10.5.2007 | 11:56
Af hverju Hjálmar?
Ég hef verið að bíða eftir skýringu á því hvers vegna Hjálmar Árnason þingmaður var ráðinn til að stýra uppbyggingu væntanlegs starfsgreinaháskóla á Keflavíkurflugvelli ásamt Runólfi Ágústssyni eða er þetta ekki örugglega sama stofnunin? Kjörtímabilið er ekki einu sinni búið en Hjálmar er kominn í vinnu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig öllum hinum þingmönnunum sem eru að hætta gengur að fá vinnu og hvort konunum gengur jafn vel og körlunum. Í það minnsta hefur enn einn karlinn verið valinn til að vinna að stofnun hins nýja skóla. Koma konur bara alls ekki til greina? Er nema von að spurt sé hvernig staðið var að þessari ráðningu.
Já, hvers vegna var Hjálmar ráðinn? Hver réði hann? Var staðan auglýst? Hefur Hjálmar prófessorsgengi? Þarf ekki manneskju með doktorspróf til að stýra skóla á háskólastigi? Sú krafa er alla vega gerð innan Háskóla Íslands. Hjálmar hefur M.Ed próf í skóalstjórnun og reyndist vel sem skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum. En gilda ekki sömu reglur um hann og aðra sem ráðnir eru til háskólastofnana? Hvaða stofnanir koma að þessari ráðningu? Ég veit ekki betur en að Háskóli Íslands sé aðili að þessu verkefni. Samþykkti hann þessa ráðningu? Eða er ég að misskilja allt þetta mál? Það væri fróðlegt að fá skýringar á þessari ráðningu sem enginn fjölmiðill hefur fjallað um svo ég viti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.