18.4.2007 | 15:15
Launamisréttið úr sögunni 2070 eða 2633?
Það reynist vel að halda morgunverðarfundi um ákveðin málefni. Ellefu kvennasamtök boðuðu til stefnumóts við stjórnmálaflokkana í gærmorgun á Grand hótel. Þetta var fínn fundur þótt gestir hefðu mátt vera fleiri. Það kom reyndar ekki að sök því umfjöllun fjölmiðla var aldeilis ljómandi og ef skilaboðin komast út í samfélagið er tilganginum náð.
Eins og staðan er nú hafa konur að meðaltali 62% af launum karla en kynbundinn launamunur, þ.e. munur sem eingöngu verður skýrður með kyni er 15.7% samkvæmt könnun Capacent frá árinu 2006. Þessi mikli munur bæði á meðallaunum og kynbundnum launamun endurspeglar mismunandi stöðu kynjanna. Konur fá lægri laun, ákveðin ábyrgðarstörf sem konur sinna í mun ríkara mæli en karlar eru lægra metin til launa, konur vinna fremur hlutastörf en karlar af því að þær sinna fremur börnum og búi en karlar og þannig mætti áfram telja. Fram kom í erindi Lilju Mósesdóttur hagfræðings að launamunur kynjanna er meiri hér á landi en í nokkru öðru landi í Evrópu. Þær skýringar sem hún setti fram voru m.a. veik jafnréttislöggjöf, en launaleynd er til að mynda bönnuð á Norðurlöndunum. Stjórnvöld sem ættu að ganga á undan með góðu fordæmi eru ívið skárri en einkageirinn en þó er mikið um láglaunastöf kvenna innan opinbera geirans. Þetta er auðvitað óþolandi ástand og það þarf svo sannarlega að breyta hugarfarinu gagnvart störfum kvenna!
Árið 1976 var gerð launakönnun í framhaldi af kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975. Sú könnun leiddi í ljós að laun kvenna í þéttbýli voru að meðaltali 45% af launum karla. Árið 2006 var hlutur kvenna almennt kominn upp í 62% samkvæmt skattaframtölum. Ef gengið er út frá þessum tölum og áfram þokast löturhægt má búast við að jöfnuði verði náð árið 2070. Mörður Árnason þingamður benti hins vegar á að ef miðað væri við þróun mála frá 1994 (þegar stór log sambærileg aunakönnun var gerð) mætti búast við að launajafnrétti yrði komið á árið 2633. Ég veit ekki hvað á að kalla þennan hraða. Hann er minni en hraði snigilsins. Það er eins gott að bretta upp ermar og þrýsta á aðgerðir.
Lilja Mósesdóttir benti á þrjár nauðsynlegar aðgerðir. Í fyrsta lagi að lögfesta nýtt frumvarp til jafnréttislaga þar sem m.a. er kveðið á um bann við launaleynd og jafnréttisstofu veittar skýrari heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Í öðru lagi að færa laun í hefðbundnum kvennastörfum til samræmis við laun í hefðbundnum greinum karla og í þriðja lagi að sett verði töluleg markmið til að draga úr launamun kynjanna næstu fimm árin. Það er ekki síst tillaga nr. tvö sem mér finnst brýnt að ræða. Eins og Lilja benti á er launamunurinn og vanmat á störfum kvenna þjóðfélaginu til mikils tjóns. Sífelld óánægja er meðal kvennastéttanna, t.d. kennara, sjúkrliða, hjúkrunarfræðinga o.fl. Þessir hópar hafa staðið í verkföllum og uppsögnum ár eftir ár sem auðvitað kosta ekki bara þá heldur samfélagið allt bæði vandræði og fé. Það er ekki gott, t.d. fyrir menntun barna að þær konur sem annast kennslu séu sífellt óánægðar eða hverfi á braut vegna þess að þeim finnst þær og störf þeirra lítils metin. Ég fullyrði að það sé mikill og stöðugur flótti úr kvennastéttunum yfir í önnur störf. Það er verulegur skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkráliðum enda gífurlegt álag á starfsfólki heilbrigðiskerfisins og nú er enn einu sinni mikill urgur í kennurum.
Hvernig ætlar íslenskt samfélag að verða samkeppnishæft þekkingarsamfélag (sem það er ekki samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins) sem byggist á háu menntunarstigi ef grunnurinn er lélegur? Það þarf að stórbæta kjör kennara og styrkja undirstöður velferðarkerfisins í stað þess að byggja bæði menntun og velferð á illa launuðum konum. Það gengur ekki lengur. Gott velferðarkerfi er einn helsti styrkur Norðurlandanna og hins norræna módels sem hefur gert Norðurlöndin að samkeppnishæfustu ríkjum heims. Meira um það síðar en það þarf svo sannarlega að grípa til markvissra aðgerða til að bæta launakjör kvenna. Karlarnir verða bara að gjöra svo vel að sætta sig við það og sitja hjá í næstu umferð.
Athugasemdir
Frábær pistill. Mig grunar líka að Mörður hafi útreikninginn frá atvinnu- og stjórnmálahópi Femínistafélagins, en þær reiknuðu út að með sama áframhaldi tæki 628 ár að ná sömu launum fyrir sömu störf!!! Og svo er konum sagt að bíða bara þolinmmóðar
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 18.4.2007 kl. 23:37
Til hamingju með bloggið Kristín - skemmtilegir og afar þarfir pistlar. Ég fylgist með skrifunum af áhuga - tek undir með Katrínu Önnu, leggjum þolinmæðina af - hún er ávísun á þyrnirósarsvefn í önnur 600 ár eða hvað það var nú aftur
Þor (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 20:17
Mér finnst nú argasta ósvífni af tölvunni að klippa aftan af nafninu mínu - og ég sem heiti þessu virðulega nafni...
Þorgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 20:19
Mér finnst nú argasta ósvífni af tölvunni að klippa aftan af nafninu mínu - og ég sem heiti þessu virðulega nafni...
Þorgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.