23.6.2007 | 19:53
Betl og hundsbit í miðbænum
Það var frábær dagur lengst af í dag. Bókmenntaklúbburinn minn hittist á Hótel Holti í hádeginu og þar snæddum við undurgóðan hádegisverð. Á eftir hélt hópurinn í bæinn utan ein sem var á leið í næsta partý. Það tókst að komast niður á Jómfrú án mikilla útgjalda en litið var inn í nokkrar búðir. Í portinu á bak við Jómfrúna voru jasstónleikar að vanda en þeir hefjast nú kl. 15.00 alla laugardaga. Þeir Erik Quick, Sigurður Flosason og félagar fluttu ljúfan djass. Eftir því sem ég best veit skipuleggur Sigurður Flosason sumartónleika Jómfrúarinnar og hann er algjör snillingur. Þvílíkur mússíkant.
Eftir að tónleikunum lauk rölti ég í bókabúðir og stefndi loks á ríkið í Austurstræti til að kaupa hvítvín. Á leiðinni varð ég enn einu sinni fyrir því að menn reyndu að betla af mér peninga. Fyrir nokkrum dögum var ég inni í apóteki á Laugaveginum þar sem náungi einn bað mig um peninga og ég er hreinlega alltaf að lenda í þessu í miðbænum. Annað hvort ég ég svona góðkvenleg eða ríkkvenleg. Ég verð oft við slíkum óskum en þetta fer mjög í taugarnar á mér. Betl er bannað og til skammar. Borgaryfirvöld verða að taka á þessu ástandi í miðbænum.
En þá er það lokahnykkurinn á deginum. Þegar ég kom út úr ríkinu heyrði ég sáran barnsgrát. Lítill drengur grét hátt í fangi föður síns og blóð lak úr nefi og munni. Hann hafði vikið sér að hundi sem var bundinn fyrir utan ríkið en hundurinn gerði sér lítið fyrir og beit hann í andlitið. Foreldrarnir voru í sjokki en ég og fleiri sem þarna voru sögðu þeim að koma sér á Slysavarðstofuna á stundinni. Pabbinn brá sér inn í anddyrið og spurði hver ætti hundinn en síðan hröðuðu foreldrarnir sér af stað, vonandi á leið beint upp á spítala.
Ég varð vitni að því þegar eigandi hundsins kom á spretti út úr ríkinu, losaði hundinn og hljóp í burtu. Ég hafði ekki vit á því að reyna að stoppa hann, hefði viljað hafa myndavél. Hann var á fertugsaldri, mundi ég halda, mjög ljós yfirlitum og á rauðum stuttbuxum. Hann hljóp af vettvangi en að mínum dómi á að lóga dýrum sem bregðast svona við. Ég veit ekki nákvæmlega hvað barnið gerði en ég get ekki ímyndað mér að litli drengurinn hafi gert nokkuð það sem réttlætti þessi viðbrögð hundsins. Börn eru yfirleitt hrifin af dýrum. Ég er enn í uppnámi en vona að litli drengurinn hafi ekki beðið mikinn skaða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)