Myndir sem skylt er að horfa á!

Ég var að horfa á fræðslumynd í sjónvarpi allra landsmanna þar sem sá snjalli David Attenborough fjallaði um hækkandi hitastig á jörðunni og áhrif þess á lífríkið eða gróðurhúsaáhrifin margumræddu. Það sem var einna athyglisverðast var að Attenborough bar saman atriði úr myndum sem hann gerði fyrir 27 árum (Life on Earth) og sýndi fram á þær breytingar sem orðið hefðu.

Einna svakalegast var að sjá kóralrifin við Ástralíu sem eru að tapa lífi og lit vegna þess að þörungarnir sem hafa búið á þeim eru að hverfa. Sýndar voru byggðir sem ýmist eru að sökkva í sjó eða sand á svæðum vaxandi eyðimarka. Leitað var til fjölda vísindamanna sem ýmist voru að rannsaka jökla og bráðnun þeirra, veðurfar, þar með talda fellibyli og áhrif þeirra eða líf hvítabjarna á norðurslóðum sem eiga mjög í vök að verjast vegna hlýnunar sjávar og bráðnunar íss. Tími birnanna til að afla fæðu hefur styst um þrjár vikur vegna þess að ísinn er forsenda veiðanna. Litlu ísbjarnarhúnarnir geta því lent í svelti. Stofninn hefur minnkað um fjórðung á 25 árum. Mengun er líka að fara illa með ísbirnina þótt það kæmi reyndar ekki fram hjá Attenborough.

Fram kom að hópur vísindamanna hefur gert reiknimódel til að bera saman eðlilegar breytingar á veðurfari í ljósi sögu jarðarinnar og svo þess sem gerst hefur undanfarin 120 ár. Breytingarnar tóku stökk upp úr 1970 og þær eru mun hraðari en með nokkru móti telst eðlilegt. Orsökin er án efa lifnaðarhættir mannsins.

Í næsta þætti fer David Attenborough nánar í ýmsa þætti gróðurhúsaáhrifanna. Það er alveg ljóst að aðalorsakavaldurinn er brennsla kolefna (kol og olía) sem er að gera "verndarhjúpinn" umhverfis jörðina æ þykkari með þeim afleiðingum að undir honum vex hitinn stöðugt.

Hvað skyldi líða langur tími þar til tekið verður á þessum vanda af alvöru og stefnan tekin á breytta lifnaðarhætti sem fela í sér að dregið verði stórkostlega úr mengun og hvers kyns eituráhrifum? Á meðan Bandaríkjaforseti og hans lið lemur haus við stein er ekki von á úrbótum. Bandaríkin eru aðalsökudólgurinn meðal ríkja heims. Það er öfugsnúið að fólk sem stöðugt er með guðsorð á vörum skuli ekki vilja verja sköpunarverkið. Sem betur fer styttist í lok valdatíðar Bush og vonandi rennur þá upp önnur öld, öld þeirra sem horfast í augu við eyðilegginguna og hefjast handa við að bjarga móður jörð og allri hennar stórkostlegu fjölbreytni.    

 


Bloggfærslur 11. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband