Glas af mjólk takk - skáldsaga um mansal

Einn þekktasti rithöfundur Noregs er skáldkonan Herbjörg Wassmo. Nokkrar bækur eftir hana voru þýddar á íslensku fyrir allnokkrum árum en ég hef ekki orðið vör við hana á bókamarkaðnum hér á landi um árabil. Hún skrifaði m.a. bókina Húsið með glersvalirnar og framhald hennar sem segir sögu ungrar stúlku sem verður fyrir kynferðislegri misnotkun og er auk þess barn þýsks hermanns. Wassmo var meðal fyrstu rithöfunda til að fjalla opinskátt um kynferðislega misnotkun á stúlkum og afleiðingar hennar enda vöktu bækur hennar mikla athygli og voru þýddar víða um heim. Nýlega var sagt frá því í fréttum að Norðmenn sem áttu þýska feður væru í málaferlum við norska ríkið vegna hrikalegrar meðferðar sem þeir sættu á barnsaldri. Sem börn voru sum hver sett á hæli og ofsótt á ýmsan hátt. Það er ótrúlegt hvernig var og er níðst á börnum. Það vorum við Íslendingar nýlega minnt rækilega á í umræðunni um Breiðuvík. Á þessu máli tók Herbjörg Wassmo á sínum tíma. Bækur hennar um Dinu nutu einnig mikilla vinsælda en ég held að þær hafi ekki veirð þýddar á íslensku. Ef ég man rétt skrifaði Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur greinar um Wassmo.

Nýlega kom út bók eftir Herbjörgu Wassmo sem hefur ekki aðeins vakið mikla athygli og fengið mjög góða dóma, heldur hrist upp í umræðunni í Noregi. Það er þegar búið að þýða hana á dönsku. Bókin heitir Glas af mjólk takk og fjallar um ungar stúlkur sem eru seldar mansali. Aðalpersónan er frá Litháen. Wassmo lagðist í mikla rannsóknarvinnu til að afla efnis og sá heimur sem hún kynntist tók svo á hana að hún varð beinlínis veik af ógeði og vanmætti. Wassmo fór í gegnum dómskjöl og fylgdist með málaferlum í Osló. Hún fékk ekki að ræða við stúlkurnar sem vitnuðu fyrir rétti og tekist hafði að bjarga, vegna þess að þær voru undir vernd yfirvalda en hún fylgdist vel með þeim.  Wassmo segir í viðtali að hún hafi orðið að minna sig á hverjum degi á að það væri aðeins hluti karlmanna sem keyptu aðgang að líkömum barna og kvenna og að það væru einnig konur sem kæmu að skipulagningu mansalsins.  

Bókin og umræðan um hana hefur þegar leitt til þess að norsk stjórnvöld hafa stóraukið aðgerðir til að draga úr mansali. Þessa bók ætla ég að panta "med det samme" en hún er nýkomin út hjá Lindhardt og Ringhof í Danmörku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SM

úff hefði bara ekki taugar í að lesa svona bók...

SM, 19.5.2007 kl. 14:17

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þakka þér fyrir ábendinguna

María Kristjánsdóttir, 19.5.2007 kl. 14:27

3 Smámynd: Þóra Kristín Þórsdóttir

Hæ hæ,

Ef þú ert enn að leita að þýðanda, þá býð ég mig fram. Ef þú hefur áhuga geturðu sent mér meil á t.k.thorsdottir@lse.ac.uk 

Þóra Kristín Þórsdóttir, 20.5.2007 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband