Frá Vörðufelli til Vatnsdals á slóðir Bríetar

Undanfarna tvo daga gerði ég víðreist. Á miðvikudag lá leiðin austur í Biskupstungur og þótt aðeins hefði kólnað í lofti var fegurðin ólýsanleg. Fjallasýn til allra átta, nema hvað Hekla faldi topp sinn í skýjahulu. Það var þó ýmislegt sem pirraði mig á leiðinni. Línumengun Landsvirkjunar er vægast sagt óþolandi en hún blasir víða við á heiðum sem láglendi. Þá er nú umhverfi Hellisheiðarvirkjunar til lítils sóma fyrir Reykjavíkurborg. Feiknaleg rör liggja þvers og kruss um landið. Af hverju er ekki hægt að grafa þau í jörð? Mér er alveg sama hvað það kostar eða hvort þar eru einhver tæknileg vandamál á ferð. Sjónmengunin er mjög truflandi og til mikillar óprýði. Við verðum að hætta að umgangast landið með þessum hætti. Þá styttist í að Ingólfsfjalli verði mokað í burtu en sárið í fjallinu stækkar og stækkar. Hvernig stendur á því að einstaklingur getur farið svona með náttúru Íslands? Ég bara skil ekki að þetta skuli líðast.

En þegar rafmagnslínurnar miklu voru horfnar blasti fegurð sveitanna á Suðurlandi við. Það var staðarlegt að líta heim til Skálholts og víða blöstu við "bleikir akrar og slegin tún". Áfangastaðurinn var við rætur Vörðufells og þar var farangrinum komið í hús. Við stöllurnar gengum niður að Stóru-Laxá sem var hvorki stór, vatnsmikil né veiðileg enda allar ár afar vatnslitlar. Í vetur var allt á floti á þessu svæði þannig að það er nú ekki að marka þessa sólardaga. Við snæddum grillað lambafíle með bökuðum sætum kartöflum og lífrænt ræktuðu salati frá bændum í Laugarási meðan kvöldsólin skein á kyngimagnað Heklufjall og varpaði sumarbirtu yfir sveitirnar.

Um hádegi á fimmtudag þegar ég var komin í bæinn fór ég strax af stað aftur og nú norður í land á vit heimaslóða Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Enn var veður ægifagurt. Fjöll og sveitir Borgarfjarðar blöstu við í allri sinni dýrð, kjarrið grænt og safaríkt og í fjarska sáust Ok og Langjökull. Ekki tók síðra við norðan Holtavörðuheiðar. Landið var fagurt og frítt og víðsýni til allra átta þótt þar væri mun kaldara. Bílstjórinn ók á löglegum hraða og því lentum við ekki í klóm hinnar samviskusömu Blönduóslögreglu en það gerðu  Kvenréttindafélagskonur í öðrum bíl. Það borgar sig ekki að aka of hratt í nágrenni Blönduóss. Glælpurinn þýddi 22.000 kr. sekt.  

Við ókum sem leið lá fram hjá náttúruundrum Víðidalsins og beygðum loks inn í Vatnsdalinn en þar innarlega í dalnum fæddist Bríet Bjarnhéðinsdóttir fyrir 151 ári síðan eða nánara tiltekið að Haukagili þar sem foreldrar hennar voru vinnuhjú.

Í túnjaðri Haukagils hefur nú verið afhjúpaður minnisvarði um Bríeti og þar með er bærinn kominn á sögukortið. Þarna voru mættir sveitastjórnarmenn og nokkrir aðrir góðir gestir ásamt bóndanum að Haukagili og heimasætunum tveimur. Eftir stutta athöfn var drukkið kaffi að sveitasið og forvitnast um menn og málefni í sveitinni. Þar sögðu menn að ekki hefði komið deigur dropi úr lofti í tvo mánuði enda mátti sjá að sveitavegir voru rykugir, allar ár og lækir voru afar vatnslítil og laxveiði þar af leiðandi ekki hafin í rómuðum laxveiðiám Húnvetninga. Spurt var hver ætti nú að flytja okkur fréttir af laxveiðum þar nyrðra eftir að Grímur Gíslason fréttaritari RÚV hvarf til feðra sinna eftir áratuga þjónustu við landsmenn.

Eftir athöfnina að Haukagili var fjölkvennt á Blönduós til að heimsækja heimilisiðnaðarsafnið sem þar er en sú heimsókn er efni í annan pistil. Leiðin heim var svo hápúnktur ferðarinnar því veðrið var svo dásamlegt að því verður ekki með orðum lýst. Bílstjórinn komst svo að orði að hjartað fylltist stolti og ást á landinu við að horfa á alla þessa fegurð. Já, bara að við færum betur með þetta land sem við fengum í arf og eigum að skila af okkur óskemmdu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband