24.7.2007 | 17:35
Er Reykjavík ferðamannaborg?
Í dag tók ég strætó vestan úr bæ og upp í Hlíðar. Íslendingar voru í miklum minnihluta í vagninum. Ég heyrði ensku, spænsku og japönsku allt í kringum mig. Allt voru þetta ferðamenn. Í framhaldi af þessu fór ég að hugleiða hvort Reykjavík væri góð ferðamannaborg? Gera borgaryfirvöld sér grein fyrir því hve straumur ferðamanna fer vaxandi ár frá ári og að þeim þarf að þjóna?
Til að byrja með eru almenningssamgöngur í borginni hörmulegar um þessar mundir. Hver leið fer aðeins tvisvar sinnum á klukkutíma sem getur þýtt allt að hálftíma bið. Þetta er nú ekki vænlegt fyrir ferðamenn sem gjarnan nýta sér strætó, hvað þá góð ímynd fyrir borgina sem hreina og vistvæna. Nei, Reykjavík er borg einkabílsins.
Í blíðviðrinu undanfarið hef ég marg sinnis lent í því að ferðamenn hafa spurt mig vegar einkum í leit að Þjóðminjasafninu. Það þarf að merkja leiðina þangað frá miðbænum, sem og til annarra safna, mun betur en gert er, t.d. á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis. Erlendis sjást slíkar merkingar víða í margra kílómetra fjarlægð.
Á Austurvelli stendur Jón Sigurðsson og horfir bjartur yfirlitum á þinghúsið. Það er ætlast til að allir viti hver þetta er því styttan er ómerkt og hvergi neinar upplýsingar um hann að finna í nágrenninu. Eflaust er eitthvað sagt um hann í ferðabæklingum en mætti ekki merkja styttuna á smekklegan hátt? Sama gildir um aðrar styttur, oftast er nafn viðkomandi á þeim (eða nafn höfundar) en engar frekari upplýsingar að sjá, hvorki á íslensku né ensku.
Hvað um íslenska menningu? Hvernig er hún kynnt í borginni okkar? Hvert er hægt að fara til að kynnast Íslendingasögunum eða þjóðsögunum í upplestri og fyrirlestrum? Eða sögu borgarinnar, t.d. í heimildamyndum? Hvað um sögugöngur fyrir erlenda ferðamenn? Birna Þórðardóttir býður reyndar upp á menningargöngur en er það nóg? Hvað um t.d. kvennasögugöngur? Það koma hingað mjög margar konur sem vilja gjarnan heyra af íslenskum valkyrjum.
Hvert er hægt að fara til að hlusta á íslenska tónlist? Hvað um leiksýningar fyrir ferðamenn? Er Northern Lights leikhúsið ekki dáið drottni sínum? Ekki hef ég séð það auglýst á þessu sumri, fremur en annað á menningarsviðinu sem sérstaklega er ætlað ferðamönnum.
Það eru fín söfn í borginni en það vantar lifandi menningu, lifandi frásagnir, samræður við ferðamenn.
Undanfarnar vikur hefur kvikmyndin Mýrin vakið mikla athygli erlendis. Sama má segja um Börn og Foreldra. Þær eru ekki til sýnis fyrir erlenda ferðamenn, ekki svo mikið sem í einum litlum sal og reyndar er engin íslensk kvikmynd sýnd í bíóhúsunum.
Ég held að borgaryfirvöld og aðrir þeir sem koma að málefnum ferðamanna þurfi að hugsa sinn gang. Borgin hefur miklar tekjur af ferðamönnum og þær gætu verið miklu meiri ef betur væri um þá hugsað. Þeir þurfa meira en gistingu og mat. Íslensk menning hefur upp á margt að bjóða. Aðrar þjóðir hafa fyrir löngu lært að nýta sér menningararfinn. Írar komu t.d. upp skáldasafni í Dublin fyrir löngu og þar er ferðamönnum boðið upp á írska tónlist, dans og írskan mat, allt i einum pakka. Möguleikarnir eru margir. Nú er að opna augun og framkvæma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)