25.9.2007 | 19:48
Loksins, loksins
Það verður ekki á einkavæðinguna logið. Það er búið að taka mig meira en hálfan mánuð að fá nettengingu hjá fyrrum almannaeigninni Símanum. Númerið var skráð vitlaust og mér var sagt að hringja á vinnutíma til að takast mætti að fylgja beiðninni eftir. En loksins hitti ég ákveðna og hjálpsama stúlku sem gekk í málið. Ég legg til að Brynjólfur Bjarnason hækki hana í tign en kanni annars hvernig þjónustu símans er varið. Það skyldi þó ekki vera að sparnaður sé í gangi og of mikið álag á starfsfólki?
Hvað um það, nú þarf ég að vinna upp langt blogghlé og spurning hvar ég á að byrja. Ætli sé ekki best að byrja á fréttum af sjálfri mér. Eins og ég sagði í mínum síðasta pistli sem ég skrifaði til að gefa frá mér lífsmark þá flutti ég norður til Akureyrar um mánaðarmótin ágúst-september og hér hef ég búið síðan í gulu blokkinni með útsýni yfir til Vaðlaheiðarinnar. Mjög fallegt. Ég stóð í þeirri trú að veðrið væri eiginlega alltaf gott á Akureyri en það hafa komið dagar mikillar rigningar, slyddu og roks. Það er sem sagt ofsögum sagt að hér sé alltaf gott veður en vissulega koma dásamlegir dagar, eins og til dæmis í dag þegar sólin skein og loftið var undurtært en skítkalt.
Minn vinnustaður Jafnréttisstofa er til húsa í nýbygginu Háskólans á Akureyri þar sem er að finna margar rannsóknarstofnanir. Það er gott að vera í návígi við skólann og háskólasamfélagið. Það er alltaf líf og fjör í kringum skóla en ég á eftir að sjá betur hvernig við getum nýtt það í þágu jafnréttismálanna. Það var haldið upp á 20 ára afmæli skólans um daginn með pomp og prakt og þá hitti ég fjölda fólks af svæðinu sem er að fást við allt milli himins og jarðar. Það er meira að segja sagnfræðingafélag í bænum sem ég á eftir að ganga í. Ég er yfirleitt komin á kaf í félagstörf áður en við er litið en nú ætla ég að passa mig. Ég ætla að stunda lestur og fræðistörf í frístundunum og nýta mér þá frábæru náttúru sem hér er að finna.
Ég er þegar búin að taka upp nýja lifnaðarhætti (eða að endurnýja þá) því nú geng ég til vinnu minnar á hverjum morgni, hálftíma göngu og oftast síðdegis líka. Ég verð komin í fínt form eftir nokkrar vikur, ekki veitir af.
Það er mikið framundan hjá mér. Fundir í Reykjavík á morgun og á föstudag og síðan liggur leiðin af landi brott í næstu viku til fundar við Evrópusambandið og Evrópuráðið. Það er gott að fá tækifæri til að setja mig inn í stöðu mála í Evrópu svona í byrjun. Ég skrifa fréttir af þeim fundum síðar meir.
Athugasemdir
Við ættum kannski að afeinkavæða og koma málum í þau horf eins og þau voru á gullaldartímum Ríkisreksturs.
Ég gleymi því ekki hvað það var spennandi að sækja smákónganna hjá Ríkinu og ýmsa starfsmenn Ríkisins sem höfðu fullt frelsi til að þróa með sér önuglyndi og ókurteisi að eigin vali.
Stundum lenti maður á þjónustulunduðum Ríkisstarfsmanni, þá var maður nú glaður og þakklátur í marga daga á eftir og talaði sko um það enda í frásögur færandi.
Annars minnir þessi saga af lélegri þjónustu Símans á stýrimanninn sem oftast fullur en skipstjórinn sem var að vonum ekki ánægður með sinn stýrimann skrifaði í skipsdagbókina að stýrimaður hafi mætt drukkin á hundavaktina. Stýrimaður sá sér leik á borði og skrifaði í sömu bók daginn eftir að skipstjóri hafi verið EKKI verið drukkinn.
Benedikt Halldórsson, 25.9.2007 kl. 21:10
sæl Kristín
Held að þetta fylgi nú ekki hver á fyrirtækið og ekki er alltaf betra þótt fyrirtækin séu í almenningseign, hér í noregi gefur t.d telenor sé 8 vikur til að virkja internettengingu, svo framarlega að engin vandamál séu í hverfinu þínu. Sé einhvert vandamál, t.d skortur á línum eða á portum í símstöð, þá er farið að tala um mánuði, hjá einum félaga mínum hér tók þetta 9 mánuði, það vantaði línur í hverfið hans. Svona er þetta nú hjá ríkisfyrtækinu telenor :)
Anton Þór Harðarson, 26.9.2007 kl. 11:33
Velkomin norður Kristín. Smæðin gerir það að verkum að það nægir að segja leigubílstjóra að aka í "gulu blokkina". Reyndar eru til tvær aðrar blokkir sem þekktar eru af litum sínum: -Sægræna blokkin og bleika blokkin.- Nú færðu það verkefni að finna þær á göngu þinni! Veit svo að þú gengur rösklega um vegi jafnréttis og ryður því úr vegi sem þar á ekki heima. kv. gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 11:50
Fyrst um blokk. Til hamingju með að vera flutt til Akureyrar. Þú ert sem sagt flutt í "gulu blokkina" . Er Akureyri virkilega svona lítill bær að allir vita hvar gula blokkin er. Þegar ég flutti til Seyðisfjarðar flutti ég einmitt í blokk líka. Það var "Nýja Blokkin". Allir vissu hver hún var. Dásamlegt.
Svo um blogg. Ég var líka að flytja um daginn og það tók þá félaga Póst og Síma 12 daga að koma nettengingunni milli húsa. Ég spurði þá hvort þeir væru búnir að reikna afslátt á þjónustu sem ég fengi ekki, fyrir þennan tíma, en það kom ekkert svar við því. Þeir félagar eru þöglir sem gröfin um það. Mér finnst oft að viðmót Símans sé orðið nú eins og viðmót sem ríkisstofnun sýnir þegar verst lætur. Kannski er ég ósanngjarn?
Jón Halldór Guðmundsson, 26.9.2007 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.