Fótboltamenning

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að ég les norræn blöð nokkuð reglulega. Því fór það ekki fram hjá mér að danskir og sænskir fjölmiðlar voru í algjöru kasti í gær eftir dapurlegan endi á landsleik Svía og Dana í knattspyrnu sem endaði með að Svíum var dæmdur 3-0 sigur eftir danska kýlingu í maga Svía og árás á dómarann. Í morgun voru heilar 14 fréttir um þennan atburð í Politiken og Dagens Nyheter segir frá því að öryggisgæsla verði stórhert í leiknum milli Íslands og Svíþjóðar nú í vikunni.

Fótboltamenning er afar athyglisvert fyrirbæri. Hún er mjög karllæg en reyndar höfðar fótbolti æ meira til kvenna enda mikill uppgangur í kvennafótbolta. Á landsleikjum reynir á þjóðerniskennd og stundum á stuðningur við ákveðin lið meira skylt við trúarbrögð en íþróttaáhuga. Áhorfendur haga sér oft afar illa, geta ekki tekið tapi og nú síðast hefur það gerst trekk í trekk að leikmenn missa stjórn á skapi sínu og láta hnefana (eða höfuðið) tala með afar alvarlegum afleiðingum fyrir leikinn og liðin. Landsleikir og leikir milli meistaraliða kalla á mikla öryggisgæslu utan sem innan valla. Það liggur stundum við styrjöldum og mannslíf í hættu. Merkilegt fyrirbæri.

Daninn blindfulli sem hljóp út á völlinn framdi drottinssvik og blöðin nánast öskruðu í gær á fólk að upplýsa hver hann væri en því var haldið leyndu. Reyndar var hann ekki til frásagnar fyrr en í gærmorgun en þá mundi hann bara ekki neitt enda hafði hann drukkið 16 bjóra að eigin sögn. Svikarinn átti ekki að sleppa við afhjúpun, honum skyldi refsað. Nú er hann búinn að biðjast afsökunar en ég efast um að honum verði fyrirgefið. Svo mikil er heiftin.

Málið er auðvitað það að danska knattspyrnusambandið ber alla ábyrgð á öryggi á völlunum sem og á að bjór skuli seldur í ómældu magni meðan á leik stendur. Ein fréttanna í morgun fjallaði um endurskoðun á áfengisstefnu á knattspyrnuvöllum Danaveldis. Það er í raun sérkennilegt að bjórþamb og knattspyrna skuli svo nátengd. Endurtekin slagsmál og óeirðir eru til marks um að eitthvað meiri háttar þarf að gera til að breyta þeirri ómenningu sem farin er að einkenna fótboltaleiki um of og eyðileggja annars góða skemmtun.

Nú hefur ómenningin birst í sinni verstu mynd í leik tveggja Norðurlandaþjóða á því augnabliki þegar spennan stóð sem hæst. Hinni friðsömu ímynd Norðurlandanna er ógnað að sinni. Hvernig bregðast Svíar við í næsta leik þjóðanna? Hvað skyldu menn nú læra af þessum skandal?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband