Frú Pritchard kveður

Ekki má ég svíkja lesendur mína um síðustu fréttir af frú Pritchard. Þáttunum um hina frábæru frú Pritchard lauk í gærkvöldi og ég ætla rétt að vona að þeir verði sýndir í íslensku sjónvarpi. Þeir sýna bæði ljósu og dökku hliðar stórnmálanna og varpa skemmtilegu ljósi á líf stjórnmálamanna, tryggð og svik, hugsjónir og hagsmuni.

Síðasti þátturinn fór í glímu forsætisráðherrans við þá klípu sem eiginmaður hennar kom henni í. Eins og ég sagði frá í síðasta pistli um þættina þá kom í ljós að hann hafði tekið þátt í peningaþvætti fyrir 15 árum. Eldri dóttir þeirra sagði móður sinni frá þessu og nú eru góð ráð dýr. Fyrst stendur frú Pritchard frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort að afhjúpa svikin og segja af sér eða að láta sem hún viti ekki neitt og halda sínu striki. Síðari konsturinn fæli í sér svik við það sem hún lofaði kjósendum en það var að gerast ekki lygari eins og allir hinir stjórnmálamennirnir.

Smátt og smátt kemur í ljós að síðari kosturinn er ekki vænlegur. Of margir vita um málið og einn þeirra sem veit reynir að notfæra sér þá vitneskju til að fá samning við breska ríkið. Aðstoðarkona forsætisráðherrans sem hefur reynt allt til að halda henni á floti (stundum með tvíræðum aðferðum) gerir henni ljóst að blaðamaðurinn sem veit af hneykslinu muni fyrr eða síðar láta það flakka á síðum einhvers blaðsins.

Fjármálaráðherrann sem sjálf á í mikilli krísu vegna sambands við ungan mann (hún er að sjálfsögðu kona eins og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn frú Pritchard) ráðleggur frú Pritchard að skilja við eiginmanninn svo hún geti haldið áfram í stjórnmálum. Frú Pritchard verður nú að velja milli eiginmannsins - lífsförunautar síns, föður dætranna tveggja sem þó hefur komið henni í mikinn vanda og þess að þjóna þjóðinni áfram, láta til sín taka og koma í framkvæmd þeim góðu málum sem hún hafði lofað. Frú Pritchard er í siðferðilegri klemmu og það sjáum við síðast til hennar að ráðherrarnir ganga af fundi hennar en eiginmaðurinn gengur á hennar fund. Áhorfendur verða að svara því hvað rétt er að gera í stöðunni.  


Latur bloggari

Það hefur verið hálfgert gúrkuástand hjá mér undanfarna daga. Eftir að ríkisstjórnin var mynduð er úr mér allt pólitískt púður og mér dettur fátt í hug. Það stendur vonandi ekki lengi. Ég hef hins vegar verið því duglegri að lesa blogg annarra.

Fyrir nokkrum dögum datt ég niður á blogg Kristínar Jóhannsdóttur sem býr í Vancouver í Kanada. Hún skrifaði um nýlegar bíómyndir sem hún hafði leigt sér og vöktu áhuga minn. Önnur var finnsk mynd um fótboltastráka og -stelpur eða réttara sagt hjón sem ákváðu að keppa um það hver færi á heimsmeistaramótið í Þýskalandi (2006). Stórskemmtileg mynd að sögn nöfnu minnar. Hin myndin er kanadísk löggumynd sem hefur verið verðlaunuð í bak og fyrir í Kanada. Það er auðvitað dæmigert að hvorug þessara mynda hefur borist til Íslands. Hér ræður amerískt drasl ríkjum og þarf kvikmyndahátíðir til að hingað berist gæðamyndir. Þar er þó ein og ein undantekning eins og þýska verðlaunamyndin Líf annarra sem verið er að sýna í Háskólabíói.

Í dag las ég svo blogg Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu, mér til mikillar skemmtunar, en hún er að dunda við að skrifa ástarsögu í anda hinnar geisivinsælu Theresu Charles en bækur hennar voru gefnar út í skrautbandi árum saman upp úr miðri síðustu öld. Þetta er krassandi spítalasaga, glæsilegur skurðlæknir sem sturlar nánast allar konur sem nálægt honum koma. Það verður spennandi að sjá hver framvindan verður og hvort ástin sigrar að lokum. Það verður að teljast líklegt. Svo er það líka spurning hvort Steinunn Ólína ætlar sér að slá Ellý út sem vinsælasti bloggarinn með krassandi sögu?

 


Bloggfærslur 29. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband