13.5.2007 | 15:48
R-listafólk og framsóknarkonur
Ég hef verið að rýna í kosningaúrslitin og þar er margt merkilegt að skoða. Til að mynda er athyglisvert að sjá hvernig R-listafólkið úr borgarstjórninni er að skila sér inn á þing. Ingibjörg Sólrún kom inn á síðasta kjörtímabili og nú bætast þau vð Árni Þór og Steinunn Valdís. Reyndar má einnig telja Katrínu Jakobsdóttur og Álfheiði Ingadóttur til R-listafólks en báðar komu að starfi Reykjavíkurlistans um árabil.
Annað sem hefur vakið athygli mína er að í erfiðleikum Framsóknar eru það konurnar sem standa sig best. Valgerður Sverrisdóttir kemur lang best út og Siv Friðleifsdóttír komst inn að lokum og bjargaði þar með því sem bjargað varð fyrir Framsókn á höfuðborgarsvæðinu.
Enn eitt sem vekur athygli er að þótt nokkuð sé um ungt fólk sem bætist við þá er enginn sem talist getur mjög ungur og þá á ég við rétt um tvítugt. Á síðasta kjörtímabili kom inn mjög ungt fólk, ef ég man var sá yngsti 23 ára. Mér sýnist að þeir sem eru að koma nýir inn séu svona á bilinu frá þrítugu og upp í sextíu og eitthvað. Það verður fróðlegt að skoða þetta nánar þegar frekari upplýsingar eru komnar fram. Ef allt er eins og best verður á kosið á dreifing aldurs og kyns að vera sem jöfnust. Allar raddir eiga að heyrast. Ef betur er að gá sýnist mér 68-kynslóðin enn hafa tögl og hagldir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.