25.4.2007 | 12:08
Risið upp úr flensu
Ég sé að nokkrir gestir hafa kíkt á bloggsíðuna mína undanfarna daga. Þeir hafa eflaust hugsað: hvað er þetta ætlar konan ekkert að skrifa? Skýringin á þögninni er sú að á síðast liðinn laugardag lagðist ég í flensu með hita og ógnarlegri barka- og raddbandabólgu og hef legið síðan. Ég er loks orðin hitalaus en næturnar eru erfiðar með þungum hósta. Það stendur ekki á ráðum sem kona fær liggjandi í flensu. Rommtoddý (romm í heitu vatni og helst hunangi í stað sykurs). Engifer í heitu vatni (ég er einmitt með fullt glas af þeim drykk hér á borðinu), hunang í skeiðatali og svo alls kyns jurtate. Það síðasta sem ég lærði í þessum fræðum var að vanillute væri töfralyf. Ég reyni það næst.
Það versta sem ég veit við veikindi er ef ég get ekki lesið. Að þessu sinni var það ekki raunin og því klára ég hverja bókina á fætur annarri en þær bíða ólesnar í stöflum. Sú frábæra saga Skuggi vindsins er að baki, Óafía sem ég byrjaði á um jólin en varð að leggja til hliðar er líka búin og svo las ég frábæra bók sem var að koma út, Skíðaferðina eftir Emmanuel Carrère. Þetta er ógnvænleg saga um lítinn dreng sem ég mæli eindregið með. Við vitum frá byrjun að hann bjargast og því verða raunir hans ekki óbærilegar. Fyrst ég er nú að skrifa um bækur þá er ég líka nýbúin að lesa tvær bækur eftir þann frábæra norska höfund Lars Saabye Christensen, Hermann og Módelið. Módelið er nýkomin út og er með bestu bókum sem ég hef lesið um árabil. Hermann kom út 2005. Hún er svo skemmtileg (um leið og hún er ljúfsár) að ég hló hvað eftir annað upphátt. Lars Saabye hefur skrifað mikið um drengi sem eru utanveltu á einhvern hátt eða verða fyrir áföllum. Hermann er einn af þeim. Hann lendir í veikindum og lýsir höfundurinn því frábærlega vel hvernig vonleysi og þunglyndi legst á þennan litla dreng. Í lokin er þó von. Hermann er alltaf að lenda í vandræðum og beitir öllum brögðum til að losna úr þeim, einkum frábærum tilsvörum. Hann kemur t.d. alltaf of seint í skólann af því að hann fer að glápa á eitthvað eða er að velta einhverju fyrir sér og þarf að ljúga sig út úr vandræðunum. Ég er svo rétt að byrja á Dætrum hússins eftir Michèle Roberts en hún kom út fyrir síðustu jól og er ein þeirra bóka sem tilnefnd var til þýðingaverðlaunana á dögunum. Nóg um bækur og veikindi að sinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.