Konur í stjórnmálum

Það var gaman að hlusta á Karen Ross í gær í Norræna húsinu þegar hún fjallaði um fjölmiðla og konur í stjórnmálum. Karen hefur rannsakað fjölmiðla um árabil og rætt við stjórnmálakonur í Bretlandi, S-Afríku og Ástralíu. Hún er nú á leið til Nýja Sjálands en þar ætlar hún að ræða bæði við konur og karla í stjórnmálum til að fá samanburð á samskiptum þeirra við fjölmiðla. Upphafið er að finna í reynslu hennar sjálfrar frá því að hún bauð sig fram til borgarstjórnar og undraðist þá mjög hvernig  fjölmiðlar fjölluðu um hana. Þar er skemst frá að segja að alls staðar er sömu sögu að segja. Fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á aldri, klæðnaði, skartgripum eða klippingu kvenna en því hvað þær hafa fram að færa. Niðurstaða Karen Ross er sú að með slíkri umfjöllun sé stöðugt verið að gera lítið úr konum og draga úr trúverðugleika þeirra. Þær gera helst aldei neitt rétt. Ýmist eru þær of ungar eða gamlar, illa klæddar eða of ríkmannlega. Ráð kvenna eru þau að vera trúar sjálfum sér, passa að fjalla ekki eingöngu um mál sem leiða til þess að þær séu afskrifaðar af fjölmiðlum, heldur blanda sér í þær umræður sem fjölmiðlar telja til „stjórnmála“(gleyna þó alls ekki málefnum kvenna og barna), vera meðvitaðar um þær aðferðir sem fjölmiðlar beita, þar með talið hvernig ljósmyndir eru teknar af konum og gefa sem minnst færi á að vera negldar í staðalmyndir af móðurinni, glamúrgellunni eða karlkonunni. Konur þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að þær sitja ekki við sama borð og karlar og hætta að afneita því. Dæmin eru allt of mörg og alveg sama hvort um er að ræða kratann Monu Sahlin eða íhaldskonuna Angelu Merkel í Þýskalandi.

Fjöldi rannsókna á fjölmiðlum staðfesta niðurstöður Karen Ross og sýna að þeir taka allt öðru vísi á konum en körlum. Fyrir allmörgum árum var gerð rannsókn í Danmörku sem leiddi í ljós að almennt fjölluðu fjölmiðlar neikvætt um konur í stjórnmálum og hömuðust á ákveðnum konum. Þáverandi menntamálaráðherra krata hét Jytte Hilden og það var alveg sama hvað hún gerði. Ef ekki var hægt að tæta í sundur eitthvað sem hún sagði þá var það klippingin eða klæðnaðurinn. Svo velja fjölmiðlar sér eina konu sem þeir hampa. Ég læt því ósvarað hver er í því hlutverki hér á landi nú um stundir. Á fyrstu árum Kvennalistans á þingi voru þingkonur hans fastagestir á listum yfir verst klæddu konur landsins. Þær voru auðvitað ekki almennilegar KONUR. Það þarf vart að minna á meðferðina á Monu Sahlin. Henni varð á í messunni og gerði dýrkeypt mistök en að lokum var hún  sýknuð af skattayfirvöldum en varð að segja af sér eftir að hafa farið í frí til Máritiíus ásamt aðstoðarmanni og lífvörðum, sem sagt á kostnað skattgreiðenda. Sænskir fjölmiðlarnir hökkuðu hana í spað og hafa alið á tortryggni í hennar garð. Hún reis samt upp að nýju og er nú formaður sænska Sósíaldemokrataflokksins. Allt áhugafólk um stjórmál ætti að lesa Krónprinsessuna eftir Hanne Vibeke Holst. Hún kom út á íslensku fyrir nokkrum árum og er byggð á talsverðri rannsóknarvinnu. Kveikjan að bókinni var herferðin gegn Monu Sahlin.  

Fyrir nokkrum dögum las ég grein um Nancy Pelosi sem nú er forseti Bandaríska þingsis. Hún er hatramur andstæðingur Írakstríðsins, styður frjálsar fóstureyðingar og hefur beitt sér í réttindamálum samkynhneiðgra. Hún er kona með sterkar skoðanir en þykir afar klók og mikil samningakona sem hefur tekist að þjappa demokrötum saman. Þegar Bush flutti síðustu
stefnuræðu sína sat hún sem fastast og klappaði ekki fyrir honum. Hún hefur setið í 20 ár á þingi. Þegar hún tók við embætti höfðu blöðin það helst um hana að segja hvað hún hefði verið í fínni dragt og með dýra skatrgripi (það þarf ekki að taka fram að hún er vellrík enda komast ekki
aðrir á þing í USA). New York Times setti í fyrirsögn á forsíðu: Ræður hún við starfið? (Can she do the job?). Eftir 20 ár á þingi! Hvað er nú þetta annað en kvenfyrirlitning. Konur eru ekki velkomnar inn í völundarhús karlveldisins og þær fá að finna fyrir því enda gefast margar upp.

Um þessar mundir er verið að endurtaka rannsókn frá árinu 2003 en þá var fylgst með hlut kvenna og karla í spjallaþáttum í útvarpi og sjónvarpi. Árið 2003 var hlutur kvenna 24% sem er auðvitað ekki í neinu samræmi við þátttöku kvenna í þjóðlífinu. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú fjórum árum síðar og hvort heimsókn Karen Ross leiðir til þess að fjölmiðlar líti í eigin barm. Ekki veitir af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband