Meistari Baldvin

Í dag var Baldvin Halldórsson leikari borinn til grafar. Ég kynntist Baldvin fyrir um það bil 30 árum þegar ég var á kafi í stúdentapólitíkinni. Verðandi- félag vinstri manna, réði meirihlutanum í Stúdentaráði á þeim árum og við sem þar vorum héldum upp á 1. des. með miklum byltingardagskrám. Við litum á það sem hlutverk okkar að rifja upp sögu verkalýðsbaráttunnar og baráttuna við auðvaldið svona almennt sem og að brýna fólk til andófs gegn vondum valdhöfum. Páll Baldvin sonur Baldvins leikara var í hópnum og það var hann sem fékk pabba sinn til að koma og leiðbeina okkur við að setja upp dagskrána í Háskólabíói. Þetta var á þeim árum þegar stúdentum tókst að fylla Háskólabíó á fullveldisdaginn. Við lærðum mikið af Baldvin meðan á æfingum stóð og hann bjargaði örugglega miklu því við vorum að flytja kvæði og lesa upp úr gömlum barátturitum.

Nokkrum árum síðar vann ég í sumarvinnu með Ingu Láru Baldvinsdóttur við að taka viðtöl við gamalt fólk á Elliheimilinu Grund. Margan daginn röltum við út í Tjarnargötu í hádeginu þar sem Baldvin tók fagnandi á móti okkur, bauð okkur til borðs upp á brauð og álegg eða annað það góðgæti sem til var. Þá var nú aldeilis rætt um pólitíkina og staða mála krufin til mergjar. Þetta var eftir að Kvennalistinn kom fram og Baldvin vildi glöggva sig á þeirri hreyfingu en líka ræða um ákveðinn flokk sem honum fannst kominn rækilega út af sporinu. 

Ég rakst oft á Baldvin og Vigdísi í Tjarnargötunni þegar þau voru að koma eða fara í gönguferð. Alltaf heilsaði Baldvin með elegans, tók ofan hattinn og bugtaði sig. Það heilsar mér enginn annar með þessum hætti. Oft  tókum við okkur tíma til að spjalla saman um pólitík, bókmenntir og leikhúsið.

Fyrir nokkrum árum lagðist ég í Atómstöðina eftir Halldór Laxness af einhverju tilefni sem ég man ekki lengur hvert var. Ég velti mikið fyrir mér hvort og þá hver hefði verið fyrirmyndin að Búa Árland. Þessum menntaða, rólega og heimspekilega sinnaða stjórnmálamanni sem var um leið á kafi í herbraskinu. Þá gerðist það að ég rakst á Baldvin á förnum vegi. Mér datt í hug að hann myndi vita þetta enda mikill bókmenntamaður. Ég spurði hann og hann svaraði að bragði: Það var Gunnar Thoroddsen. Gunnar var í eina tíð borgarstjóri, þingmaður og ráðherra, meira að segja forsætisráðherra í andstöðu við meiri hluta Sjálfstæðisflokksins. Ég sá um leið að þetta gat passað en kannski er ósanngjarnt að reyna að finna skáldsagnapersónum stað í veruleikanum. Hitt er svo annað mál að margir þóttust sjá sig og sína í þessari mergjuðu samtímasögu Laxness sem höfundurinn les þessa dagana í Ríkisútvarpinu.

Ég mun ekki oftar hitta Baldvin í Tjarnargötunni en þakka honum allt spjallið og ekki síður hlutverkin á sviði Þjóðleikhússins og í útvarpinu.   


Bloggfærslur 23. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband