Sælueyjan Ísland

Mér hefur oft fundist að eitt helsta einkennið á íslenskum stjórnvöldum og kannski þjóðinni líka sé afneitun og þöggun. Hér er ekkert að. Það er engin stéttaskipting á Íslandi og engin fátækt. Til skamms tíma var vændi og kynbundið ofbeldi þagað í hel. Hafi hluti aldraðra og öryrkja átt erfitt þá er það að batna. Jafnrétti kynjanna er handan við næsta horn. ALLT er á réttri leið. Og hvaða leið er það? Jú, það er leið vaxandi kaupmáttar eins og það sé það eina sem skiptir máli í lífinu. Vissulega hefur margt batnað á Íslandi og við skulum ekki gleyma því að lífskjör eru almennt betri hér á landi en víðast hvar annars staðar enda vinna Íslendingar eins og þeir eigi lifið að leysa. Við búum við ómetanlegan frið, höfum nægt vatn og orku. Lýðræði er að mestu leyti virt og mannréttindi yfirleitt ekki brotin nema á konum og fötluðum (sennilega útlendingum líka). Það er sem sagt ekki ALLT í lagi. Hér eins og annars staðar eru hópar sem eru utanveltu, eiga erfitt eða brotið er á með einhverjum hætti. Það þýðir ekki annað en að horfast í augu við það og taka á málum. Það hefur ekki verið gert, hvað sem stjórnvöld segja og það hefur gengið mikið á þetta kjörtímabil. En minni okkar virðist afar bágborið. Það stefnir jafnvel í að enn einu sinni eigi að kjósa yfir okkur sömu ríkisstjórn. Ég hefði haldið að tími væri kominn til að gefa þeim flokkum sem hana skipa langt frí, eða eins og bróðursonur minn segir: hvað um ríkisstjórn með ZERO Framsókn? Hvað um ríkisstjórn með ZERO Sjálfstæðisflokk? Ég ætla að rifja upp nokkrar staðreyndir frá tímabilinu 2003-2007.

1. Írakstríðið. Í mars 2003, nokkrum vikum fyrir kosningar ákváðu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, án þess að bera málið undir Alþingi, að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða, þ.e. að lýsa yfir stuðningi við stríðsrekstur Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Skoðanakannanir sýndu að 80% þjóðarinnar var á móti stríði í Írak en þeir félagar létu það sem vind um eyru þjóta. Þessi ákvörðun var harðlega gagnrýnd en allt kom fyrir ekki. Ríkisstjórnin hefur enn ekki fengist til að draga stuðninginn til baka þrátt fyrir að tíminn hafi leitt í ljós hvílík hörmungarmistök innrásin í Írak var. Þar er allt í kaldakoli. Þar geisar borgarstríð eins og sagan kennir okkur að verður nánast alltaf raunin þegar samfélög eru sett á annan endann og valdakerfi steypt. Hundruð þúsunda Íraka liggja í valnum og milljónir eru á flótta. Allt var þetta fyrirséð en það var ekki hlustað. Fyrir utan að styðja þetta hræðilega stríð hefur mér alltaf þótt hvað alvarlegast að íslensk stjórnvöld skyldu taka þátt í þeirri aðför sem þessi innrás var að Sameinuðu þjóðunum. SÞ voru hunsaðar og hafa ekki borið sitt barr síðan. Ákvörðun þeirra Davíðs og Halldórs var mikið óheillaspor.

2. Jafnréttismálin. Strax eftir kosningarnar 2003 kom í ljós að hlutur kvenna hafði minnkað á Alþingi úr 36% í 31%. Þetta var mikið áfall og afturför. Á kjörtímabilinu hefur talan hækkað upp í það sem hún var áður þar sem hver karlinn á fætur öðrum hefur haldið á vit nýrra starfa sem forstjórar, bankastjórar og sendiherrar, þar á meðal þeir Davíð og Halldór sem ekki standa skil gerða sinna á þesu vori. Sagan gæti endurtekið sig vegna þess hve fáar konur skipa efstu sæti á framboðslistum. Hver könnunin á fætur annarri hefur leitt í ljós að launamunur kynjanna minnkar ekki. Kynbundinn launamunur er 15,7% samkvæmt könnun Capacent frá 2006. Stór hópur kvenna hefur skammarlega lág laun og enn einu sinni hyggja kvennastéttir á aðgerðir til að reyna að rétta hlut sinn. Þátttaka kvenna í umfjöllun fjölmiðla stendur í stað, var og er 30%. Konum fjölgar löturhægt sem stjórnendum og stjórnarmönnum stórfyrirtækja þrátt fyrir mikla menntun. Það eru ekki konur sem taka þátt í útrás víkinganna. Kynbundið ofbeldi er síst minna hér á landi en annars staðar og mikil þörf á aðgerðum. Það er loks búið að samþykkja aðgerðaáætlun en það vantar peninga og rannsóknir til að fylgja henni eftir. Það er svo sannarlega þörf á að setja jafnréttismál í forgang en það er svo langt í frá að það hafi verið gert á þessu kjörtímabili fremur en hinum fyrri.

3. Gamla fólkið. Heldri borgurum þessa lands fjölgar jafnt og þett og þeir eru hundóánægðir með kjör sín. Það hefur lengi verið skortur á úrræðum fyrir veikt gamalt fólk. Ástandið hefur samt aldrei verið verra en nú. Á þessu kjörtímabili hef ég fylgst með baráttu nokkurra vina minna við að koma fárveikum foreldrum sínum inn á hjúkrunarheimili. Það hefur gengið seint og illa enda skorturinn á slíkum heimilum yfirþyrmandi. Vinnandi fólk á afar erfitt með að taka að sér veika foreldra og það er þjóðfélaginu ekki til góðs að fólk þurfi að minnka við sig vinnu eða sífellt að taka sér frí til að geta sinnt öldruðum foreldrum. Gamla fólkið á skilið góða þjónustu. Það hefur borgað sína skatta og skyldur auk þess að ala okkur upp. Ástandið í málefnum aldraðra er til háborinnar skammar.

4. Geðfatlaðir. Siðustu daga höfum við enn einu sinni verið minnt á aðstöðuleysi barna með geðræna sjúkdóma.  Hvað er mikilvægara í þessum heimi en líðan barna? Biðlistarnir eru langir bæði vegna skorts á plássum en ekki síður vegna skorts á starfsfólki. Hvernig er hægt að halda uppi þjónustu við sjúka og aldraða ef launin verða ekki bætt. Það skortir pláss á geðdeildum, það vantar búsetuúrræði og það vantar vinnu fyrir geðfatlaða. Enn eitt málefnið sem er til skammar hjá okkur.

5. Fjölmiðlamálið. Vorið 2004 ákvað ríkisstjórnin að hefja herferð gegn samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum (svokölluðum Baugsmiðlum). Þetta var sannarlega mál sem vert var að ræða en brussugangurinn var svo mikill og svo augljóst að það átti að klekkja á Baugi að þjóðinni blöskraði. Mótmælt var í miðbæ Reykjavíkur dag eftir dag og á endanum batt forseti Ísalnds enda á málið með því að neita að undirrita lögin. Það þýddi að málið skyldi lagt fyrir þjóðina en það mátti alls ekki. Ríkisstjórnin tók ekki séns á afleiðingum þjóðaratkvæðagreiðslu og dró lögin til baka. Þarna voru á ferð fádæma vinnubrögð og yfirgangur stjórnvalda sem kjósendur ættu að minnast.

6. Samþjöppun efnahagslegs valds og Baugsmálið. Á kjörtímabilinu (og reyndar áður) hefur átt sér stað gífurleg samþjöppun efnahagslegs valds. Lítill hópur karla á nánast öll stærstu fyrirtæki landsins og til er orðinn hópur vellríkra karla sem kaupir sér íbúðir í London eða New York og fjárfestir út um allan heim. Það er von að kaupmáttur aukist! Allt er þetta hluti af alþjóðavæðingu en ég spyr hvort þessi mikla samþjöppun geti ekki orðið hættuleg. Þessi hópur getur haft mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf  með ákvörðunum sínum um að kaupa eða selja og flytja fyrirtæki úr landi (eða inn í landið) ef þeir kjósa. Ekkert hefur verið gert til að koma í veg fyrir þessa miklu samþjöppun eða draga úr henni, setja skorður. Slík lög eru meira en hundrað ára gömul í Bandaríkjunum. Þess í stað hafa verið rekin endalaus málaferli gegn einni samsteypunni - Baugi - þar sem ríkissaksóknari hefur tapað hverri orustunni á fætur annarri. Þessi málaferli lykta vægast sagt af pólitískum ofsóknum eins og margoft hefur verið bent á. Óháðir aðilar ættu að rannsaka hvernig innrásin í skrifstofur Baugs kom til og hvernig málum hefur verið stýrt. Það er hins vegar engin hætta á að slík rannsókn fari fram ef svo heldur fram sem horfir.

7. Stóriðjustefnan. Ég gæti skrifað langt mál um stjóriðjustefnuna og mun gera það síðar. Það sem ég ætla að segja hér er þetta: Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álvers og mikið hefur verið rætt um stopp í nokkur ár. Forsætisráðherra segir að ekkert muni gerast á næstu árum. Staðreyndin er hins vegar sú að undirbúningur er á fullri ferð vegna álvera í Helguvík, á Keilisnesi og Húsavík með öllum þeim afleiðingum sem þau munu hafa. Fleiri virkjanir, fleiri verksmiðjur, meiri mengun, meira land eyðilagt, hrikaleg línustæði og línur um allar trissur. Enn meira innflutt vinnuafl (sem sífellt er verið að brjóta á), spenna í hagkerfinu og kolröng áhersla í atvinnumálum. Íslendingar virðast ætla sér að vera á iðnaðarstiginu meðan Evrópa stefnir hraðbyri inn í þekkingarþjóðfélagið sem vel að merkja þýðir að hverfa frá nýtingu náttúruauðlinda til nýtingar mannauðs og þekkingar, að framleiða og selja þekkingu. Til að mynda mun þekking á lausn umhverfisvandamála verða mikil auðlind í framtíðinni. Nei, fólk utan Reykjavíkur á að vinna í verksmiðjum en við í borginni verðum í hálaunastörfunum, menntum þjóðina, stýrum fjármálunum og stjórnum landinu. Það er verið að keppast við að mennta þjóðina og er hlutfall háskólamenntaðra nú um 25% vinnuaflsins og fer ört vaxandi. Það vantar störf fyrir háskólamenntað fólk en skortir vinnuafl meðal ófaglærðra. Í álverinu í Straumsvík eru 15% starfsmanna með háskólamenntun.  Í álverunum verða ekki störf fyrir allt þetta menntaða fólk. Ég spái því að vinnuafl fyrir álverin verði meira og minna flutt inn en hvað verður um menntaða fólkið, flytur það úr landi í leit að störfum við sitt hæfi? Stóriðjustefnan er tímaskekkja.   

Ég gæti haldið áfram lengi enn, læt þó staðar numið. En - er ekki kominn tími til að tengja? Taka gamla álsamfélagið úr sambandi og setja nýja tima í samband, tíma sjálfbæra samfélagsins sem setur þekkingu og virðingu við náttúruna í forgang.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband