16.5.2007 | 16:41
Er Reykjavík ógeðsleg?
Ingólfur Margeirsson sagnfræðingur og rithöfundur skrifaði grein í Moggann í gær sem endaði á því að Reykjavík væri beinlínis ógeðsleg borg en áður hafði hann lýst því hvað hún væri óskipulögð og skítug.
Ég get tekið undir margt í skrifum Ingólfs en finnst hann þó taka býsna stórt upp í sig. Það er rétt að Reykjavík er ein allsherjar tyggjósletta. Allar gangstéttar hvítdröfnóttar. Það er eins og borgin hafi orðið fyrir loftárás á sunnudagsmorgnum. Glerbrot og drasl út um allt, tré brotin eða rifin upp með rótum, ruslafötur rifnar niður og þannig mætti áfram telja. Veggir útkrotaðir. Hvaðan kemur þessi vandalismi? Það þarf að taka sterklega á uppeldi Íslendinga og innræta fólki virðingu við umhverfið og eignir okkar allra. Hversu stór hluti skattpeninga okkar Reykvíkinga fer í stöðugar viðgerðir og tiltekt?
Fyrir nokkrum dögum fékk ég heimsókn frá jafnréttisnefndinni í Helsinki. Þau spurðu mig m.a. hvort alkóhólismi væri mikið vandmál á Íslandi. Þau höfðu verið á rölti að kvöldlagi um miðborgina og rekist þar á nokkra illaútlítandi og öskrandi menn sem létu svo dólgslega að þau forðuðu sér. Þetta er til skammar. Ég vísa líka til pistils sem ég skrifaði fyirr nokkru um ástandið á Laugaveginum. Borgarstjórnin þarf að taka á þessu ástandi og það STRAX.
Ég vil þó bera blak af borginni okkar. Einn góðviðridaginn fyrir skömmu lá leið mín eftir Tjarnargötunni í átt að miðbænum. Á undan mér gekk hópur af Ítölum og mundaði myndavélar. Þegar þau komu að leikskólanum Tjarnarborg opnaðist útsýni yfir Tjörnina og Þingholtin milli húsa. Þau hrópuðu yfir sig enda var fegurðin engu lík. Spegilslétt vatnið, glampandi sól, skafheiður himinn, tré að springa út og gömlu húsin við Fríkirkjuveginn blöstu við í allri sinni litadýrð. Ég var verulega stolt. Þannig ætti borgin öll að vera. Okkur til sóma og ánægju.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.