Myndir sem skylt er að horfa á!

Ég var að horfa á fræðslumynd í sjónvarpi allra landsmanna þar sem sá snjalli David Attenborough fjallaði um hækkandi hitastig á jörðunni og áhrif þess á lífríkið eða gróðurhúsaáhrifin margumræddu. Það sem var einna athyglisverðast var að Attenborough bar saman atriði úr myndum sem hann gerði fyrir 27 árum (Life on Earth) og sýndi fram á þær breytingar sem orðið hefðu.

Einna svakalegast var að sjá kóralrifin við Ástralíu sem eru að tapa lífi og lit vegna þess að þörungarnir sem hafa búið á þeim eru að hverfa. Sýndar voru byggðir sem ýmist eru að sökkva í sjó eða sand á svæðum vaxandi eyðimarka. Leitað var til fjölda vísindamanna sem ýmist voru að rannsaka jökla og bráðnun þeirra, veðurfar, þar með talda fellibyli og áhrif þeirra eða líf hvítabjarna á norðurslóðum sem eiga mjög í vök að verjast vegna hlýnunar sjávar og bráðnunar íss. Tími birnanna til að afla fæðu hefur styst um þrjár vikur vegna þess að ísinn er forsenda veiðanna. Litlu ísbjarnarhúnarnir geta því lent í svelti. Stofninn hefur minnkað um fjórðung á 25 árum. Mengun er líka að fara illa með ísbirnina þótt það kæmi reyndar ekki fram hjá Attenborough.

Fram kom að hópur vísindamanna hefur gert reiknimódel til að bera saman eðlilegar breytingar á veðurfari í ljósi sögu jarðarinnar og svo þess sem gerst hefur undanfarin 120 ár. Breytingarnar tóku stökk upp úr 1970 og þær eru mun hraðari en með nokkru móti telst eðlilegt. Orsökin er án efa lifnaðarhættir mannsins.

Í næsta þætti fer David Attenborough nánar í ýmsa þætti gróðurhúsaáhrifanna. Það er alveg ljóst að aðalorsakavaldurinn er brennsla kolefna (kol og olía) sem er að gera "verndarhjúpinn" umhverfis jörðina æ þykkari með þeim afleiðingum að undir honum vex hitinn stöðugt.

Hvað skyldi líða langur tími þar til tekið verður á þessum vanda af alvöru og stefnan tekin á breytta lifnaðarhætti sem fela í sér að dregið verði stórkostlega úr mengun og hvers kyns eituráhrifum? Á meðan Bandaríkjaforseti og hans lið lemur haus við stein er ekki von á úrbótum. Bandaríkin eru aðalsökudólgurinn meðal ríkja heims. Það er öfugsnúið að fólk sem stöðugt er með guðsorð á vörum skuli ekki vilja verja sköpunarverkið. Sem betur fer styttist í lok valdatíðar Bush og vonandi rennur þá upp önnur öld, öld þeirra sem horfast í augu við eyðilegginguna og hefjast handa við að bjarga móður jörð og allri hennar stórkostlegu fjölbreytni.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég myndi nú segja að Kína væri orðinn einhver mesti mengunarvaldurinn í dag, án þess að ég ætli á nokkurn hátt að verja George Bush . Annars skiptir það svosem ekki höfuðmáli hver það er, staðreyndin er sú að meðan hagkerfi heimsins er keyrt áfram á olíu og jarðgösum þá er engin von til þess að það verði nokkur einasta minnkun á, frekar í hina áttina. Það eina sem hægt er að vona er að olían klárist áður en við köfnum öll....

Svo er það allt annað mál hvað á að taka við af blessaðri olíunni, það er engin raunhæf lausn til. Vetni er fráleit hugmynd nema á örfáum stöðum á jörðinni, því til þess að búa til vetni þarf rafmagn. Langstærsti hluti þess er búið til með brennslu jarðgasa. einhverjir hafa nefnt bio-diesel og jafnvel alkóhól, en til þess að framleiða einn líter af hvoru þarf nokkra lítra af olíu, fyrir utan allt það ræktarland sem færi undir slíka framleiðslu.

Megnið af matarframleiðslu mannkyns er svo háð olíu og jarðgösum (landbúnaðartæki og áburður) að búast má við hungursneyð af áður óþekktri stærðargráðu þegar ekki er lengur hægt að nota þessa mengunarvalda til þess að brauðfæða okkur.

Heimir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 06:13

2 identicon

Mér finnst merkilegt að þú sem ert Íslendingur skulir ekki setja spurningamerki við þessi loftslagsvísindi.
Hvað útskýrði hlýnun jarðar sem átti sér stað fyrir uþb. þúsund árum. Hvað útskýrði litlu Ísöldina sem náði hámarki á 17. öld?

Ég hef ekki séð neinn vísindamann koma með haldbæra skýringu á því.

Ég er farinn að hallast að því meir og meir að heimsendaspávísindin séu bara besta fallihreinræktað popp -  í  versta falli annarleg vísindatrúarbrögð, þar sem  loftslagsglæpamenn og loftslagsvinir takast á-  - þeir sem ekki trúa eru litnir illu auga þeir eru vondir menn, að hafna jarðhlýnunarkenningum af mannavöldum (hafna ekki því að jörðin sé að hlýna, en hafna því að það sé af mannavöldum), eru af sama sauðahúsi og þeir sem hafna helförinni.

Davíð Davíðsson (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:16

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Viðlitið hjá Hadley Center var það besta í myndinni. Þar sást á mjög einfaldan hátt hvernig menn ætla að hlýnað hafi af völdum manna en ekki af náttúrfarslegum orsökum en þetta hefur vafist fyrir mörgtum að skilja. Annars var myndin oft væmin og tilfinningahlaðin og ýmislegt við hana að athuga sem ég nenni samt ómögulega að fara nánar út í enda yrði bara blásið á það. En hvernig ætla menn annars að halda áfram þessum brjálæðislegu vestrænu lífsháttum en samt "bjarga heiminumm." Ekki erum við Íslendingar tilbúnir til þess.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.6.2007 kl. 17:14

4 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

David Attenborough er einstakur vísindamaður og algjör snillingur. Fréttir frá Bandaríkjunum eru því miður ekki góðar. Spár þaðan eru í dag þannig, að af Bush frágengnum taki við enn verri maður . Sá er verri og hættulegri, vegna þess að hann er greindari en George W. Bush. Þessi maður var borgarstjóri í New York, 11. sept. 2001, Rudy Guiliani af ítölskum ættum (mafíu tengsl ?!). Ég veit ekki, hvort þessi maður, sem er hetja (?) Bandaríkjamanna (ekki allra) eftir hinn örlagaríka dag, sé tengdur Costa Nostra á Sikiley blóðböndum, veikum eða sterkum, en gaurinn er gjörspilltur skrattakollur. Maður spyr sjálfan sig," en á slíkur maður nokkurn séns í konu eins og Hillary Rodham Clinton" ? Já, Rudy G. mun sigra hana með 10 % atkvæðamun ! Hann mun sigra alla þá demókrata, sem sækjast eftir því að vera í fyrsta sætinu af þeirra hálfu nema einn mann, sem er blökkumaðurinn Barack Obama !

Hvaða tækifæri hefur blökkumaður til að verða forseti Bandaríkjanna ? Ég veit það svei mér ekki. Segjum svo, að þannig fari, þá eru miklar líkur til að hann verði drepinn, jafnvel áður en hann verður settur inn í embættið. Þeir myrtu Martin Luther King og John F. Kennedy ( þótt hann væri hvítur !).

Ég ætla að hætta núna, en eins og þú sérð er bati í afstöðu bandarískra stjórn valda til umhverfismála ekki í augsýn sem stendur. Við verðum að vona, að Eyjólfur hressist.

Kveðja frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 12.6.2007 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband