1.5.2007 | 17:06
1. maí um land allt
Fyrir nokkrum árum hóf ræðumaður ávarp sitt 1. maí með þessum orðum: Í dag er 1. maí um land allt. Þetta fannst mörgum fyndið en í dag má spyrja hvort það sé haldið upp á baráttudag verkalýðsins um land allt? Er frí á Kárahnjúkum? Ég heyrði ekki betur í hádeginu en að enn hefði orðið að gera hlé á vinnu þar á bæ vegna mengunar í göngunum. Svo mikið er víst að það er ekki nema hluti verslunarfóks í Reykjavík sem fær frí á þessum degi.
Ég fór í bæinn áðan þrátt fyrir að útlit væri fyrir rigningu. Hún lét sem betur fer á sér standa þannig að gangan komst þurrum fótum niður Laugaveginn. Ég sá ekki betur en að mætingin væri mun betri en í fyrra, kannski er það vegna þess að kosningar eru í nánd og mörgum finnst brýnt að minna á kröfur um jöfnuð og þörf þess að standa vörð um velferðarkerfið. Það var mikið um stjórnmálamenn í bænum, einkum frá Samfylkingu og VG. Ungt fólk úr VG hafði æft kröfukór sem lét rækilega í sér heyra rétt fyrir aftan okkur feministana sem gengum undir bleikum borðum eins og undanfarin ár. Í göngunni birtast alls konar hópar sem endurspegla pólitíska flóru í landinu. Það var verið að safna fé til styrktar Palestínumönnum, veifað var spjöldum sem á stóð: Ísland úr NATO - engan her, auk fjölmargra fána verkalýðsfélaganna. Einn verkalýðsforingjanna kvartaði yfir því fyrir nokkrum árum að alls kyns hópar væru að eyðileggja 1. maí en það er nú öðru nær, þeir gera daginn skemmtilegan og litríkan.
Ræða ASÍ foringjans var með daufara móti en Kristín Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélagsins bætti það upp með mjög kröftugri hvatningu til fundarmanna. Baggalútur steig á svið og söng m.a. karlrembulagið sem við feministar vitum ekki almennilega hvernig við eigum að túlka. Ég hef litið svo á að þau ólíkindatól sem skipa Baggalút séu að hæðast að svona karlpeningi sem lætur þjóna sér í bak og fyrir en aðrir halda því fram að þessi texti falli mörgum körlum vel í geð, svona eigi þetta að vera. Hvað um það á torginu hitti ég spákonu sem sagðist hafa fengið þá vitrun að ríkisstjórnin mynd falla í kosningunum og að Ómar kæmist að. Guð láti gott á vita.
Undir lok fundarins dreif ég mig út á kaffi París enda var mér að verða kalt þrátt fyrir 12 stiga hita. Þar var margt um manninn og margir sem ég þekkti. Ég spjallaði við frambjóðandann Ósk Vilhjálmsdóttur og Hjálmar Sveinsson, Gerði Steinþórsdóttur og Gunnar Stefánsson og loks mína gömlu vinkonu Steinunni Hafstað. Við ræddum fram og aftur um kosningarnar og bar saman um að umvherfismálunum hefði verið viskað út af umræðuborðinu og að baráttan væri fremur ófókuseruð. Hún virtist aðallega snúast um skoðanakannanir og fjölmiðlarnir væru mjög bitlausir. Nú eru 10 dagar eftir af kosningabaráttunni og enn eru margir óákveðnir. Hvernig ætli kosningarnar fari?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.