10.5.2007 | 18:02
Hvað leyfist stjórnmálamönnum?
Í Dagens Nyheter í gær var mikil umfjöllun um það uppátæki Göran Persson fyrrverandi forsætisráðherra að ráða sig í hálft starf sem ráðgjafi stórfyrirtækis. Með þessu athæfi er hann að rjúfa hefðir krata og að fara yfir línu sem hingað til hefur skilið að og verið skýr. Í Svíþjóð eru menn annað hvort verkalýðs/kratamegin eða borgaramegin.
Vangaveltur bæði krata og þeirra sérfræðinga sem blaðið leitaði til ganga út á það hvað stjórnmálamönnum leyfist. Það má ljóst vera að maður eins og Persson býr yfir mikilli þekkingu á sænsku þjóðfélagi, stjórnmálaflokkum, verkalýðshreyfingunni, innviðum stjórnkerfisins og alþjóðamálum. Hann er því mikill fengur fyrir hinn nýja vinnuveitenda sinn. En getur hann skaðað einhvern? Býr hann yfir þekkingu sem getur nýst fyrirtækinu þvert á hagsmuni ríkisins eða almennings? Það er ekki gott að segja.
Er það siðferðilega rétt að stjórnmálamenn sem hafa verið kjörnir sem fulltrúar fólksins - almannavaldsins - gangi til liðs við stórfyrirtæki? Í spurningunni felst nánast að um andstæða hagsmun i sé að ræða milli fyrirtækisins og almennings. Er Persson að svíkja þá sem trúðu honum og treystu árum saman? Er hann að gera flokki sínum óleik? Er þá enginn munur á þessum tveimur fylkingum þegar betur er að gáð? Um það snýst umræðan. Einn stjórnmálafræðinganna sem blaðið ræðir við telur að það beri að setja stjórnmálamönnum siðareglur, það megi ekki varpa skugga á stjórnmálin með þessum hætti og gera stjórnmálamenn ótrúverðuga.
Þetta er athyglisverð umræða sem ég efast um að gæti komið upp hér á landi. Hér erum við svo vön því að sumum stjórnmálamönnum (körlum ) sé "reddað" með embættum eða öðrum störfum að við spyrjum ekki einu sinni hvort þeir geti þar með verið að skaða almannahagsmuni. Það er í það minnsta vert að velta þeirri spuningu fyrir sér þótt erfitt sé að sjá í hverju hættan er falin.
Í raun held ég að aðalmálið sé brot Perssons á hefðum. Hann er að kaupa sér herragarð í stað þess að búa í blokk eins og gömlu krataleiðtogarnir sem bjuggu innan um sitt fólk. Hann ætlar nú að vera í ráðgjafastarfi við hlið þingmennskunnar, enda vantar hann pening fyrir herragarðinum, segir einn kratanna í DN. Hann er að stilla sér upp við hlið ríku borgaranna og það líkar krötum ekki. Hann er að draga úr þeim andstæðum sem sænsk stjórnmál hafa byggst á í meira en 100 ár. Fróðlegt verður að sjá hvernig kratarnir bregðast við og hvort þeir sverja Persson af sér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.