Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi

Meira um ferðina að Haukagili og heim aftur. Á leiðinni heim komum við Bríetarkonur við á heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi en þangað hef ég aldrei komið áður. Þar tók á móti okkur Elín á Torfalæk sem hér áður tilheyrði Torfalækjarhreppi þótt langt væri liðið á dag og hún ætti von á gestum í mat. Elín veitir safninu forstöðu og stendur sannarlega í ströngu við að halda því gangandi. Þar er skemmst frá að segja að safnið er svo sannarlega þess virði að heimsækja það. Eftir á að hyggja er þetta fremur hannyrðasafn en heimilisiðnaðarsafn því þarna er megináherslan á það sem unnið var með nál og þræði, prjónum eða í vefstólum. 

Ég er einmitt að lesa Ungfrúna góðu og húsið eftir Halldór Laxness en þar er lýsing á afburða kunnáttu ungfrú Rannveigar í hannyrðum og nefndar til sögunnar allar þær útsaumsgerðir sem hannyrðakonur fyrri ára réðu yfir allt frá kontór- og aftursting til heðibú og harðangurs. Skemmtilega dönsk nöfn á ferð. Þá var sú góða ungfrú feiknagóð í fatasaumi þess tíma með pífum, blúndum og öðru fíniríi sem við leggjum lítið upp úr nú til dags. Á safninu gefur að líta margs konar útsaum (hvítsaum) í dúkum, sængurfatnaði og undirfötum, einkum "bloomers" (hálfsíðar nærbuxur) og kotum (blúndum prýddir toppar).

Ég er sjálf af þeirri kynslóð sem fékk töluverða handavinnukennslu, bæði hjá mömmu og svo í skólanum. Ég hafði nefnilega mjög gaman af handavinnu þótt ýmislegt það sem við stelpurnar vorum látnar gera væri svo forneskjulegt að engu tali tók. Þar má nefna prjónaða þvottapoka og útsaumaða handvinnupoka. Einhvers staðar á ég þessar gersemar í fórum mínum. Þetta var áður en jafnréttisstefnan hélt innreið sínar og stelpur fóru að læra smíðar og strákar að prjóna.

Næst lá leiðin í þjóðbúningadeildina sem er afar falleg með ýmsum gerðum kvenbúninga sem sýna þá miklu kunnáttu og listfengi sem þurfti við gerð þeirra. 

Upphaf safnsins var gjöf Halldóru Bjarnadóttur heimilisiðnaðarráðunauts og ritstjóra Hlínar og því er stofa helguð henni þar sem getur að líta ýmis konar krosssaum, góbelínteppi og fleira slíkt. Halldóra varð allra kerlinga elst eða 108 ára. Ég man eftir fréttum af því þegar hún var 106 ára, þá fékk hún bréf frá Umferðarskólanum sem bauð henni á námskeið með börnunum. "Kerfið" taldi nefnilega bara upp að 100 og samkvæmt því var Halldóra sex ára.

Í öðru herbergi er að finna safn veggteppa. Í kringum Alþingishátíðina 1930 voru gefnar út teikningar af veggteppum, t.d. svokallað riddarateppi sem víða er til en gaman væri að vita hvaðan hin mynstrin sem ég hef víða séð eru komin. Þetta vita sérfræðingar í textíl- og hannyrðasögu eflaust. Ég veit að svona teppi voru til að mynda saumuð í húsmæðraskólanum á Hallormsstað í tíð Sigrúnar Blöndal skólastýru.

Ég mæli með heimsókn í heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi til að skoða listfengi kvenna og þá kvennamenningu sem þróaðist í kringum hannyrðir og heimilisprýði. Það er menning sem hefur látið mjög undan síga en hver veit hvort konur og karlar taka aftur til við að eyða tómstundum sínum í róandi og skapandi hannyrðir. Þær eru bráðskemmtilegar og afslappandi og mun betri tómstundaiðja en að glápa á innihaldslaust og hundleiðinlegt sjónvarpsefni. Um að gera að hlusta á rás1 á RÚV á meðan. Trúið mér, þótt ég sé reyndar orðin mjög löt við að sinna svo fornum kvenlegum dygðum. Kannski ég taki aftur upp nál og þráð.  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kannski rétt að benda í þessu sambandi á eftirfarandi vefgrein um þá stórmerku konu Halldóru Bjarnadóttur; þar er einnig fleiri tengla og tilvísanir á heimildir að finna.

Jón Valur Jensson, 1.7.2007 kl. 01:24

2 Smámynd: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Áttu í fórum þínum mynd af minnisvarðanum? Hana þætti mér gaman að fá að sjá.

bk

Steinunn 

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 1.7.2007 kl. 05:52

3 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Þetta er athyglisverð frásögn. Rétt er að árétta að jörðin í Vatnsdal sem kemur við sögu er Haukagil, eins og fram kemur í frásögninni, en ekki Haukadalur, eins og kemur annars staðar fram í henni. Þá er jörðin Torfalækur rétt sunnan Blönduóss ekki lengur í Torfalækjarhreppi, því við sameiningu nokkurra hreppa 1. janúar 2006 er þessi jörð í Húnavatnshreppi.

Herbert Guðmundsson, 1.7.2007 kl. 11:49

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst þetta safn eitt það flottasta á landinu enda einmitt hannyrðirnar sem heilla mig. Það eina sem ég hef við þetta að bæta er að það þarf að gefa sér býsna góðan tíma til að skoða það, það er að segja fyrir útsaumsfíkla eins og mig alla vega og hefur ekki veitt af þegar ég hef dregið gesti með mér.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.7.2007 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband