11.4.2007 | 13:52
Kosningahegðun kynjanna
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur flutti stófróðlegan fyrirlestur hjá RIKK núna í hádeginu. Hann hefur fengist við kosningarannsóknir um árabil og hefur verið að skoða mismunandi kosningahegðun kynjanna hér á landi. Í ljós kemur að munur á konum og körlum fer sívaxandi og stefnir í að hann nái nýrri hæð í kosningunum 12. maí ef marka má skoðanakannanir. Þessi munur er töluvert meiri hér en á hinum Norðurlöndunum sem vekur margar spurningar, einkum um flokkakerfið og afstöðu til velferðarmála sem eru konum mjög hugleikin.
Markvissar kosningarannsóknir hófust hér á landi árið 1983 en það var einmitt þá sem Kvennalistinn bauð fyrst fram til Alþingis. Árið 1983 mældist fremur lítill munur á konum og körlum en Kvennalistinn fékk þó megnið af sínu fylgi frá konum. Frá og með 1987 varð breyting á og síðan hafa konur kosið í sífellt meira mæli til vinstri. Kvennalistinn skilgreindi sig sem nýja vídd í stjórnmálum en ef viðmiðið er fyrst og fremst afstaða til velferðamála og hlutverks ríkisins við að tryggja jöfnuð þegnanna var Kvennalistinn vissulega til vinstri auk þess sem hann var andvígur ríkjandi stóriðjustefnu og lagði mikla áherslu á umhverfismál. Svo virðist sem kjósendur Kvennalistans hafi aðallega skilað sér til Samfylkingarinnar fyrst eftir að ævi hans lauk en nú liggur straumur kvenna yfir til VG.
Rannsóknir Einars Mars leiða í ljós að karlar eru mun flokkshollari en konur og að það eru málefnin fyrst og fremst sem ráða afstöðu kvenna. Það virðist líka hafa áhrif hvort konur eru ofarlega á lista. Konur kjósa konur og málefni. Samkvæmt því sem fram kom hjá Einari er verulegur munur á afstöðu kynjanna einkum til velferðarmála og umhverfismála eins og fam hefur komið í fréttum.
Í umræðum á eftir var spurt hvers vegna sjónum væri ekki beint að körlum? Hvers vegna eru karlar svona hægrisinnaðir? Er skýringin sú að þeir eru tengdari valdakerfinu og vinna í ríkara mæli í einkageiranum en konur? Það var líka bent á hve fylgissveiflurnar eru nátengdar stöðu efnahagsmála á hverjum tíma. Það er atriði sem vert væri að kanna nánar. Hefur sú mikla samþjöppun sem orðið hefur undanfarin ár á efnahagslegu valdi í höndum lítils hóps vellríkra karla, leitt til þess að munurinn á kjörum karla og kvenna hefur orðið augljósari en áður? Er það ein skýringin á því að konur streyma til vinstri? Það er líka athyglisvert að þegar Sjálfstæðar konur voru hvað virkastar innan Sjálfstæðisflokksins var kynjamunur hvað minnstur þar á bæ meðal kjósenda. Það er nokkuð sem sá flokkur mætti læra af. Samfylkingin sem hefur verið að missa fylgi kvenna þarf hins vegar að átta sig á því að það eru málefnin sem skipta mestu. Þar þarf hún að skerpa áherslur og tala til kvenna ætli hún sér að ná flugi að nýju og taka þátt í að fella ríkisstjórnina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning