Listin að þegja

Ein mikilvægasta listgrein stjórnmálanna er að kunna að þegja. Hugsa sig um tvisvar áður en orð eru látin falla og láta reiði eða sárindi ekki hlaupa með sig í gönur. Sofa á vonbrigðunum. Það hefur verið ótrúlegt að horfa upp á reynda stjórnmálamenn missa sig hvað eftir annað í vanhugsuð orð og skrif undanfarna daga. Ég er hér að vísa bæði til Vinstri-grænna og Framsóknarmanna.

Það er ekki búið að mynda nýja ríkisstjórn þó að allt bendi til að stjórn Samfylkigngar og Sjálfstæðisflokks fæðist á næstu dögum. Á meðan á viðræðum stendur eiga menn ekki að loka leiðum og setja fram samsæriskenningar, heldur bíða átekta og skoða alla möguleika. Nú síðast skrifaði Ögmundur grein í Blaðið sem er aldeilis ótímabær. Ég er viss um að bæði VG og Framsóknarmenn hafa einhver svör við þessum athugsemdum mínum en mig langar að minna á að skilaboðin sem fara út til kjósenda þessa dagana geta reynst afdrifarík.

Þegar Kvennslistinn var á hátindi vinsælda sinn 1987-1988 voru myndaðar ríkisstjórnir í tvígang. Í fyrra skiptið stóð Kvennalistinn fast á kröfu sinni um lágmarkslaun og hlaut fyrir miklar vinsældir um sinn. Í síðara skiptið snérist fjölmiðlaumræðan Kvennalistanum mjög í óhag og það varð dýrkeypt. Það var alveg sama hvað sagt var, skilaboðin voru: þær þorðu ekki, þær vildu ekki axla ábyrgð. Stjórnarþátttaka var aldrei inni í myndinni í alvöru. Það verður því fróðlegt að sjá hvaða afleiðingar þessir dagar eiga eftir að hafa, einkum fyrir VG sem fær nú miklar skammir. Mogginn hamast á Steingrími og það mátti heyra í umræðunni á RÚV í morgun að kenning hans hefur hlotið hljómgrunn.

Reyndar minnir atburðarás vikunnar mjög á það sem gerðist bæði 1991 og 1995. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hélt velli en Alþýðuflokkurinn kaus að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum undir forystu Davíðs. Þetta var vorið sem ég settist á þing. Fyrrverandi ráðherrar Alþýðubandalags og Framsóknarflokks voru stjörnuvitlausir. Þeir létu öllum illum látum á vorþinginu en eftir það sá ríkistjórnin um að kynda undir átökum með mjög umdeildum aðgerðum og niðurskurði í velferðarmálum. Þetta var á þeim árum þegar orðið kostnaðarvitund var í tísku og nú skyldi fólk borga hluta af því sem áður var greitt með sköttum okkar. Árið 1995 var samið á bak við tjöldin og ný stjórn varð til. Það hafði mikið gengið á á kjörtímabilinu. Einn ráðherra Alþýðuflokksins sagði af sér, flokkurinn raðaði pótintátum sínum á ríkisjötuna og einn ráðherrann var kenndur við fíl í postulínsbúð. Já, það gekk mikið á en Alþýðuflokksmenn voru nokkuð fljótir að jafna sig.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Samfylkingin er hvorki Alþýðuflokkurinn né Alþýðubandalagið. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr stjórnarviðræðunum en ekki lýst mér á yfirlýsingar um einfaldan stjórnarsáttmála. Það þýðir vænanlega: að því skal stefnt að þetta og hitt verði gert á kjörtímabilinu án nánari útfærslu. Að mínum dómi er þörf á aðgerðaáætlunum í mörgum málum, t.d. jafnréttismálum. Hvernig og á hve löngum tíma verður launamisréttinu útrýmt. Hversu miklir peningar verða settir í aðgerðaáætlunina gegn kynbundnu ofbeldi og hvenær? Ákvæði verði í sáttmálanum um að nýja jafnréttisfrumvarpið fari í gegn, lög verði sett um jafna skipan kynjanna í stjórnir og ráð sem gildi um allan vinnumarkaðinn og síðast en ekki síst stóraukin framlög í jafnréttismálin almennt þar með talið til Jafnréttisstofu og kynjarannsókna.

Það sama þyrfti að gera í öðrum málaflokkum, t.d. hvað varðar hjúkrunarrými og stóriðjustoppið sem verður að nást samkomulag um. Það er mikið í húfi fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu og vonandi að hún og hennar fólk gleymi sér ekki í valdadraumum. Árangurinn í þessari ríkisstjórn á eftir að skipta Samfylkinguna sköpum.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband