Ný ríkisstjórn - konur eru þriðjungur ráðherra

Það er sannarlega ástæða til að óska þeim Ingibjörgu Sólrúnu, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur til hamingju með ráðherrastólana. Loksins komast fyrrverandi kvennalistakonur í ríkisstjórn. Vonandi fylgir sá arfur þeim í þeirra störfum. Ég vænti mikils af þeim en við eigum enn eftir að sjá stjórnarsáttmálann. Ég ætla svo sannarlega að vona að þær og aðrir ráðherrar taki nú rækilega til í jafnréttismálunum, ekki veitir af. Ég segi ekkert um atvinnu- og umhverfismálin fyrr en sáttmálinn verður birtur opinberlega.

Það eru velferðarmálin og að nokkru leyti atvinnu- og samgöngumálin sem koma í hlut Samfylkingarinnar, auk utanríkismálanna. Allt eru þetta mikilvægir málaflokkar en ég hefð viljað sjá menntamálin í þeirra höndum. Þetta virðist lítil breyting í verkaskiptingu frá fyrri stjórn en auðvitað eru trygginga- og öldrunarmálin risastórir málaflokkar. En, sjáum hvað setur.  

Ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins kemur hins vegar mjög á óvart. Aðeins ein breyting og aðeins ein kona. Þetta er ekki hægt. Af hverju í ósköpunum var tækifærið ekki nýtt til að gera fleiri breytingar og fjölga konum? Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir konur í flokknum. Þarna eru innanhúsmál á ferð sem ég botna ekkert í.

Við Íslendingar erum að verða skelfilega gamaldags með þessar endalausu karlastjórnir og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem viðheldur þeim. Meira að segja Frakkar eru með hlutföllin 8:7 að vísu körlum í hag. Konur og karlar eru að sjálfsögðu jafnmörg í sænsku ríkisstjórnni og í þeirri finnsku eru fleiri konur en karlar. Hvað þurfum við að bíða lengi eftir eðlilegu og lýðræðislegu jafnrétti kynjanna hér á landi?  

Hvað um það, ný ríkisstjórn er að hefja feril sinn og það verður mjög fróðlegt að sjá hverjar áherslurnar verða og hvernig henni vegnar. Samfylkingin hefur framsóknarvítin að varast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband