11.5.2007 | 10:31
Með sorg í hjarta
Prestar hafa málfrelsi eins og annað fólk sem byggir þetta land. Þeim ber þó fremur öðrum að hafa í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Í morgun birtist grein í Mogganum eftir sr. Davíð Baldursson sem þjónar Fjarðabyggð. Grein hans fyllti hjarta mitt djúpri sorg.
Í greininni færir klerkurinn þeim þakkir sem stóðu fyrir bygginu álversins á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun. Hann lýsir því hvernig gleðin og bjartsýnin skín úr augum Austfirðinga. Þar hafa orðið umskipti. Það efast enginn um að nú um stundir er mikil atvinna og uppgangur á Austurlandi. Hversu lengi verður það? Hverjir munu vinna í álverinu? Eru Íslendingar að fjölmenna austur á land? Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru þeir þvert á móti að flytja í burtu. Það er erlent vinnuafl sem er að baki fjölgunar íbúa. Flestir þeirra munu fara aftur heim. Nýleg könnun Samtaka atvinnulífsins sýnir að ungir Íslendingar ætla sér ekki að vinna í álverum. Og enn einu sinni bendi ég á þá áherslu að fólk úti á landi eigi að vinna í verksmiðjum meðan við hér á suðvesturhorninu verðum í hálauna- og stjórnunarstörfunum. Þvílík framtíðarsýn.
Athafnagleðin er dýru verði keypt og hún hefur valdið djúpum sárum og deilum meðal Íslendinga, líka Austfirðinga. Ég er sannfærð um að í framtíðini verði Kárahnjúkavirkun talin til verstu umhverfisglæpa. EKKERT réttlætir þá eyðileggingu á náttúrunni sem þar fer nú fram.
Ég átti þess kost í fyrrasumar að ganga í fimm daga um Kárahnjúkasvæðið. Upp og niður með Jöklu. Inn á Eyjabakkana og Kringilsárrana og um svæðið kringum stífluna hrikalegu. Ég veit því nákvæmlega hverju er verið að fórna. Mikið gróðurlendi fer undir vatn, auk fossa og fljóta. Mér finnst það ófyrirgefanleg gjörð.
Austfirðingar eiga margvíslega möguleika til atvinnusköpunar eins og aðrir landsmenn. Þeir geta haldið áfram að byggja upp ferðamannaiðnað og alls konar framleiðslu og þjónustu honum tengda. Þeir geta byggt upp menningar- og sköpunarhagkerfi sem veitir mörgum störf. Þeir geta lagt rækt við fullvinnslu sjávarafurða í stað þess að láta stóriðjuna drepa sjávarútvegsfyrirtækin. Þeir ættu þó fyrst og fremst að byggja upp mennta- og rannsóknarsetur, því það eru þau sem munu fæða af sér fyrirtæki byggð á þekkingu og möguleikum svæðisins. Menntun og aftur menntun. Það er svarið ekki mengun og eyðilegging.
Þetta mætti sr. Davíð hugleiða í stað þess að dásama þá sem vilja keyra áfram veginn sem er að eyðileggja jörðina okkar, sjálft sköpunarverkið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2007 | 10:07
Vorið er komið...
Ég vaknaði í morgun, daginn fyrir kosningar, við það að stærðar hunangsfluga stakk sér inn um gluggann og fór eins og njósnaflugvél í lágflugi hring um herbergið. Hún suðaði hátt og lét ófriðlega. Þegar hún hafði komist að því að ekkert girnilegt var að hafa hjá mér réðist hún á gardínuna, enn með háu suði, lét sig falla og fann þá leið að glerinu. Eftir að hafa flogið margsinnis geðvonskulega á glerið áttaði hún sig loks á því hvar hægt var að komast út og kvaddi mig án frekari afskipta af mér og mínu. Ég held að hún hafi verið í geðvonskukasti. Hún vaknaði eflaust af vetrardvala í hlýindunum um daginn og hélt að sumarið væri komið. Svo kólnaði og hvað getur hunangsfluga þá gert annað en flogið um og suðað í skapvonsku sinni.
Aðrir vorboðar voru hins vegar í hátíðarskapi í morgun og létu sér skoðanakannanir í léttu rúmi liggja. Sólin skein og fuglasöngurinn var glaðvær og margradda. Ég heyrði í fréttum RÚV í morgun að söngfugl Evrópu hefði brugðið sér í heimsókn með sunnanvindunum og heiðaði nú garðeigendur með nærveru sinni og fögrum söng. Hann verður hér eftir talinn í röð Íslandsvina.
Vorið er alveg örugglega komið og vonandi blása vorvindar í stjórnmálunum eftir kosningarnar á morgun. Nýja ríkisstjórn, takk fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)