15.4.2007 | 15:25
Cvalleria Rusticana
Það var með hálfum huga sem ég fór í íslensku óperuna í gærkvöldi. Ég var með lausan miða en enginn vildi koma með mér. Sýningin hafði fengið heldur slælega dóma og því átti ég svo sem ekki von á miklu. En þvílík stemning! Það var klappað, stappað og flautað í lokin. Cavalleria Rusticana eftir Mascagni er einhver fallegasta ópera sem samin hefur verið (að mínum dómi) frá fyrsta stefi til hins síðasta. Kórinn hefði mátt vera betri á köflum en einsöngvararnir bættu það heldur betur upp og hljómsveitin var fín. Elín Ósk er fædd í hlutverk Santuzzu og var mjög dramatísk. Jóhann Friðgeir var mjög fínn og mikið er gaman að fylgjast með Ólafi Kjartani, hann verður sífellt betri. Ég er viss um að hann á eftir að ná langt með sína sterku og fallegu rödd - það geislar af honum krafturinn. Eins og fleiri óperur fjallar Cavalleria Rusticana um ástir, svik og afbrýðisemi sem leiða til óhamingju og dauða og það á sjálfum páskunum á Sikiley. Það er athyglisverður kynjavinkill í þessari óperu því Santuzza er "fallin" kona og á sér ekki viðreisnar von ef Turiddu giftist henni ekki. Þess í stað er hann drepinn vegna þess að hún sagði frá og örvætning hennar er hyldjúp. Þótt þetta sé mikið drama gekk ég út úr Gamla bíó alveg í skýjunum og raulaði stefin á leiðinni upp Laugaveginn. Boðskapurinn er: ekki taka of mikið mark á blaðadómum! Tónlistin stendur fyrir sínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.