Þýðandi óskast

Ég er að leita að góðum þýðanda úr íslensku yfir á ensku en það er ekki hlaupið að því að finna slíkt fólk. Ég þarf að láta þýða greinina mína um kvennaráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og áhrif þeirra á Íslandi (SAGA 2:2006). Eftir nokkra eftirgrennslan komst ég að því að eftirspurn er þvílík eftir enskukunnáttu að þeir sem yfir henni búa er að drukkna í vinnu. Bankarnir ráða til sín enskumælandi fólk og alls konar verkefni hrannast upp á enskumarkaðnum. Þetta er mjög athyglisvert. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fremur en því að bankarni bíða við dyrnar eftir útskrifuðum verkfræðingum. Þeir búa yfir þekkingu sem nýtist vel í fjármálaheiminum.  

Boðskapurinn er: það eru miklir möguleikar fyrir þá sem leggja fyrir sig ensku (eða eru enskumælandi frá blautu barnsbeini) og verkfræði er toppgrein. Við hin höldum bara okkar striki held ég en það er vert að vekja athygli á þessari þróun.


Er Reykjavík ógeðsleg?

Ingólfur Margeirsson sagnfræðingur og rithöfundur skrifaði grein í Moggann í gær sem endaði á því að Reykjavík væri beinlínis ógeðsleg borg en áður hafði hann lýst því hvað hún væri óskipulögð og skítug.

Ég get tekið undir margt í skrifum Ingólfs en finnst hann þó taka býsna stórt upp í sig. Það er rétt að Reykjavík er ein allsherjar tyggjósletta. Allar gangstéttar hvítdröfnóttar. Það er eins og borgin hafi orðið fyrir loftárás á sunnudagsmorgnum. Glerbrot og drasl út um allt, tré brotin eða rifin upp með rótum, ruslafötur rifnar niður og þannig mætti áfram telja. Veggir útkrotaðir. Hvaðan kemur þessi vandalismi? Það þarf að taka sterklega á uppeldi Íslendinga og innræta fólki virðingu við umhverfið og eignir okkar allra. Hversu stór hluti skattpeninga okkar Reykvíkinga fer í stöðugar viðgerðir og tiltekt?

Fyrir nokkrum dögum fékk ég heimsókn frá jafnréttisnefndinni í Helsinki. Þau spurðu mig m.a. hvort alkóhólismi væri mikið vandmál á Íslandi. Þau höfðu verið á rölti að kvöldlagi um miðborgina og rekist þar á nokkra illaútlítandi og öskrandi menn sem létu svo dólgslega að þau forðuðu sér. Þetta er til skammar. Ég vísa líka til pistils sem ég skrifaði fyirr nokkru um ástandið á Laugaveginum. Borgarstjórnin þarf að taka á þessu ástandi og það STRAX.

Ég vil þó bera blak af borginni okkar. Einn góðviðridaginn fyrir skömmu lá leið mín eftir Tjarnargötunni í átt að miðbænum. Á undan mér gekk hópur af Ítölum og mundaði myndavélar. Þegar þau komu að leikskólanum Tjarnarborg opnaðist útsýni yfir Tjörnina og Þingholtin milli húsa. Þau hrópuðu yfir sig enda var fegurðin engu lík. Spegilslétt vatnið, glampandi sól, skafheiður himinn, tré að springa út og gömlu húsin við Fríkirkjuveginn blöstu við í allri sinni litadýrð. Ég var verulega stolt. Þannig ætti borgin öll að vera. Okkur til sóma og ánægju.


Heimur fatlaðra

Það er svo merkilegt að upplifa hvernig hægt er setja hluti í nýtt samhengi og opna augu. Í gær hlustaði ég á fyrirlestur Rosmarie Garland-Thomson sem hún kallaði Óvenjulega líkama. Hún fjallaði einkum um það hvernig fatlað fólk hefur birst í dægurmenningu okkar og hvaða breytingum mynd þeirra hefur tekið.

Orðin sem við notum til að lýsa fólki og fyrirbærum skipta miklu máli. Við eigum ekki að nota niðurlægjandi orð um fólk. Ég tók eftir því hve Rosmarie vandaði orðaval sitt. Hún talaði t.d. um fólk með vaxtarörðugleika (þýðing mín) í stað þess að tala um dverga. Ég er illa að mér í þeim orðum sem notuð eru í heimi fatlaðra og vona að ég móðgi engan þótt ég noti orð eins og dvergur. Það er ekki illa meint enda afar gamalt og  notað um hluta hins forna norræna goðaheims á jákvæðan hátt sbr. það að vera dverghagur. Ég er svo sannarlega reiðubúin til að endurskoða orðaval mitt því ég vil sýna öllum virðingu.

Rosmarie byrjaði á því að nefna að ein algengasta birtingarmynd fatlaðra í opinberu rými væri af betlurum á götum úti. Þetta kannast þeir við sem gengið hafa um erlendar stórborgir en sem betur fer er slíkt fátítt hér á landi. Á 19. öld voru ákveðnir hópar fatlaðra notaðir sem sýningargripir og þekkjum við Íslendingar nokkur slík dæmi, t.d. Jóhann risa (var hann fatlaður, það er spurning, hann var í það minnsta "öðru vísi"). Ólöf dvergur er annað dæmi en reyndar villti hún á sér heimildir og þóttist vera Grænlendingur svo sem frægt er. Síamstvíburar voru vinsælir í sirkusum, sem og handalausir, dvergar, skeggjaðar konur, karlar með brjóst, tvíkynjað fólk og þar fram eftir götunum. Dvergar voru vinsælir skemmtikraftar hjá konungshirðum fyrri alda.

Á stríðstímum fjölgar fötluðum mjög, hermenn missa iðulega útlimi eða lamast og eru af þeim margar sögur. Það má t.d. nefna eiginmann Lady Chatterley í skáldsögu D.H. Lawrence að ekki sé minnst á ótal ritverk um geðfatlaða. Nú til dags verður fjöldi barna fyrir skaða við að stíga á jarðsprengjur og almennir borgarar særast í loftárásum.

Það er sem betur fer löngu liðin tíð að fatlað fólk sé sýningargripir og ég ætlaði að skrifa lokaðir inni en ég efast reyndar mjög um að hætt sé að loka fatlaða inni. Of margar slíkar sögur hafa komið fram á undanförnum árum. Ég sá t.s. sjálf óhugguleg geðveikrahæli á Balkanskaga þegar ég vann í Kósóvó og geðveikt fólk lokað inni í fangelsum án viðeigandi meðferðar.

Staða og ímynd fatlaðra hefur breyst mjög til batnaðar víða um heim. Nú til dags hafa fatlaðir eignast sína talsmenn, baráttusamtök og hetjur. Rosmarie minntist m.a. á leikarann Christopher Reeve og fleiri leikara og listamenn. Þá hefur íþróttaþátttaka fatlaðra gefið stórkostlega mynd af öllum þeim fjölbreytileika og hæfileikum sem fatlaðir búa auðvitað yfir. Þar eigum við miklar hetjur ekki síst sunddrottningarnar margverðlaunuðu.

Það er þó margt að skoða í heimi fatlaðra eins og við vitum vel hér á landi þar sem stórum hópi fatlaðra býðst ekki vinna við hæfi og er gert að lifa við fátækt. Við eigum enn eftir að gera upp við ofbeldi gegn fötluðum, þar með talið kynferðislegt ofbeldi og einangrun þeirra og útskúfun um aldir.  Virðum margbreytileikann og leyfum hæfileikum fatlaðra að njóta sín eins og allra annarra.


Íhaldssamur leikhúsheimur

Ólíkt höfumst vér að. Meðan Íslendingar fækka konum á þingi, auka Svíar framlög til jafnréttismála og leggja áherslu á að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum, nú síðast í menningarheiminum. Þótt Svíar teljist mesta jafnréttisþjóð í heimi er enn mikið verk að vinna.

Þær Lena Adelsohn menntamálaráðherra og Nyamko Sabuni jafnréttisráðherra skrifuðu saman grein í Dagens Nyheter í gær þar sem þær lýstu fyrirhuguðum aðgerðum til að ráðast gegn þeirri íhaldssemi sem ríkir í sænskum leikhúsheimi. Það á að setja tæpar 60 milljónir íslenskra króna í sértækar aðgerðir.

Nýlega lagði jafnréttisnefnd sænska ríkisins fram álit um stöðuna í leikhúsunum þar sem bent er á afturhaldssöm viðhorf sem þar ráða ríkjum og að mikið sé um kynjamismunun og kynferðislegt áreiti. Konur stjórna barnaleikhúsum og setja upp barnasýningar, kalar eru í stóru leikhúsunum. Því ofar sem störður eru í kerfinu, því fleiri karlar, þótt konum hafi reyndar fjölgað. Verkefnavalinu er stjórnað af körlum. Því meiri peningar og athygli, því fleiri karlar.    

Ráðuneyti mennta- og jafnréttismála eru að undirbúa aðgerðir sem lista- og jafnréttisstofnanir eiga að fylgja eftir. Þriðja hvert ár ber þeim að leggja fram úttekt á stöðu mála, fylgjast með árangri aðgerða og greina vandann. Þessar úttektir gegna þeim tilgangi annas vegar að gefa stjórnmálamönnum tæki til að fylgjast með leikhúsheiminum og hins vegar að vera aðhald að leikhúsunum sjálfum.

Milljónunum sextíu verður skipt í tvennt og fara þrjátíu milljónir til stuðnings hvetjandi jafnréttisaðgerðum innan leikhúsanna hinar þrjátíu milljónirnar eiga að fara til aðgerða samtaka innan menningargeirans. Jafnframt beina þær stöllur þeim tilmælum til kvennasamtaka og annarra sem sinna kynjajafnrétti að beina sjónum að menningarmálum, þar sé pottur brotinn.

Hvenær ætli við sjáum aðgerðir af þessu tagi á Íslandi? Jafnréttislög ná nefnilega til ALLRA.


Bloggfærslur 16. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband