24.5.2007 | 21:21
Lærðu að nauðga - eða burt með ofbeldið?
Mér varð illt í morgun við að lesa fréttina á baksíðu Morgunblaðsins um nauðgunarleikinn sem hægt er að nálgast á netinu. Enn ver varð mér við að heyra viðtalið við þann sem rekur netsíðuna. Nei, hann er ekkert hrifinn af þessu en svona er heimurinn. Heimurinn er vondur og við því er ekkert að gera. Hann ber enga ábyrgð og sér ekki að hann þurfi að gera neitt.
Það er verið að leika leik sem gengur út á athæfi sem er stórlega refsivert í íslenskum lögum (þótt dómstólar taki það nú reyndar ekki mjög hátíðlega). Nauðgun felur í sér líkamlegt ofbeldi og hefur mjög alvarlegar sálfræðilegar afleiðingar sem varað geta það sem eftir er lífsins. Það getur verið að erfitt sé að banna slíka leiki en svo mikið er víst að siðferðileg rök hrópa á þann sem rekur vefsíðuna að taka leikinn út nú þegar. Það er löngu kominn tími til að skera upp herör gegn því siðleysi og þeirri ofbeldisdýrkun sem alið er á alla daga í sjónvarpi (líka RÚV), kvikmyndum og á netinu.
Mikið af ofbeldinu beinist að konum. Það er sífellt verið að myrða og misþyrma konum, nú síðast í þessum tölvuleik. Ég tek undir það með Katrínu Önnu Guðmundsdóttur það er löngu tímabært að íslenskir karlmenn axli ábyrgð á karlaofbeldinu hér á landi og leggi okkur konum lið við að útrýma því, m.a. með því að hafna þessum tölvuleik og öðru ofbeldi og fá aðra karlmenn til að gera slíkt hið sama.
Við eigum ekki að ala drengi upp í ofbeldisdýrkun. Það bitnar á þeim sjálfum, öðrum drengjum, stúlkum, konum og samfélaginu öllu. Það er öllum í hag að kveða ofbeldið niður.
"Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Þessi orð Jesú Krists voru sögð í þeim tilgangi að ýta undir hið góða, ekki hið illa. Það mætti minna oftar á þau og einnig að það er skylda okkar að ganga til liðs við hið góða og hafna hinu illa. Ekki að yppta öxlum og gefast upp gagnvart því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2007 | 21:02
Eign okkar eða ríki í ríkinu?
Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá því að Landsvirkjun teldi sig hafa rétt til að reisa Norðlingaölduveitu, hvað sem liði ummælum Ingibjargar Sólrúnar í gær um að sú umdeilda virkjun væri úr sögunni. Mér leist ekki á þau ummæli Geirs Haarde að stjórnarflokkarnir ættu eftir að koma sér saman um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Hann var að draga úr orðum Ingibjargar.
Árni Finnsson sagði fyrir nokkru að Landsvirkjun gæfist aldrei upp. Friðrik Landsvirkjunarforstjóri heimsótti Geir í dag og ætlar að ræða við Össur iðnaðarráðherra síðar. Hann er að reyna að tala þá til, svo að Landsvirkjun geti haldið áfram á sinni mjög svo umdeildu braut. Ég spyr: hvernig er það er Landsvirkjun ekki ríkisfyrirtæki? Er það ekki undir kjörinni stjórn? Þarf fyrirtækið ekki að fara að ákvörðunum stjórnvalda? Hvað eiga svona yfirlýsingar að þýða eins og að þeir hafi virkjunarrétt? Er ekki hægt að fella veitt leyfi úr gildi, taka ákvarðanir ríkisfyrirtækisins til baka? Ef ríkisstjórnin ákveður að stækka friðlandið þá á Landsvirkjun að virða það og ekki orð um það meir.
Ég held að ef Landsvirkjun vogar sér lengra í Þjórsárverum og við Þjórsá, muni það kosta miklu meiri átök en kringum Kárahnjúkavirkjun. Það er nú þegar búið að ganga allt of langt í eyðileggingu á íslenskri náttúru. Ef nauðsynlegt er að virkja meira í þágu landsmanna verður að vanda valið og virkja þar sem eyðilegging verður allra minnst.
Það er stefna ríkisstjórnarinnar að marka framtíðarstefnu varðandi nýtingu orkulinda og reyna að ná sátt um virkjanakosti. Því miður virðist svo sem deilur haldi áfram enda ekki við öðru að búast ef menn ætla að hanga í stóriðjustefnunni. Næst verða það Þeystareykir og Reykjanesið. Ef ákveðið verður að byggja álver við Húsvík þýðir það gjörbreytta ásýnd landsins á stóru svæði í nágrenninu. Þar verður ekki aðeins reist verksmiðja heldur munu gríðarleg línustæði liggja um sveitir og byggja þarf gufuaflsvirkjun með öllu sem henni fylgir. það þýðir gufustróka, byggingar, affallsvatn, eiturefni, o.s.frv. Nei stríðinu er ekki lokið, það er rétt að byrja.
Er ekki kominn tími til að koma böndum á Landsvirkjun? Íbúar þessa lands eiga fyrirtækið og það getur ekki og á ekki að haga sér eins og stjórnendum þess sýnist, eins og ríki í ríkinu. Það verður að vinda ofan af stóriðjustefnunni og taka nýja stefnu. Möguleikarnir eru óteljandi, það er viðurkennt í nýja stjórnarsáttmálanum. Breytt stefna er eina lausnin til að koma á friði í landinu um náttúruverndarmálin.
Setjum Landsvirkjun í útrás. Nýtum þekkingu á orkuöflun í þágu fátækra þjóða, þó þannig að land sé ekki eyðilagt meira en brýna nauðsyn ber til. Við eigum að virkja og framleiða orku eftir þörfum okkar, en ekki til að laða að mengunariðnað og fórna íslenskri náttúru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)