Spádómar um forseta í Frakklandi

Í gær var rætt um stöðuna í forsetakosningunum í Frakklandi á fundi í Háskóla Íslands. Torfi Tuliníus, Gerard Lemarquis og Rósa Björk Brynjólfsdóttir ræddu málin en öll hafa þau fylgst vel með gangi mála. Þarna kom marg fróðlegt fram til dæmis að Sarkozy hefði flutt mikla skammarræðu um 68 kynslóðina. Það er nú ansi seint í rassinn gripið að skamma hana núna en ástæðan er auvðitað sú að menntamenn af 68-kynslóðinni eru mjög áberandi og áhrifamiklir í Frakklandi. Þeir hafa beitt sér verulega í þágu Royal m.a. með ávarpi sem birtist í gær undirritað af 100 menntamönnum þar sem Sarkozy var sagður hættulegur loddari. Torfi ræddi þau vandamál og stöðnun sem Frakkar standa frammi fyrir og hvort þeirra Sarkozy og Royal væri líklegra til að taka á þeim. Gerard fjallaði m.a. um það hvað kyn kæmi í raun lítið við sögu í baráttunni og fræddi okkur um slúðursögurnar sem ganga manna á meðal ekki síst um ástarlíf Sarkozy, hegðun sem hann taldi að myndi ekki líðast á Íslandi. Hmmmm, ekki skal ég dæma um það. Rósa ræddi líka hvort það væri Royale til gagns að vera ekki með feminiskar áherslur, hún væri mjög í ætt við Blair í Bretlandi og hvort hún væri nógu afgerandi. Það var athyglisvert að öll spáðu þau sigri Royal, hún héldi vel á spöðunum og væri á mikilli siglingu. Hún væri líklegri til að ná sáttum um breytingar vegna tengsla við verkalýðshreyfinguna. Síðustu kannanir benda þó enn til þess að Sarkozy hafi forskot en sjáum hvað setur. Enn eru nokkrir dagar til stefnu og þau skötuhjúin eiga eftir að heyja einvígi í sjónvarpi. Enn einar spennandi kosningar á næstu dögum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Athyglisverð lesning og sérstaklega þó að þremenningarnir spá allir Royal sigri. Ætli það sé ekki fremur óskhyggja en raunsæi. Sarkozy hefur verið efstur í yfir 200 skoðanakönnunum frá áramótum. Og þrátt fyrir að Royal hafi reynt að djöfulgera hann síðustu daga hefur henni ekkert tekist að saxa á forskot  Sarkozy, miðað við skoðanakannanir.

Hér í Frakklandi ganga stjórnmálaskýrendur og sérfræðingar út frá sigri Sarko, telja afar ólíklegt að sjónvarpseinvígið annað kvöld muni breyta þar nokkru - í mesta lagi afar litlu.

Varðandi óeirðirnar 68 sagði hann þá siðferðiskreppu sem nú væri við að etja í Frakklandi, þ. á m. ofbeldi, uppreisnargirni æskufólks, bótasælni, óheftur straumur innflytjenda og forstjóraspilling, vera afleiðingu þeirrar félagslegu byltingar sem stúdentaóeirðirnar í París mörkuðu upphafið að.

Með kveðju frá Frakklandi

Ágúst Ásgeirsson, 1.5.2007 kl. 21:06

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer!

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 2.5.2007 kl. 23:48

3 Smámynd: Álfhóll

Gott kvöld ágæta baráttusystir.

Ætti að vera að vinna hálfleiðinlegt verk, svo ég fór á netheimaflakk.

Bestu kv

Guðrún

Álfhóll, 3.5.2007 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband