Spádómar um forseta í Frakklandi

Í gær var rætt um stöðuna í forsetakosningunum í Frakklandi á fundi í Háskóla Íslands. Torfi Tuliníus, Gerard Lemarquis og Rósa Björk Brynjólfsdóttir ræddu málin en öll hafa þau fylgst vel með gangi mála. Þarna kom marg fróðlegt fram til dæmis að Sarkozy hefði flutt mikla skammarræðu um 68 kynslóðina. Það er nú ansi seint í rassinn gripið að skamma hana núna en ástæðan er auvðitað sú að menntamenn af 68-kynslóðinni eru mjög áberandi og áhrifamiklir í Frakklandi. Þeir hafa beitt sér verulega í þágu Royal m.a. með ávarpi sem birtist í gær undirritað af 100 menntamönnum þar sem Sarkozy var sagður hættulegur loddari. Torfi ræddi þau vandamál og stöðnun sem Frakkar standa frammi fyrir og hvort þeirra Sarkozy og Royal væri líklegra til að taka á þeim. Gerard fjallaði m.a. um það hvað kyn kæmi í raun lítið við sögu í baráttunni og fræddi okkur um slúðursögurnar sem ganga manna á meðal ekki síst um ástarlíf Sarkozy, hegðun sem hann taldi að myndi ekki líðast á Íslandi. Hmmmm, ekki skal ég dæma um það. Rósa ræddi líka hvort það væri Royale til gagns að vera ekki með feminiskar áherslur, hún væri mjög í ætt við Blair í Bretlandi og hvort hún væri nógu afgerandi. Það var athyglisvert að öll spáðu þau sigri Royal, hún héldi vel á spöðunum og væri á mikilli siglingu. Hún væri líklegri til að ná sáttum um breytingar vegna tengsla við verkalýðshreyfinguna. Síðustu kannanir benda þó enn til þess að Sarkozy hafi forskot en sjáum hvað setur. Enn eru nokkrir dagar til stefnu og þau skötuhjúin eiga eftir að heyja einvígi í sjónvarpi. Enn einar spennandi kosningar á næstu dögum.

Hitnar í kolunum í Tyrklandi

Það ríkir einkennilegt ástand þessa dagana í Tyrklandi. Stjórnarskrárdómstóll og herinn eru að reyna að koma í veg fyrir að heittrúarmaður verði kjörinn forseti landsins og það gæti stefnt í átök. Frá því á þriðja áratug 20. aldar hefur Tyrkland verið veraldlegt ríki þar sem greint er á milli trúarlegs og veraldlegs valds. Byltingarmaðurinn Mustafa Kemal og stuðningsmenn hans reyndu m.a. að útrýma blæjunni sem konur gengu með og er hún enn bönnuð í opinberum byggingum. Islamistum hefur vaxið fiskur um hrygg og eru nú við stjórnvölinn.

Þegar ég las um ástandið í Tyrklandi rifjaðist upp fyrir mér fyrirlestur sem ég hlustaði á í fyrrasumar á kynjafræðiráðstefnu í Lodz í Póllandi. Þar ræddi tyrkneski mannfræðingurinn Ayse Gül Altinay um hernaðarhyggju sem tröllríður tyrknesku samfélagi og byggist á því að Tyrkir séu hernaðarþjóð og að allir landsins synir séu fæddir hermenn. Þessi "hugsjón" felur í sér réttlætingu á endalausu ofbeldi og yfirgangi gagnvart minnihlutahópum og stutt í að gripið sé til vopna. En hugsjónin felur líka í sér mótsagnakennda afstöðu til kvenna.

Árið 1915 stóðu tyrknesk stjórnvöld fyrir fjöldamorðum á armenska minnihlutanum sem bjó innan hins víðlenda Tyrkjaveldis sem reyndar var í andaslitrunum. Talið er að hundruð þúsunda Armena hafi ýmist verið drepnir eða reknir á flótta. Margvíslegar heimildir eru til um þessa útrýmingu og í Armeníu eru margir minnisvarðar um fórnarlömbin. Í tyrkneskri sögu er þessi atburður ekki til og það er hreinlega bannað að nefna hann. Rithöfundar sem hafa rætt þennan harmleik eru fordæmdir og ofsóttir. Ayse Gül Altinay var reyndar ekki að fjalla um þessa atburði heldur það hvernig hernaðarhyggjan hefur réttlætt atburði af þessu tagi. Hún byrjaði á því að minna á að Mustafa Kemal átti fósturdóttur sem varð eins konar tákn hinnar nýju blæjulausu konu í Tyrklandi. Hún gerðist orustuflugmaður og tók m.a. þátt í loftárásum á kúrdnesk þorp í fjallahéruðum Tyrklands. Í einu þessara þorpa bjuggu afi og amma kúrdnesku baráttukonunnar Nebahat Akkog (ekki þori ég að sverja að nafnið sé rétt skrifað hjá mér). Altinay spurði sömu spurningar og margir feministar hafa gert í tímans rás: voru konur að biðja um frelsi til að taka upp ósiði og valdníðslu karlveldisins? Þeirri spurningu svaraði Nebahat neitandi. Hún er kennari að mennt og fékkst við kennslu í þorpinu sínu þar til tyrkneskir hermenn réðust á það, handtóku eiginmann hennar og myrtu hann. Hún hóf baráttu gegn yfirgangi hersins með þeim afleiðingum að hún var handtekin og pyntuð. Sú reynsla vakti hjá henni margar spurningar um baráttuaðferðir og hvort Kúrdar væru að fara réttar leiðir. Kúrdar hafa háð vopnaða baráttu í fjöllum Tyrklands um áratugaskeið og er menning þeirra undirlögð af hernaðardýrkun rétt eins og meðal Tyrkja, að sögn Altinay. Hermenn eru hetjur og konur sem fórna sér annað hvort í sjálfsmorðsárásum eða grípa upp vopn bræðra sinna eða eiginmanna eru líka hetjur. Nebahat ákvað að fara aðrar leiðir og stofnaði friðarsamtökin The Women's Initiative for Peace (www.kamer.org.tr). Hún hefur verið fordæmd og ógnað úr öllum áttum, líka af sínu eigin fólki en mannréttindasamtök víða um heim hafa staðið vörð um líf hennar og frelsi. Sem betur fer er til fólk sem reynir að fara nýjar leiðir og trúir því að leið friðarins reynist betur en vopn og blóð. Betur að fleiri tileinkuðu sér þann boðskap. og vonandi tekst Tyrkjum að ná niðurstöðu í forsetamálinu án vopnaðra átaka.      


1. maí um land allt

Fyrir nokkrum árum hóf ræðumaður ávarp sitt 1. maí með þessum orðum: Í dag er 1. maí um land allt. Þetta fannst mörgum fyndið en í dag má spyrja hvort það sé haldið upp á baráttudag verkalýðsins um land allt? Er frí á Kárahnjúkum? Ég heyrði ekki betur í hádeginu en að enn hefði orðið að gera hlé á vinnu þar á bæ vegna mengunar í göngunum. Svo mikið er víst að það er ekki nema hluti verslunarfóks í Reykjavík sem fær frí á þessum degi.

Ég fór í bæinn áðan þrátt fyrir að útlit væri  fyrir rigningu. Hún lét sem betur fer á sér standa þannig að gangan komst þurrum fótum niður Laugaveginn. Ég sá ekki betur en að mætingin væri mun betri en í fyrra, kannski er það vegna þess að kosningar eru í nánd og mörgum finnst brýnt að minna á kröfur um jöfnuð og þörf þess að standa vörð um velferðarkerfið. Það var mikið um stjórnmálamenn í bænum, einkum frá Samfylkingu og VG. Ungt fólk úr VG hafði æft kröfukór sem lét rækilega í sér heyra rétt fyrir aftan okkur feministana sem gengum undir bleikum borðum eins og undanfarin ár. Í göngunni birtast alls konar hópar sem endurspegla pólitíska flóru í landinu. Það var verið að safna fé til styrktar Palestínumönnum, veifað var spjöldum sem á stóð: Ísland úr NATO - engan her, auk fjölmargra fána verkalýðsfélaganna. Einn verkalýðsforingjanna kvartaði yfir því fyrir nokkrum árum að alls kyns hópar væru að eyðileggja 1. maí en það er nú öðru nær, þeir gera daginn skemmtilegan og litríkan.

Ræða ASÍ foringjans var með daufara móti en Kristín Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélagsins bætti það upp með mjög kröftugri hvatningu til fundarmanna. Baggalútur steig á svið og söng m.a. karlrembulagið sem við feministar vitum ekki almennilega hvernig við eigum að túlka. Ég hef litið svo á að þau ólíkindatól sem skipa Baggalút séu að hæðast að svona karlpeningi sem lætur þjóna sér í bak og fyrir en aðrir halda því fram að þessi texti falli mörgum körlum vel í geð, svona eigi þetta að vera. Hvað um það á torginu hitti ég spákonu sem sagðist hafa fengið þá vitrun að ríkisstjórnin mynd falla í kosningunum og að Ómar kæmist að. Guð láti gott á vita.

Undir lok fundarins dreif ég mig út á kaffi París enda var mér að verða kalt þrátt fyrir 12 stiga hita. Þar var margt um manninn og margir sem ég þekkti. Ég spjallaði við frambjóðandann Ósk Vilhjálmsdóttur og Hjálmar Sveinsson, Gerði Steinþórsdóttur og Gunnar Stefánsson og loks mína gömlu vinkonu Steinunni Hafstað. Við ræddum fram og aftur um kosningarnar og bar saman um að umvherfismálunum hefði verið viskað út af umræðuborðinu og að baráttan væri fremur ófókuseruð. Hún virtist aðallega snúast um skoðanakannanir og fjölmiðlarnir væru mjög bitlausir.  Nú eru 10 dagar eftir af kosningabaráttunni og enn eru margir óákveðnir.  Hvernig ætli kosningarnar fari?


Bloggfærslur 1. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband