Allir töpuðu nema Sjálfstæðisflokkurinn

Þetta var nú meiri nóttin. Þegar ég fór að sofa var stjórnin fallin og ég trúði því að bilið myndi aukast stjórnarandstöðunni í vil. Þegar ég vaknaði hélt stjórnin velli. Hvað gerist nú?

Það er mín tilfinning að allir hafi tapað nema Sjálfstæðisflokkurinn. Hann stendur eftir með pálmann í höndunum og getur valið sér samstarfsaðila. Vinstri grænir voru í mikilli sókn í allan vetur en eitthvað gerðist síðustu vikurnar. Ég held að VG fólk hafi vænst mun betri útkomu og það eru mikil vonbrigði að Guðfríður Lilja skyldi ekki komast að. Það er skaði fyrir alla feminista og kvenfrelsisbaráttuna. Samfylkingunni tókst að vinna sig upp úr mikilli lægð en situr uppi með töluvert tap og tveimur færri þingmenn. Fjálslyndir halda nokkurn vegin sínu en í þeirra hópi er Jón Magnússon sem ómögulegt er að reikna út. Framboð Íslandshreyfingarinnar tókst ekki að öðru leyti en því að hún ásamt VG hélt stóriðjuumræðunni vakandi. Af því sem ég hef heyrt í morgun í fjölmiðlum er ljóst að þeim verður kennt um að hafa haldið lífi í ríkisstjórninni.

Aðaltapið felst í því að ekki tókst að fella ríkisstjórnina. Það eru vonbrigði sem kalla á djúpa greiningu á íslensku samfélagi. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig eftir 16 ár í ríkisstjórn og allt það sem á hefur gengið á kjörtímabilinu. Það er vægast sagt stórmerkilegt en ég held að skýringarnar felist í fyrsta lagi í rótgróinni hægri stefnu sem hamrað hefur verið á í áratugi, í öðru lagi í því að flokkurinn er löngu búinn að byggja upp ímynd sigurvegarans, þeirra sem fljóta ofan á, þeirra sem valdið hafa og það er mun betra að vera þeim megin í lífinu. Í þriðja lagi teygir valdakerfi hans anga sína í allar áttir, inn í skóla og verkalýðsfélög og um allt sjtórnkerfið. Fólk heldur tryggð við flokkinn og á mikið undir honum. Meira að segja Jóhannes í Bónus trúir á flokkinn eftir allt sem hann og hans fjölskylda hefur mátt þola af útsendurum kerfisins. Merkilegt.    

Það væri afar sérkennilegt ef Framsóknarflokkurinn sæti áfram í stjórn eftir að hafa fengið skýr skilaboð frá kjósendum um hið gagnstæða. Það væri óviturlegt af Sjálfstæðisflokki að halda áfram á sömu braut með samstarfsflokki í sárum og gagnrýni kjósenda á Framsókn. Það heyrðist víða undanfarnar vikur hvort fólk væri í raun að kjósa Framsókn með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er pólitískt mjög mikilvægt fyrir Samfylkinguna og einkum þó Ingibjörgu Sólrúnu að komast í stjórn en hvers konar stjórn yrði það? Það er ekki gott að segja en það er mikil þörf fyrir nýja vinda og vendi. Möguleikar VG virðast minni, þeir yrðu í stöðu lítils flokks við hlið risans og naumur meirihluti, en hver veit?

Nú er eins gott að leggja eyrun við og lesa milli línann og orðanna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband