15.5.2007 | 21:28
Vandræði hjá frú Pritchard
Fyrir nokrum vikum skrifaði ég pistil um stjórnvarpsþættina The Amazing Mrs. Pritchard sem er verið að sýna í danska sjónvarpinu á mánudagskvöldum. Í gærkvöldi var sýndur fjórði þáttur og eru nú tveir eftir.
Sagan segir frá frú Pritchard sem blöskraði svo staða stjórnmála í Bretlandi að hún ákvað að bjóða sig fram. Á örskömmum tíma varð til stjórnmálahreyfing sem felldi stjórn Tony Blair. Myndin var gerð á síðasta ári löngu áður en ljóst var hvenær Brown tæki við af Blair. Frú Prithcard myndaði ríkisstjórn sem eingöngu konur sitja í. Í þættinum í gærkvöldi var ár liðið frá valdatökunni og margt hafði gerst. Bygging nýja þinghússins var komin í gang en ríkisstjórn kvennanna ákvað að flytja þingið frá London og spillingunni þar. Konurnar eru að takast á við ýmis mál, t.d. sprakk flugvél yfir London í þessum þætti með tilheyrandi spurningum um hryðjuverk. Í þessum þætti voru það þó einkum spilling og skandalar sem komu við sögu, mjög í anda breskra stjórnmála. Það er nefnilega ekki nóg að forsætisráðherrann sé heiðarlegur aðrir verða að vera það líka.
Málum háttar svo í ríkisstjórn frú Pritchard að utanríkisráðherrann heldur við ungan aðstoðarmann sinn, reyndar eru þau bæði á lausu en nokkur aldursmunur á þeim. Þar stefnir í fjölmiðlafár. Aðstoðarheilbrigðisráðherrann lenti úti á galeiðunni eftir að hafa fengið tilkynningu um skilnað frá eiginmanninum og var ljósmynduð í bak og fyrir í heldur óheppilegum stellingum. Fjölmiðlaskandall þar. Eiginmaður forsætisráðherrans er í vondum málum (ég missti af þriðja þætti og veit því ekki hvað það er, en glæpsamlegt er það). Undir lokin kom svo í ljós að ein helsta stuðnings- og peningakona hreyfingar frú Pritchard hefur borið fé á þingkonur Verkamannaflokksins til að fá þær til liðs við frú Pritchard. Aðstoðarkona forsætisráðherrans sem hefur ráð undir rifi hverju stendur frammi fyrir miklum vanda sem getur kostað ríkisstjórnina afsögn, rétt eftir að tekist hafði að bjarga stjórninni út úr slæmri klípu vegna reglna Evrópusambandsins sem hafði verið hleypt í meðvitunarleysi gegnum þingið.
Allt minnir þetta á þau vandamál sem stjórn Blair hefur glímt við og reyndar fyrri stjórnir. Valdið spillir sumum og það er með ólíkindum hvernig fólk, einkum karlar, sem barist hafa fyrir frama í stjórnmálum árum saman falla á framhjáhaldi, vændiskaupum og mútum. Það verður spennandi að sjá hvort frú Pritchard og liði hennar tekst að bjarga málum. Í þessum þáttum er verið að beita viðsnúningi hlutverka, setja konur í stöðu sem þær komast sjaldan í. Það verður gaman að sjá hvernig þær koma út úr stjórnmálaþátttökunni og hver boðskapurinn er þegar upp verður staðið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.