hefur haldið starfinu áfram og þar hefur Vilborg Auður Ísleifsdóttir gegnt lykilhlutverki en hún tengir saman Ísland og Þýskaland þar sem hún er búsett.

Þetta var fagurt og gott kvöld. Allt á kafi í gróðri því það hefur rignt nokkuð á Suðurlandi undanfarna daga, sem betur fer. Í ljósi mildrar kvöldbirtu stakk kristinast upp á því að við  færum yfir Lyngdalsheiðina á leiðinni heim. Það hefði ég betur látið ógert því vegurinn var algjör hörmung. Ég hef ekki lent í öðru eins um árabil. Algjört þvottabretti og það er aðeins komið slitlag á smá spotta. Við siluðumst áfram á 30 km. hraða og vorum dauðhræddar um bílinn svo mikið hossuðumst við.

Líndalsheiðin er ákaflega fjölfarin leið, um hana fara tugir þúsunda ferðamanna á hverju sumri. Hvernig stendur á því að vegurinn er svona á sig kominn um háannatímann? Af hverju er ekki heflað og haldið áfram að leggja slitlag? Það getur verið ágætt að hafa gamaldags sveitavegi hér og þar, en ekki á þessari fjölförnu leið. Kannski er skýringin sá mikli þurrkur sem verið hefur í sumar en þetta er ekki boðlegt.

 Hér með skora ég á Vegagerðina að láta hefla veginn yfir Líndalsheiði EINS OG SKOT!!! 


Er Reykjavík ferðamannaborg?

Í dag tók ég strætó vestan úr bæ og upp í Hlíðar. Íslendingar voru í miklum minnihluta í vagninum. Ég heyrði ensku, spænsku og japönsku allt í kringum mig. Allt voru þetta ferðamenn. Í framhaldi af þessu fór ég að hugleiða hvort Reykjavík væri góð ferðamannaborg? Gera borgaryfirvöld sér grein fyrir því hve straumur ferðamanna fer vaxandi ár frá ári og að þeim þarf að þjóna?

Til að byrja með eru almenningssamgöngur í borginni hörmulegar um þessar mundir. Hver leið fer aðeins tvisvar sinnum á klukkutíma sem getur þýtt allt að hálftíma bið. Þetta er nú ekki vænlegt fyrir ferðamenn sem gjarnan nýta sér strætó, hvað þá góð ímynd fyrir borgina sem hreina og vistvæna. Nei, Reykjavík er borg einkabílsins.

Í blíðviðrinu undanfarið hef ég marg sinnis lent í því að ferðamenn hafa spurt mig vegar einkum í leit að Þjóðminjasafninu. Það þarf að merkja leiðina þangað frá miðbænum, sem og til annarra safna, mun betur en gert er, t.d. á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis. Erlendis sjást slíkar merkingar víða í margra kílómetra fjarlægð.

Á Austurvelli stendur Jón Sigurðsson og horfir bjartur yfirlitum á þinghúsið. Það er ætlast til að allir viti hver þetta er því styttan er ómerkt og hvergi neinar upplýsingar um hann að finna í nágrenninu. Eflaust er eitthvað sagt um hann í ferðabæklingum en mætti ekki merkja styttuna á smekklegan hátt? Sama gildir um aðrar styttur, oftast er nafn viðkomandi á þeim (eða nafn höfundar) en engar frekari upplýsingar að sjá, hvorki á íslensku né ensku.  

Hvað um íslenska menningu? Hvernig er hún kynnt í borginni okkar? Hvert er hægt að fara til að kynnast Íslendingasögunum eða þjóðsögunum í upplestri og fyrirlestrum? Eða sögu borgarinnar, t.d. í heimildamyndum? Hvað um sögugöngur fyrir erlenda ferðamenn? Birna Þórðardóttir býður reyndar upp á menningargöngur en er það nóg? Hvað um t.d. kvennasögugöngur? Það koma hingað mjög margar konur sem vilja gjarnan heyra af íslenskum valkyrjum.

Hvert er hægt að fara til að hlusta á íslenska tónlist? Hvað um leiksýningar fyrir ferðamenn? Er Northern Lights leikhúsið ekki dáið drottni sínum? Ekki hef ég séð það auglýst á þessu sumri, fremur en annað á menningarsviðinu sem sérstaklega er ætlað ferðamönnum.

Það eru fín söfn í borginni en það vantar lifandi menningu, lifandi frásagnir, samræður við ferðamenn.  

Undanfarnar vikur hefur kvikmyndin Mýrin vakið mikla athygli erlendis. Sama má segja um Börn og Foreldra. Þær eru ekki til sýnis fyrir erlenda ferðamenn, ekki svo mikið sem í einum litlum sal og reyndar er engin íslensk kvikmynd sýnd í bíóhúsunum.  

Ég held að borgaryfirvöld og aðrir þeir sem koma að málefnum ferðamanna þurfi að hugsa sinn gang. Borgin hefur miklar tekjur af ferðamönnum og þær gætu verið miklu meiri ef betur væri um þá hugsað. Þeir þurfa meira en gistingu og mat. Íslensk menning hefur upp á margt að bjóða. Aðrar þjóðir hafa fyrir löngu lært að nýta sér menningararfinn. Írar komu t.d. upp skáldasafni í Dublin fyrir löngu og þar er ferðamönnum boðið upp á írska tónlist, dans og írskan mat, allt i einum pakka.  Möguleikarnir eru margir. Nú er að opna augun og framkvæma.    


Meistari Baldvin

Í dag var Baldvin Halldórsson leikari borinn til grafar. Ég kynntist Baldvin fyrir um það bil 30 árum þegar ég var á kafi í stúdentapólitíkinni. Verðandi- félag vinstri manna, réði meirihlutanum í Stúdentaráði á þeim árum og við sem þar vorum héldum upp á 1. des. með miklum byltingardagskrám. Við litum á það sem hlutverk okkar að rifja upp sögu verkalýðsbaráttunnar og baráttuna við auðvaldið svona almennt sem og að brýna fólk til andófs gegn vondum valdhöfum. Páll Baldvin sonur Baldvins leikara var í hópnum og það var hann sem fékk pabba sinn til að koma og leiðbeina okkur við að setja upp dagskrána í Háskólabíói. Þetta var á þeim árum þegar stúdentum tókst að fylla Háskólabíó á fullveldisdaginn. Við lærðum mikið af Baldvin meðan á æfingum stóð og hann bjargaði örugglega miklu því við vorum að flytja kvæði og lesa upp úr gömlum barátturitum.

Nokkrum árum síðar vann ég í sumarvinnu með Ingu Láru Baldvinsdóttur við að taka viðtöl við gamalt fólk á Elliheimilinu Grund. Margan daginn röltum við út í Tjarnargötu í hádeginu þar sem Baldvin tók fagnandi á móti okkur, bauð okkur til borðs upp á brauð og álegg eða annað það góðgæti sem til var. Þá var nú aldeilis rætt um pólitíkina og staða mála krufin til mergjar. Þetta var eftir að Kvennalistinn kom fram og Baldvin vildi glöggva sig á þeirri hreyfingu en líka ræða um ákveðinn flokk sem honum fannst kominn rækilega út af sporinu. 

Ég rakst oft á Baldvin og Vigdísi í Tjarnargötunni þegar þau voru að koma eða fara í gönguferð. Alltaf heilsaði Baldvin með elegans, tók ofan hattinn og bugtaði sig. Það heilsar mér enginn annar með þessum hætti. Oft  tókum við okkur tíma til að spjalla saman um pólitík, bókmenntir og leikhúsið.

Fyrir nokkrum árum lagðist ég í Atómstöðina eftir Halldór Laxness af einhverju tilefni sem ég man ekki lengur hvert var. Ég velti mikið fyrir mér hvort og þá hver hefði verið fyrirmyndin að Búa Árland. Þessum menntaða, rólega og heimspekilega sinnaða stjórnmálamanni sem var um leið á kafi í herbraskinu. Þá gerðist það að ég rakst á Baldvin á förnum vegi. Mér datt í hug að hann myndi vita þetta enda mikill bókmenntamaður. Ég spurði hann og hann svaraði að bragði: Það var Gunnar Thoroddsen. Gunnar var í eina tíð borgarstjóri, þingmaður og ráðherra, meira að segja forsætisráðherra í andstöðu við meiri hluta Sjálfstæðisflokksins. Ég sá um leið að þetta gat passað en kannski er ósanngjarnt að reyna að finna skáldsagnapersónum stað í veruleikanum. Hitt er svo annað mál að margir þóttust sjá sig og sína í þessari mergjuðu samtímasögu Laxness sem höfundurinn les þessa dagana í Ríkisútvarpinu.

Ég mun ekki oftar hitta Baldvin í Tjarnargötunni en þakka honum allt spjallið og ekki síður hlutverkin á sviði Þjóðleikhússins og í útvarpinu.   


Hver á að gæta barnanna?

Ég var að hlusta á viðtal við Braga Guðbrandsson forstjóra Barnaverndarstofu þar sem fram kom að stjórnmálamenn hefðu ekki nægilega mikinn áhuga á málefnum barna. Það er eins og menn neiti að horfast í augu við þá staðreynd að því ver sem búið er að börnum því meira kemur það niður á framtíð þeirra og samfélaginu öllu.

Að undanförnu hafa borist fregnir af mjög ungum afbrotamönnum, drengjum sem verið er að dæma í fangelsi en verða vonandi sendir á sérheimili. Hvað býr að baki svona frétta? Hvaðan koma þessir drengir, hvað hafa þeir upplifað? Hver er saga þeirra? Ég held að við ættum að kanna það. Hvað gerir 12-15 ára drengi að afbrotamönnum? Það eru líka stelpur sem fara út á afbrotabrautina en þær eru miklu færri.

Í upphafi 20. aldar litu kvenréttindakonur svo á að erindi þeirra út í samfélagið væri ekki síst að gæta hagsmuna kvenna og barna, en í því fólst meðal annars að gæta þeirra barna sem áttu um sárt að binda vegna fátæktar, sjúkdóma eða annarra vandræða. Að þeirra dómi sinntu karlmenn þessum málum bæði seint og illa ef þeir þá gerðu það yfirleitt. Þær beittu sér fyrir réttindum óskilgetinna barna, meðlagsgreiðslum og að hætt yrði að taka börn af fátækum foreldrum og einstæðum mæðrum. Fyrstu þingkonurnar og reyndar meira og minna allar þær konur sem setið hafa á þingi hafa beitt sér fyrir réttindum og bættum kjörum barna. 

Samt sem áður vaknaði sú spurning hjá mér hvort við, nútíma kvenréttindakonur, höfum sofnað á verðinum. Er það enn þá svo að ef við ekki stöndum vaktina og gætum hagsmuna barna, þá gerir það nánast enginn?  Málefnum barna var komið yfir á ríki og sveitafélög eftir að kvenfélög höfðu riðið á vaðið, t.d. með byggingu leikskóla, útileikvalla, vöggustofa, heilsugæslu og annars sem börn þurftu með. Það hefur greinilega ekki gengið nógu vel að passa upp á börnin eftir að kvennahreyfingin sleppti af þeim hendi.

Reyndar hefur bæði Hringurinn og Thorvaldsenfélagið verið ómetanleg í uppbyggingu sjúkraþjónustu fyrir börn og eflaust leggja mörg kvenfélög mikið af mörkum. En þarf kvennahreyfingin ekki að taka málefni barna til umræðu og skoða út frá jafnréttissjónarmiði, mannréttindum og ekki síst hagsmunum barna? Jafnréttisþjóðfélagið verður aldrei til ef uppeldi barnanna er ekki í lagi. Það ætti að sjálfsögðu að vera á ábyrgð beggja kynja en það er eitthvað mikið að á meðan barnavernd er í ólestri. Við þurfum að ræða málefni barna af mikilli alvöru.


Eins og fiskur í vatni

Það er fróðlegt að fylgjast með ferð Ingibjargar Sólrúnar og fylgdarliðs hennar um löndin fyrir botni Miðjarðarhafs. Enn einu sinni erum við minnt á að það eru tvær hliðar á deilum Ísraela og Palestínumanna, þó að Ísraelsmenn hafi vissulega valdið og vopnin sín megin. Íbúar Ísraels hafa liðið mikið en því miður hafa stjórnvöld þar í landi reynt að brjóta Palestínumenn niður í stað þess að semja við þá og það fyrir löngu. Það hefur allt of lengi verið alið á hatri og hefndum og undanfarið hafa Palestínumenn barist innbyrðis sem er bæði þeim sjálfum og nágrönnum þeirra hættulegt. Ég vona að Ingibjörg Sólrún hafi rétt fyrir sér í því að Ísraelsmenn séu að átta sig á því að frekari upplausn í Palestínu getur leitt til þess að ekki verði við neinn að semja.  

Mér finnst Ingibjörg Sólrún standa sig afar vel við að túlka og kynna það sem hún er að upplifa. Hún er eins og fiskur í vatni, fagleg og manneskjuleg í senn. Hún er flottur utanríkisráðherra og ég er viss um að þessi ferð á eftir að verða henni að miklu gagni.

Bloggari sem ég las í dag skrifaði að utanríkisráðherrann væri að flakka um heiminn  á kostnað skattgreiðenda og var á honum að skilja að þessi ferðalög væru ónauðsynleg. Hvernig á Ingibjörg Sólrún (sem og aðrir utanríkisráðherrar) að sinna og skilja sinn málaflokk ef hún fer ekki á vettvang og kynnir sér málin? Persónuleg kynni skipta líka miklu máli í samskiptum ríkja. Það er mjög mikilvægt fyrir alla heimsbyggðina að friður komist á við botn Miðjaraðarahafs og þar getur Ísland beitt sér á alþjóðavettvangi. Höfum við ekki verið grátbeðin um að hjálpa flóttamönnum frá Írak sem eru þúsundum saman í Jórdaníu? Ingibjörg Sólrún er á leið þangað til að kynna sér málefni flóttamanna. Ísland er auk þess í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hvað sem okkur finnst um það. Fyrst það var ákveðið er eins gott að standa almennilega að málum.  Þetta er nöldur í bloggaranum sem á ekki rétt á sér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband