15.4.2007 | 18:56
Tilboð á Laugavegi
Ég rölti upp Laugaveginn í blíðunni í gærkvöldi eftir að hafa notið Cavalleria Rusticana. Það var margt um manninn, erlendir ferðamenn voru greinilega að koma úr langferð, fólk að fá sér að borða á veitingahúsunum og aðrir á leið í bæinn. Mér var sagt fyrir nokkru að það væri starfandi hóruhús við Laugaveginn svo ég notaði tækifærið til að horfa upp í glugga til að reyna að átta mig á því um hvða hús væri að ræða. Ég hef engar sönnur á að þessi saga sé rétt en eitt hús kemur augljóslega til greina. Sem ég gekk fram hjá einni búllunni ofarlega við Laugaveginn snöruðust þar út tveir menn. Annar þeirra snéri sér að mér og spurði af einlægni, eins og ekkert væri sjálfsagðara: Langar þig ekki til að eiga barn með mér? Ég svaraði því til að það væri um seinan. Þar með var það mál tekið út af dagskrá en í staðinn vildi hann fá að vita hvernig mér litist á framboð Ómars. "Hvað er hann Ómar eiginlega að hugsa?",spurði hann sinni hásu röddu. Við ræddum það mál og stöðuna í kosningabaráttunni meðan við héldum áfram upp Laugaveginn. Hinn maðurinn steinþagði. Sá ræðni sagðist búinn að gera upp sinn hug. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann væri svona hás vegna þess að hann hefði verið skorinn á háls. Nokkru ofar við Laugaveginn kölluðu tveir náungar í hann og hann hljóp yfir götuna en kom að vörmu spori með þau tíðindi að þeir hefðu verið að bjóða sér eiturlyf en hann væri hættur öllu slíku. Þar með skildu leiðir.
Já, það er sem sagt boðið upp á eiturlyf og hugsanlega vændi á Laugaveginum. Þar eru svaðalegar búllur innan um fín veitingahús. Mér finnst það verulegt umhugsunarefni fyrir borgaryfirvöld hvernig hægt er að hreinsa Laugaveginn þannig að hann verði ekki að "rauðri" götu eða einhverju þaðan af verra. Hási náunginn sem vel að merkja var bæði ræðinn og kurteis og vinir hans verða einhversstaðar að vera en hvað á saman í miðborg Reykjavíkur? Reyndar varð mér hugsað hvaða sögu þessi maður ætti. Skorinn á háls en hættur í eiturlyfjum. Ég vona að hann fyrirgefi mér þessa frásögn, frétti hann af henni, og vonandi vegnar honum vel í lífsbaráttunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.