Sumar og sjónvarpsgláp

Eitthvert kvöldið datt mér í hug að skella mér í bíó en eins og svo oft áður var ekkert í bíóhúsunum sem mig langaði til að sjá. Ekki í fyrsta sinn. Endalausar hasarmyndir, hryllingur og manndráp. Þá er ekki um annað að ræða en að snúa sér að sjónvarpinu heima. Þar tók ekki betra við á íslensku stöðvunum. Endalausar glæpamyndir og ofbeldi. Ofbeldisuppeldið bregst ekki fremur en fyrri daginn. Ég hef gaman af góðum "leynilögreglumyndum" en þær eru sjaldséðar og verða því miður æ blóðugri.

Þegar svona háttar til koma norrænu stöðvarnar mér yfirleitt til bjargar. Norrænu stöðvarnar nota tækifærið í rigningunni þessar vikurnar og endursýna vinsælar seríur. Danska sjónvarpið kláraði nýlega að sýna vinsælustu og bestu sjónvarpsþætti allra tíma að mati Dana, Matador, sem var verið að endursýna í það minnsta í tíunda sinn. Nú eru það Nikolaj og Júlía sem eru sýnd á sunnudögum. Góð lýsing á lífi nútíma fjölskyldna Þá er einnig verið að  endursýna myndir um gamlan kunningja á laugardagskvöldum. Það er sá dásamlegi Inspector Morse en þær myndir nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Morse stenst sannarlega tímans tönn. Í danska sjónvarpinu hef ég líka verið að horfa á nýja gerð einnar frægustu ástarsögu allra tíma, Jane Eyre eftir Charlotte Bronté. Mjög vel gerð mynd í fjórum þáttum frá BBC.

Í sænska sjónvarpinu er það svo Foyle's War, afar vinsælir þættir sem hafa verið til sýningar um árabil á Norðurlöndum. Af einhverjum ástæðum sýnir Stöð 2 einn og einn þátt svona endrum og sinnum. Þetta er lögreglumynd af góða gamla breska skólanum og gerist í síðari heimsstyrjöldinni. Sennilega ekki nógu mikill hasar fyrir strákana á Stöð 2.

Svo eru það myndirnar um Rómaveldi, Ris og fall Rómaveldis sem er verið að sýna bæði í norska og sænska sjónvarpinu. Þetta eru leiknar heimildamyndir frá BBC með fantafínum leikurum. Sá fyrsti var um alþýðuforingjann Tiberíus Graccus, sá annar um Júlíus Sesar og sá þriðji sem er í kvöld fjallar um Neró keisara sem sat og spilaði á hörpu meðan Róm brann. Sannkölluð karlasaga en valdabaráttan segir sína sögu um menningararf okkar. Stríð og aftur stríð. Meira um Rómaveldi í næsta pistli. 


Ekki veður til að blogga

Nei, það er sko ekki veður til að blogga. Enda sést það á blogginu mínu. Afköstin eru núll. Dagar sólar og sunds. Ég hef um annað að hugsa. Sannleikurinn er reyndar sá að ég sit í blóðspreng við að klára greinar sem ég er að skrifa og verð að skila af mér með haustinu. Ég reyni eins og ég get að sitja við en þegar sólin skín dag eftir dag er erfitt að sitja við skriftir. Ég var þó ansi dugleg í dag og er með nokkuð góða samvisku.

Dagurinn byrjaði á sundi en reyndar hafði ég þá varið dágóðum tíma í blaðalestur.  Í  Vesturbæjarlauginni var stór hópur heldri borgara í vatnsleikfimi og lýsti af þeim hreystin og gleðin. Í hópnum sá ég tvær gamlar rauðsokkur. Meðan ég svamlaði fram og aftur hljómuðu köll kennarans, einn, tveir, einn. tveir, vinstri snú og undir hljómaði ljúf harmonikkutónlist. Sólin braust gegnum skýin og innan skamms sást ekki skýhnoðri á himni. Þetta var sælustund en ég hugsað: hvernig ætli það verði þegar ég verð orðin gömul og fer að stunda vatnsleikfimi í Vesturbæjarlauginni. Ætli ég kalli ekki til kennarans: Áttu ekki eitthvað með Rolling Stones? Það þýðir ekkert að bjóða minni kynslóð upp á harmonikkutónlist.


Bloggfærslur 10. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband