29.7.2007 | 22:23
Spennandi norrænt spennuefni
Á sumrin er ágætt að sökkva sér niður í GÓÐAR spennumyndir og krimma í bókum og sjónvarpi. Það mætti halda af pistlum mínum að ég sitji löngum stundum yfir sjónvarpi en það er alls ekki svo. Ég vil bara fá að sjá eitthvað almennilegt þá sjaldan að ég sest við skjáinn. Og þá eru það norrænu stöðvarnar sem eru mín huggun.
Í vetur voru sýndar nýjar framhaldsspennumyndir bæði í sænska og danska sjónvarpinu sem nutu mikilla vinsælda enda þrælspennandi. Þær eru nú að ganga á milli norrænu stöðvana. Nema auðvitað á Íslandi. Annars vegar er það danska myndin Afbrotið (Forbrydelsen) en nú er verið að auglýsa næsta hluta hennar sem hefst í september í danska sjónvarpinu. Hins vegar er mynd um sænsku lögreglukonuna Höök sem var sýnd í vetur í sænska sjónvarpinu og er nú í því danska.
Þegar ég var á ferð í Umeå í byrjun sumars las ég pistil í einu heimablaðanna um kvikmyndaiðnaðinn sem nú blómstrar í borginni Luleå sem er mjög norðarlega við Nordbotten í Svíþjóð. Hún er á svæði Sama en byggðin er orðin mjög blönduð eins og annars staðar. Í Luleå er stórt kvikmyndaver og þar hafa verið framleiddar margar frábærar myndir undanfarin ár, t.d. þessi um lögreglukonuna Höök. Í greininni sem ég las höfðu menn nokkrar áhyggjur af því að verið væri að draga upp mynd af heldur þunglyndum og brotlegum íbúum norðurhéraðanna en hvað sem því líður þá á sér stað mikil og spennandi sköpun í kvikmyndaborginni Luleå.
Nú er það spurningin hvenær fáum við hér á ísaköldu landi að sjá þessar myndir frá samfélögum sem eru svo miklu skyldari okkur en stórborgir USA með allt sitt ofbeldi? Það er huggun harmi gegn að átta sig á því að það er ýmislegt sem sameinar okkur hér á norðurslóðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2007 | 11:59
Mistök leiðrétt
Úps. Mér varð heldur betur á í messunni í síðasta pistli þegar ég endurskírði Lyngdalsheiðina, sem vel að merkja er heiðin mili Laugardals og Þingvalla. Ég fékk margar athugasemdir sem enduðu með því að ágætur náttúrufræðingur hringdi í mig til að leiðréttingin kæmist nú örugglega til skila.
Ég kann nú enga skýringu á þessu aðra en að leiðslum hafi slegið saman í heilanum á mér eftir hristinginn yfir heiðina (sem sagt vottur af heilahristingi), því ég veit vel hvað heiðin heitir. Líndalsheiði er bara alls ekki til, hins vegar eru til örnefni kennd við lín sem minna á þá daga þegar lín var ræktað hér á landi, t.d. Línakradalur norður í Húnavatnssýslu.
Svo þakka ég fyrir athugasemdirnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)