Fréttir af frú Pritchard

það var fjör að venju hjá frú Prithcard í kvöld. Nú voru það umhverfismálin. Eftir árangurslítinn fund G-8 ríkjanna tók frú Pritchard af skarið og lýsti því yfir að Bretar myndu grípa til sinna ráða til að draga úr koltvísýringsmengun. Án nokkurs samráðs tilkynnti hún fréttamönnum að sérhver miðvikudagur frá og með 24. júní yrði bíllaus dagur. Fjármálaráðherrann (sem er þessi sem heldur við ungan aðstoðarmann sinn, hún er ekki utanríkisráðherra eins og ég hélt) var mjög óhress með þessa ákvörðun enda búin að láta vinna fjögurra ára áætlun (mjög hægfara) um að draga þannig úr loftmengun að efnahagslífið bæri ekki skaða af. Stjórnarandstaðan tætti hugmyndina í sig og spáði mótmælum og öngþveiti. En - það varð ekki aftur snúið og ríkisstjórnin varð að standa með sínum forsætisráðherra. Ekki batnaði skap ráðherra við að uppgötva að einmitt þann 24. júní yrðu aukakosningar í einu af vígjum íhaldsmanna. Ótti greip um sig í Downingstræti 10.

En ríkisstjórn frú Pritchard hefur ráð undir rifi hverju. Dömurnar ákváðu að fjölkvenna (í strætó) til kjödæmisins á kosningadag, á bíllausa deginum og beita öllum sínum töfrum (handaböndum, brosum og að kyssa litlu börnin) til að fá kjósendur á sitt band. Viti menn, það er ekki að spyrja að samstöðu Breta. Allir sem vettlingi gátu valdið gengu, hjóluðu eða tóku strætó eða lest í vinnuna. Aðeins nokkrir hópar bíleigenda mótmæltu og voru með múður. Að kvöldi dags og eftir góðan árangur lýstu fjögur Evrópuríki því yfir að þau myndu fylgja í fótspor Breta, þvert ofan í spár stjórnarandstöðunnar. Og konurnar unnu kosningarnar.

Hins vegar gengur mikið á í einkalífinu. Fjármálaráðherran er ólétt eftir aðstoðarmanninn. Eldri dóttir frú Prichard er í vondum málum og kom nú upp um föður sinn sem reyndist hafa komið að peningaþvætti fyrir fimmtán árum. Í næsta þætti sem er hinn síðasti reynir á hjónaband frú Prichard andspænis því embætti sem hún gegnir og eflaust koma upp ný mál til að fást við. Ég bíð spennt eftir endalokunum því í þessum þáttum birtast margar hliðar stjórnmálanna. Tryggð við hugsjónir og félagana eða blaður og fláræði. Að þora eða að hika. Fljótfærni og yfirlýsingagleði eða samráð, vilji til að sætta og leita lausna. Konurnar í stjórn frú Pritchard eru að læra að samstaðan er sterkasta vopnið.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég horfði á hana einsog þú ráðlagðir og mikið skemmti ég mér vel. Þakka þér fyrir. Það þarf nú að benda sjónvarpinu á þáttinn.

María Kristjánsdóttir, 22.5.2007 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband