29.7.2007 | 22:23
Spennandi norrænt spennuefni
Á sumrin er ágætt að sökkva sér niður í GÓÐAR spennumyndir og krimma í bókum og sjónvarpi. Það mætti halda af pistlum mínum að ég sitji löngum stundum yfir sjónvarpi en það er alls ekki svo. Ég vil bara fá að sjá eitthvað almennilegt þá sjaldan að ég sest við skjáinn. Og þá eru það norrænu stöðvarnar sem eru mín huggun.
Í vetur voru sýndar nýjar framhaldsspennumyndir bæði í sænska og danska sjónvarpinu sem nutu mikilla vinsælda enda þrælspennandi. Þær eru nú að ganga á milli norrænu stöðvana. Nema auðvitað á Íslandi. Annars vegar er það danska myndin Afbrotið (Forbrydelsen) en nú er verið að auglýsa næsta hluta hennar sem hefst í september í danska sjónvarpinu. Hins vegar er mynd um sænsku lögreglukonuna Höök sem var sýnd í vetur í sænska sjónvarpinu og er nú í því danska.
Þegar ég var á ferð í Umeå í byrjun sumars las ég pistil í einu heimablaðanna um kvikmyndaiðnaðinn sem nú blómstrar í borginni Luleå sem er mjög norðarlega við Nordbotten í Svíþjóð. Hún er á svæði Sama en byggðin er orðin mjög blönduð eins og annars staðar. Í Luleå er stórt kvikmyndaver og þar hafa verið framleiddar margar frábærar myndir undanfarin ár, t.d. þessi um lögreglukonuna Höök. Í greininni sem ég las höfðu menn nokkrar áhyggjur af því að verið væri að draga upp mynd af heldur þunglyndum og brotlegum íbúum norðurhéraðanna en hvað sem því líður þá á sér stað mikil og spennandi sköpun í kvikmyndaborginni Luleå.
Nú er það spurningin hvenær fáum við hér á ísaköldu landi að sjá þessar myndir frá samfélögum sem eru svo miklu skyldari okkur en stórborgir USA með allt sitt ofbeldi? Það er huggun harmi gegn að átta sig á því að það er ýmislegt sem sameinar okkur hér á norðurslóðum.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér. Ég hef aðeins aðgang að RUV og Skjáeinum er reyndar hætt að horfa á Skjáeinn. RUV hefur oft verið með góðar myndir á sunnudagskvöldum en mér finnst þær sýndar of seint á kvöldin þegar maður þarf að vakna snemma morgunin eftir (það gerir aldurinn). Ég skil ekki afhverju ekki er hægt að sýna þær myndir á föstudags- eða laugardagskvöldum.
Þóra Sigurðardóttir, 30.7.2007 kl. 00:30
Undirrituð hefur nú um alllangt skeið farið reglulega inn á vef DR til að skoða dagskrána og annað það, sem þar er boðið upp á. Þegar hún hefur séð nýja þætti í sjónvarpinu, þá hefur hún skrifað til erlendrar dagskrárdeildar sjónvarps allra landsmanna og vakið athygli á þeim og fengið þakkir fyrir hjá starfsmönnum. Hér má upplýsa, að henni hafi verið tjáð, að Forbrydelsen verði á dagskrá í haustdagskrá sjónvarpsins, svo að Kristín og allir áhugamenn um norrænt sjónvarpsefni geta farið að hlakka til.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 07:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.