10.7.2007 | 18:47
Ekki veður til að blogga
Nei, það er sko ekki veður til að blogga. Enda sést það á blogginu mínu. Afköstin eru núll. Dagar sólar og sunds. Ég hef um annað að hugsa. Sannleikurinn er reyndar sá að ég sit í blóðspreng við að klára greinar sem ég er að skrifa og verð að skila af mér með haustinu. Ég reyni eins og ég get að sitja við en þegar sólin skín dag eftir dag er erfitt að sitja við skriftir. Ég var þó ansi dugleg í dag og er með nokkuð góða samvisku.
Dagurinn byrjaði á sundi en reyndar hafði ég þá varið dágóðum tíma í blaðalestur. Í Vesturbæjarlauginni var stór hópur heldri borgara í vatnsleikfimi og lýsti af þeim hreystin og gleðin. Í hópnum sá ég tvær gamlar rauðsokkur. Meðan ég svamlaði fram og aftur hljómuðu köll kennarans, einn, tveir, einn. tveir, vinstri snú og undir hljómaði ljúf harmonikkutónlist. Sólin braust gegnum skýin og innan skamms sást ekki skýhnoðri á himni. Þetta var sælustund en ég hugsað: hvernig ætli það verði þegar ég verð orðin gömul og fer að stunda vatnsleikfimi í Vesturbæjarlauginni. Ætli ég kalli ekki til kennarans: Áttu ekki eitthvað með Rolling Stones? Það þýðir ekkert að bjóða minni kynslóð upp á harmonikkutónlist.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.