16.5.2007 | 15:29
Íhaldssamur leikhúsheimur
Ólíkt höfumst vér að. Meðan Íslendingar fækka konum á þingi, auka Svíar framlög til jafnréttismála og leggja áherslu á að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum, nú síðast í menningarheiminum. Þótt Svíar teljist mesta jafnréttisþjóð í heimi er enn mikið verk að vinna.
Þær Lena Adelsohn menntamálaráðherra og Nyamko Sabuni jafnréttisráðherra skrifuðu saman grein í Dagens Nyheter í gær þar sem þær lýstu fyrirhuguðum aðgerðum til að ráðast gegn þeirri íhaldssemi sem ríkir í sænskum leikhúsheimi. Það á að setja tæpar 60 milljónir íslenskra króna í sértækar aðgerðir.
Nýlega lagði jafnréttisnefnd sænska ríkisins fram álit um stöðuna í leikhúsunum þar sem bent er á afturhaldssöm viðhorf sem þar ráða ríkjum og að mikið sé um kynjamismunun og kynferðislegt áreiti. Konur stjórna barnaleikhúsum og setja upp barnasýningar, kalar eru í stóru leikhúsunum. Því ofar sem störður eru í kerfinu, því fleiri karlar, þótt konum hafi reyndar fjölgað. Verkefnavalinu er stjórnað af körlum. Því meiri peningar og athygli, því fleiri karlar.
Ráðuneyti mennta- og jafnréttismála eru að undirbúa aðgerðir sem lista- og jafnréttisstofnanir eiga að fylgja eftir. Þriðja hvert ár ber þeim að leggja fram úttekt á stöðu mála, fylgjast með árangri aðgerða og greina vandann. Þessar úttektir gegna þeim tilgangi annas vegar að gefa stjórnmálamönnum tæki til að fylgjast með leikhúsheiminum og hins vegar að vera aðhald að leikhúsunum sjálfum.
Milljónunum sextíu verður skipt í tvennt og fara þrjátíu milljónir til stuðnings hvetjandi jafnréttisaðgerðum innan leikhúsanna hinar þrjátíu milljónirnar eiga að fara til aðgerða samtaka innan menningargeirans. Jafnframt beina þær stöllur þeim tilmælum til kvennasamtaka og annarra sem sinna kynjajafnrétti að beina sjónum að menningarmálum, þar sé pottur brotinn.
Hvenær ætli við sjáum aðgerðir af þessu tagi á Íslandi? Jafnréttislög ná nefnilega til ALLRA.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.