Af ljóskum og jafnrétti

Í veikindunum hef ég lesið blöðin vandlega og reynt að fylgjast með kosningaumfjöllun fjölmiðlanna svona eftir því sem heilsan hefur leyft, auk þess að kíkja í póstinn minn. Á póstlista feminista hefur verið mikil umræða um ummæli Jóns Baldvins um "ljóskuna í menntamálaráðuneytinu" sem hann lét falla í Silfri Egils síðast liðinn sunnudag. Menn eiga að sjálfstögðu að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn en þessi orð endurspegla ótrúlega kvenfyrirlitningu og hroka og eru Jóni til litils sóma. Þetta er einmitt það sem Karen Ross var að vekja athygli á í fyrirlestri sínum um daginn. Það er fjallað örðu vísi um konur en karla með áherslu á útlit þeirra, einkum í þeim tilgangi að gera lítið úr þeim. Það vita allir að orðið "ljóska" er niðurlægjandi og tengt heimsku. Það á Þorgerður Katrín engan veginn skilið enda kemur útlit hennar málinu ekkert við. Mér fannst stórkvenlegt hjá Svandísi Svavarsdóttur að sýna Þorgerði samstöðu í Mogganum í morgun. Hvar sem við stöndum í stjórnmálum, þá viljum við ekki svona karlrembuummæli um konur. Við viljum réttláta og sanngjarna umræðu, takk. 

Auglýsing Íslandshreyfingarinnar vakti athygli mína í morgun en þar var verið að kynna Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking og hugmynd hennar um að gera norræna reynslu í jafnréttismálum að útflutningsvöru. Mjög athyglisverð hugmynd. Við gætum komið upp öflugri norrænni rannsóknar- og fræðslumiðstöð í jafnréttismálum sem beindi sjónum að öllum heiminum. Þótt margt megi betur fara í jafnréttismálum á Norðurlöndum þá höfum við mikla reynslu og töluverða sérstöðu hvað varðar baráttuaðferðir (t.d. kvennalistar), lög og eftirfylgni þeirra (t.d. bann við kaupum á vændi í Svíþjóð) og glímu við hraðar þjóðfélagsbreytingar sem m.a. hafa birst í breyttri stöðu kvenna. Nú síðast hefur það gerst að konur eru komnar í meirihluta í ríkisstjórn Finnlands, í fyrsta sinn í sögunni og er ástæða til að óska Finnum til haminjgju með það. Svo ætla Norðmenn að feta í fótspor Svía og banna kaup á vændi. "First we take Manhattan, then we take Berlin". Ísland skal verða næst!!!

En talandi um konur í meirihluta. Í danska sjónvarpinu er nú (á þriðjudagskvöldum) verið að sýna bresku sjónvarpsseríuna The Amazing Mrs. Pritchard (frá BBC). Þessi sería er í sex þáttum og þegar er búið að sýna tvo þætti.  Ég hef aðeins séð brot en hún virðist mjög skemmtileg. Söguþráðurinn er eftirfarandi: Frú Pritchard er framkvæmdastjóri stórmarkaðar, gift og tveggja dætra móðir. Dag einn verður hún vitni að eins konar framboðsfundi fyrir komandi þingkosningar fyrir utan miðstöðina og verður svo hneyksluð á fíflaganginum og bullinu að hún ákveður að bjóða sig fram sjálf til að sýna að hún (og reyndar hver sem er) séu betri fulltrúar þjóðarinnar en þau skrípi sem einkenni þingið. Hún fær þegar í stað rífandi undirtektir og til verður hreyfingin "Purple Alliance" (Fjólubláa bandalagið - hér má skjóta því inn að fjólublái liturinn var annar af litum bresku súffragettanna). Þar er skemmst frá að segja að Pritchard og stuðningskonur/menn hennar vinna kosningarnar og fella ríkisstjórn Tony Blair! Pritchard flytur inn í Downingstræti 10 og er kölluð á fund drottningar. Hún skipar ríkisstjórn þar sem ráðherrar(frúr) eru eingöngu konur. Fyrsta ákvörðun þeirra er að flytja þingið frá Whitehall i London út á landi til að losna undan Lundúnavaldinu og færa það nær fólkinu sem Pritchard skýrir í þrumandi ræðu. Þetta eru auðvitað talin helgispjöll og stjórnarandstaðan (sem er nær eingöngu skipuð körlum) verður alveg vitlaus. Það verður fróðlegt að sjá hvað úr verður en málin sem þarf að leysa hrannast upp á borðum ríkisstjórnarinnar nýju. Það er Sally Wainright sem er handritshöfundur en á netinu kemur fram að hún varð svo reið og leið yfir stöðu breskra stjórnmála í aðdraganda síðustu þingkosninga að hún ákvað að gera eitthvað í málinu, sýna aðra hlið á stjórnmálum og þá af sjónarhóli kvenna. Hvað er sterkara til þess en háð og grín.

Ég vona að við fáum að sjá hina frábæru frú Pritchard sem allra fyrst í íslensku sjónvarpi. Það reynir á hvort þeir sem þeim ráða vilja rétta af ískyggilegan kynjahallann í efni sjónvarpsstöðvanna.    

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæl Kristín alveg sammála þér um að ummæli Jóns Baldvins voru karlrembuleg og ekki við hæfi að fjalla þannig um stjórnmálakvenmann að kalla hana "ljósku". Eins karlrembuleg voru ummæli Önnu Jennyar Baldursdóttur um Hillary Clinton í bloggi hennar. Henni fanst sæma að kalla þann hæfa stjórnmálakvenmann "megabeib". Ósmekklegt hjá þeim báðum, verð ég að segja.

Viðar Eggertsson, 25.4.2007 kl. 13:28

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

smá leiðrétting: Konan sem kallaði stjórnmálakvenmanninn Hillary Clinton "megabeib" heiti Jenny Anna Baldursdóttir, rétt skal vera rétt :) en eftir stendur að ósmekklegt er að uppnefna á þennan hátt konur sem eru í stjórnmálum. Það er niðurlægjandi vægast sagt.

Viðar Eggertsson, 25.4.2007 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband