20.7.2007 | 19:06
Hver á að gæta barnanna?
Ég var að hlusta á viðtal við Braga Guðbrandsson forstjóra Barnaverndarstofu þar sem fram kom að stjórnmálamenn hefðu ekki nægilega mikinn áhuga á málefnum barna. Það er eins og menn neiti að horfast í augu við þá staðreynd að því ver sem búið er að börnum því meira kemur það niður á framtíð þeirra og samfélaginu öllu.
Að undanförnu hafa borist fregnir af mjög ungum afbrotamönnum, drengjum sem verið er að dæma í fangelsi en verða vonandi sendir á sérheimili. Hvað býr að baki svona frétta? Hvaðan koma þessir drengir, hvað hafa þeir upplifað? Hver er saga þeirra? Ég held að við ættum að kanna það. Hvað gerir 12-15 ára drengi að afbrotamönnum? Það eru líka stelpur sem fara út á afbrotabrautina en þær eru miklu færri.
Í upphafi 20. aldar litu kvenréttindakonur svo á að erindi þeirra út í samfélagið væri ekki síst að gæta hagsmuna kvenna og barna, en í því fólst meðal annars að gæta þeirra barna sem áttu um sárt að binda vegna fátæktar, sjúkdóma eða annarra vandræða. Að þeirra dómi sinntu karlmenn þessum málum bæði seint og illa ef þeir þá gerðu það yfirleitt. Þær beittu sér fyrir réttindum óskilgetinna barna, meðlagsgreiðslum og að hætt yrði að taka börn af fátækum foreldrum og einstæðum mæðrum. Fyrstu þingkonurnar og reyndar meira og minna allar þær konur sem setið hafa á þingi hafa beitt sér fyrir réttindum og bættum kjörum barna.
Samt sem áður vaknaði sú spurning hjá mér hvort við, nútíma kvenréttindakonur, höfum sofnað á verðinum. Er það enn þá svo að ef við ekki stöndum vaktina og gætum hagsmuna barna, þá gerir það nánast enginn? Málefnum barna var komið yfir á ríki og sveitafélög eftir að kvenfélög höfðu riðið á vaðið, t.d. með byggingu leikskóla, útileikvalla, vöggustofa, heilsugæslu og annars sem börn þurftu með. Það hefur greinilega ekki gengið nógu vel að passa upp á börnin eftir að kvennahreyfingin sleppti af þeim hendi.
Reyndar hefur bæði Hringurinn og Thorvaldsenfélagið verið ómetanleg í uppbyggingu sjúkraþjónustu fyrir börn og eflaust leggja mörg kvenfélög mikið af mörkum. En þarf kvennahreyfingin ekki að taka málefni barna til umræðu og skoða út frá jafnréttissjónarmiði, mannréttindum og ekki síst hagsmunum barna? Jafnréttisþjóðfélagið verður aldrei til ef uppeldi barnanna er ekki í lagi. Það ætti að sjálfsögðu að vera á ábyrgð beggja kynja en það er eitthvað mikið að á meðan barnavernd er í ólestri. Við þurfum að ræða málefni barna af mikilli alvöru.
Athugasemdir
Ég er hjartanlega sammála þér, það er mikil þörf á því að ræða þessi málefni. Í raun ætti að koma á umræðuhópum þar sem blandaður hópur væri að fjalla um málefni barna, í þeim hópi væru ráðherrar, félagsráðgjafar, grunnskóla-, leikskóla-og framhaldsskólakennarar, foreldrar, sveitastjórnamenn/borgafulltrúar, börn/unglingar, leikskóla og grunnskólaráðgjafar ..... og svona mætti lengi telja. (Er ný búin að lesa Senge, það hefur því áhrif á allt sem ég hugsa )
Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 13:50
Sendi þér bros og hlátur inn í daginn, eigðu góðan dag.
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 21.7.2007 kl. 15:49
Alveg sammála - góð hugvekja.
Með kærri kveðju að norðan
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.7.2007 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.