10.5.2007 | 11:36
Grænt eða grátt?
Nú eru aðeins tveir dagar til kosninga og línur vægast sagt óskýrar. Fellur ríkisstjórnin eða heldur hún velli. Það er greinilega möguleiki á að fella hana en einhvern veginn hefur stjórnarandstöðunni ekki tekist að undirstrika nægilega vel nauðsyn breytinga. Því geta úrslitin orðið á hvorn veginn sem er. Ég veit ekki hvort ástæðan er ótti við að loka leiðum fyrirfram með sterkum yfirlýsingum eða ómarkviss kosningabarátta.
Ég lærði á ferð minni um Bandaríkin fyrir rúmlega áratug að besta leiðin í kosningabaráttu sé að einbeita sér að fáum málum, draga fram það sem skilur á milli. Mér finnst íslenskir stjórnmálaflokkar vera með allt of mörg mál undir. Það eru atvinnumálin, samgöngumálin, stóriðjustefnan, heilbrigðismálin, velferðarkerfið o.s.frv. Hins vegar komast stórmál eins og mennta- og jafnréttismál lítt á dagskrá fjölmiðlanna þrátt fyrir þá staðreynd hve mikilvægt fylgi kvenna er. Allt eru þetta mikilvæg mál en til að ná athygli og árangri þarf að draga áhersluna saman í örfá og skýr skilaboð. Þetta var það sem Blair og félögum tóks 1997, fyrir nákvæmlega 10 árum, reyndar eftir margra ára yfirlegu. Þótt mér finnist Blairstjórnin hafa farið illa með vald sitt og komið sér í ótrúlegar ógöngur, ekki síst með Írakstríðinu, þá var leið hennar til valda allrar athygli verð.
Eftir endurtekna ósigra tók Verkamannaflokkurinn sér fjögur ár í að liggja yfir breytingum á bresku samfélagi, spurði sig grundvallarspurninga og skilgreindi leiðir til úrbóta, auk þess að velja sér nýja forystu. Eitt af því sem úttekt þeirra leiddi í ljós var breytt stéttaskipting. Fækkað hafði mikið í þeim hópum sem alla tíð höfðu myndað kjarnann í flokknum, einkum í röðum verkafólks, t.d. meðal námuverkamanna, starfsmanna bjóriðnaðarins og fleiri greina. Þess í stað hafði fjölgað mjög í röðum millistéttarfólks, þeirra sem unnu í þjónustugeiranum. Þangað var fylgi að sækja en hverjar voru þarfir þeirra hópa? Í ljós kom að hin sívaxandi millistétt hafði mestan áhuga á menntun barna sinna og nauðsynlegri þjónustu fyrir vinnandi fólk, karla sem konur. Verkamannaflokkurinn skilgreindi nokkur slík mál og lagði meginherslu á þau. Þetta kunnu ekki allir að meta og ég minnist þess að biskupinn af Kantaraborg ásakaði breska stjórnmálaflokka um að hafa gleymt hinum fátæku og þeim sem stóðu höllum fæti í þjóðfélaginu. Það sem læra má af Verkamannaflokknum er nauðsyn þess að skilgreina þarfir nútímafólks, karla, kvenna og ekki síst barna af mismunandi þjóðerni og menningu, en gleyma ekki þeim sem minnst mega sín.
Að mínum dómi ættu kosningarnar á laugardag að snúast um það hvers konar þjóðfélag við ætlum að þróa hér á landi á næstu áratugum. Grænt eða grátt. Gamaldags iðnaðar- og stóriðjusamfélag eða samfélag sem leggur áherslu á þekkingarsköpun, menningarhagkerfið, fjölbreytni og velferð fyrir alla. Það þýðir líka sjáflbært samfélag sem byggist á virðingu við náttúruna. Það þýðir líka að það er ekki og verður ekki hægt að halda áfram á sömu braut. Það er iðnaðar- og hagvaxtarstefnan, sem byggist á gegndarlausri neyslumenningu vesturlandabúa sem er aðalsökudólgurinn að baki þess umhverfisvanda sem blasir við okkur, hvar sem við búum á jörðinni. Sá vandi kallar á nýjar lausnir og breytt samfélag. Það verður að draga saman seglin, draga stórlega úr loftmengun, ef okkur á að takast að bjarga jörðinni. Það er mikil blekking að halda að hægt verði að halda áfram á sömu braut. Það þýðir miklu færri bíla, nýtt eldsneyti, stórauknar almenningssamgöngur, mun minni ferðalög, minni flutninga með hráefni (t.d. báxít fyrir íslensku álverin) og þannig mætti áfram telja. Nýjar orkulindir, verði þær til, duga ekki til. Í sjálfbæru samfélagi framtíðarinnar verður eigin matvælaframleiðsla ómetanleg.
Valið snýst því um græna samfélagið og að snúa af eyðingar- og eyðileggingarbrautinni eða gráa samfélagið með einhæfni og mengun. Við eigum ekki að taka að okkur mengunariðnaðinn sem er að flýja hækkandi orkuverð og væntanlega mengunarskatta og eyðileggja um leið íslenska náttúru. Allt tal um vistvæna orku og endurnýjanlegar orkulindir er kjaftæði. Hvernig getur það verið vistvænt að eyðileggja stór landsvæði? Hvað um eiturefnin sem dælt er upp úr jörðinni í gufuaflsstöðvunum? Hvað um loftmengunina frá þeim? Þessi vandamál hafa alls ekki verið leyst. Borholurnar tæmast á mislöngum tíma og það að dæla upp öllu þessu vatni getur valdið landsigi. Hefur það verið rannaskað hér á landi? Ég bara spyr? Hvers vegna fara fjölmiðlar ekki ofan í þessa umræðu og kanna hvað er á bak við fögru orðin? Gleymum ekki þeirri grundvallarspurningu: hvers vegna er orkan svona ódýr á Íslandi? Í þessu rándýra landi? Af hverju er ekki spurt um það? Við fáum ekki einu sinni að vita hvert verðið er en það er greinilega lægra en í flestum öðrum löndum. Hvernig stendur á því? Enn einu sinni segi ég: það verður að að skera mengunariðnaðinn stórlega niður og eins gott að horfast í augu við það.
Grænt eða grátt? Sjá http://kjosa.is.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.