4.6.2007 | 15:17
Oft er fjör í Eyjum, þegar fiskast þar
Það fer hrollur um þá sem alist hafa upp í sjávarplássum við að heyra tillögur Hafró um æskilegar veiðar á þorski á næsta fiskveiðiári. Verði farið eftir þeim þýða þær mikinn niðurskurð. En hvað er til ráða? Staða fiskistofna við Íslandsstrendur er greinilega afar viðkvæm hvort sem því valda ofveiðar eða breytingar í náttúrunni nema hvort tveggja sé.
Fyrir nokkrum dögum var sýnd heimildamynd í sjónvarpi allra landsmanna þar sem staða Íslands og Nýfundnalands var borin saman. Þorskstofninn við Nýfundnaland hrundi algjörlega eftir gengdarlausa ofveiði og eyjaskeggjar sáu sér ekki annað fært en að leita á náðir Kanadastjórnar sér til bjargar. Myndin gekk reyndar út á efasemdir um að það skref hefði verið rétt.
Þótt verulega hafi dregið úr þýðingu sjávarafla fyrir efnahagslífið hér á landi skapa fiskveiðar enn mikinn auð og ég trúi því að hann eigi eftir að aukast til muna ef okkur tekst að stunda sjálfbærar veiðar og leggjum miklu meiri áherslu á fiskeldi. Fiskur er afar mikilvæg uppspretta próteins og eins og við vitum er fátt hollara og betra en fiskur. Það getur því haft veruleg áhrif á framtíð okkar hvernig tekst að vinna úr vanda sjávarútvegsins.
Minn gamli heimabær Vestmannaeyjar fer ekki varhluta af vandræðunum. Það er slegist um fiskveiðikvótann og öflugustu fyrirtækin í landinu reyna að komast yfir sem mest meðan plássin reyna að verjast. Staður eins og Vestmannaeyjar er mjög háður sjávarútvegi en það er um leið vandi bæjarins, því fólk flýr einhæfni og vill fjölbreytni. Það er því brýnt að leita fleiri leiða sem bæði tengjast matvælaframleiðslu en einnig öðru eins og þekkingariðnaði og ferðamennsku þar sem möguleikarnir væru ómældir ef samgöngur væru betri. Þar með er ég ekki að mæla með neðansjávargöngum. Mér finnst þau heldur varasöm á þessu virka gosbelti.
En það er því miður ekki bara úr sjávarútvegi sem berast vondar fréttir frá hinni fögru Heimaey. Kvennahandboltinn sem hélt uppi heiðri íþróttastarfs í Eyjum um árabil er í andaslitrunum og sama máli gegnir um kvennafótboltann. Karlaliðið í fótbolta má muna fífil sinn fegri og keppir nú í 1. deild. Allt hefur þetta áhrif á andrúmsloftið og lífsgæðin. Ef unga fólkið fer, þá er ekki von á góðu. Hvað á að gera? Þar sem við slíkan vanda er að ræða er svarið: menntun og meiri menntun sem skapar fjölbreytt störf. Unga fólkið sem menntar sig verður að geta snúið til baka. Það gat mín kynslóð ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 13:38
Fótboltamenning
Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að ég les norræn blöð nokkuð reglulega. Því fór það ekki fram hjá mér að danskir og sænskir fjölmiðlar voru í algjöru kasti í gær eftir dapurlegan endi á landsleik Svía og Dana í knattspyrnu sem endaði með að Svíum var dæmdur 3-0 sigur eftir danska kýlingu í maga Svía og árás á dómarann. Í morgun voru heilar 14 fréttir um þennan atburð í Politiken og Dagens Nyheter segir frá því að öryggisgæsla verði stórhert í leiknum milli Íslands og Svíþjóðar nú í vikunni.
Fótboltamenning er afar athyglisvert fyrirbæri. Hún er mjög karllæg en reyndar höfðar fótbolti æ meira til kvenna enda mikill uppgangur í kvennafótbolta. Á landsleikjum reynir á þjóðerniskennd og stundum á stuðningur við ákveðin lið meira skylt við trúarbrögð en íþróttaáhuga. Áhorfendur haga sér oft afar illa, geta ekki tekið tapi og nú síðast hefur það gerst trekk í trekk að leikmenn missa stjórn á skapi sínu og láta hnefana (eða höfuðið) tala með afar alvarlegum afleiðingum fyrir leikinn og liðin. Landsleikir og leikir milli meistaraliða kalla á mikla öryggisgæslu utan sem innan valla. Það liggur stundum við styrjöldum og mannslíf í hættu. Merkilegt fyrirbæri.
Daninn blindfulli sem hljóp út á völlinn framdi drottinssvik og blöðin nánast öskruðu í gær á fólk að upplýsa hver hann væri en því var haldið leyndu. Reyndar var hann ekki til frásagnar fyrr en í gærmorgun en þá mundi hann bara ekki neitt enda hafði hann drukkið 16 bjóra að eigin sögn. Svikarinn átti ekki að sleppa við afhjúpun, honum skyldi refsað. Nú er hann búinn að biðjast afsökunar en ég efast um að honum verði fyrirgefið. Svo mikil er heiftin.
Málið er auðvitað það að danska knattspyrnusambandið ber alla ábyrgð á öryggi á völlunum sem og á að bjór skuli seldur í ómældu magni meðan á leik stendur. Ein fréttanna í morgun fjallaði um endurskoðun á áfengisstefnu á knattspyrnuvöllum Danaveldis. Það er í raun sérkennilegt að bjórþamb og knattspyrna skuli svo nátengd. Endurtekin slagsmál og óeirðir eru til marks um að eitthvað meiri háttar þarf að gera til að breyta þeirri ómenningu sem farin er að einkenna fótboltaleiki um of og eyðileggja annars góða skemmtun.
Nú hefur ómenningin birst í sinni verstu mynd í leik tveggja Norðurlandaþjóða á því augnabliki þegar spennan stóð sem hæst. Hinni friðsömu ímynd Norðurlandanna er ógnað að sinni. Hvernig bregðast Svíar við í næsta leik þjóðanna? Hvað skyldu menn nú læra af þessum skandal?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 13:02
Kvennaklósettið 30 ára
Ég rakst á frétt um að búið væri að gefa bókina Kvennaklósettið eftir Marilyn French út að nýju. Hún kom út fyrir nákvæmlega 30 árum í Bandaríkjunum og þremur árum síðar hér á landi. Kvennaklósettið fór sem eldur yfir akur um heiminn og vakti mikla athygli. Í bókinni segir Marilyn French sögu giftrar konu í úthverfi sem brýst út úr hefðbundnu kvenhluverki og leitar eigin leiða. Bókin var mjög í samræmi við þá kenningu Betty Friedan að konur væru að sóa lífi sínu til lítils og samfélagið að verða af miklum mannauði með því að leggja ofuráherslu á hlutverk kvenna sem mæður og húsmæður. Marilyn French segir sögu kvenna sem tóku Friedan á orðinu og gerðust þátttakendur í kvennabyltingunni.
Síðan eru liðin 30 ár og það væri gaman að draga nú þessa bók upp úr pússinu og kanna hvernig hún hefur staðist tímans tönn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2007 | 20:35
25 ára afmæli kvennaathvarfsins
Tíminn hann er fugl sem flýgur hratt. Að hugsa sér að 25 ár séu liðin frá stofnun Samtaka um kvennaathvarf. Það var haldið upp á það í dag með ljómandi góðri samkomu í Iðnó þar sem blandað var saman stuttum ræðum og söng.
Ég rifjaði upp í mínu ávarpi að það voru ekki síst umræður á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 1980 sem vöktu athygli okkar hér á landi á umfangi kynbundins ofbeldis. Ég sé í stefnuskrá Kvennaframboðsins í Reykjavík sem einmitt bauð fram vorið 1982 að þá hafði verið gerð könnun sem benti til þess að ofbeldi gegn konum væri verulegt vandamál. Því hófst umræða um nauðsyn þess að koma upp athvarfi fyrir konur þar sem þeim yrði veitt skjól og ráðgjöf.
Síðan eru liðin 25 ár en ofbeldið hefur ekki minnkað nema síður sé. Gistinóttum kvenna og barna fjölgar í athvarfinu og í máli framkvæmdastýru athvarfsins í fréttum RÚV í kvöld kom fram að ofbeldið væri að verða grófara.
Á þessum 25 árum höfum við öðlast mikla þekkingu á eðli og umfangi kynbundins ofbeldis. Þegar kvennaathvarfið var stofnað var t.d. ekkert farið að tala um kynferðislega misnotkun á börnum. Sú umræða kom upp síðar. Já, þekkingin hefur aukist og aðgerðir hafa verið samþykktar til að draga úr ofbeldinu en að mörgu leyti hefur þróunin gengið í þveröfuga átt. Klámvæðing, vændi og mansal er stundað sem aldrei fyrr. Alþjóðlegir samningar hafa verið gerðir til að draga úr kynbundnu ofbeldi, það hefur verið skilgreint í lögum og aðgerðaáætlanir samdar, t.d. hér á landi en samt benda rannsóknir til þess að ofbeldið sé að aukast. Fyrir nokkrum árum tókst að koma því inn í alþjóðalög að kynbundið ofbeldi eins og nauðganir á átakasvæðum teldust til stríðsglæpa en þar með var hægt að ákæra karla fyrir skipulagðar nauðganir sem iðulega hafa átt sér stað í styrjöldum. Ekkert bendir þó til að það dragi úr nauðgunum á átaksvæðum sbr. ástandið í Sómalíu.
Kynbundið ofbeldi á sér mun dýpri rætur en svo að hægt sé að rífa þær upp á nokkrum árum með lögum og aðgerðaáætlunum. Það þarf miklu meira til.
Í fyrra hlustaði ég á feministann Judith Butler sem benti á hvernig kynferðislegri niðurlægingu væri beitt í sífellt meira mæli til að niðurlægja "óvininn". Vísaði hún m.a. til þeirrar meðferðar sem fangar í Abu Graib fangelsinu í Bagdad höfðu mátt sæta og mikið var fjallað um í fjölmiðlum á sínum tíma. Þar komu konur því miður líka að málum við að niðurlægja fanga kynferðislega. Kynbundið ofbeldi er því farð að beinast að körlum líka, sem nýtt "stríðsvopn". Judith Butler kallaði eftir bandalögum feminista og annarra til að vinna saman gegn vaxandi mannfyrirltningu og valdníðslu.
Þekking á kynbundnu ofbeldi og afleiðingum þess hefur margar hliðar og augljóst að fangaverðir hafa lært mikið af klámmyndunum sem tröllríða fjölmiðlum. Þær ganga að mjög miklu leyti út á að hlutgera og niðurlægja konur, konur þjóna, karlar "njóta".
Það hefur aldrei verið brýnna en nú að sameinast gegn kynbundnu ofbeldi í öllum þess myndum, þar með talið klám, vændi og mansal. Allt hangir þetta saman. Skilningsleysi og kvenfyrirlitning eru svo gegnumgangandi að samfélag okkar lætur ofbeldi gegn konum líðast, sbr. dóm eftir dóm sem sýna að ofbeldi gegn konum þykir mun léttvægari glæpur en t.d. þjófnaður eða eiturlyfjasmygl.
Hvað segir það um samfélag okkar ef bæjarstjóri eins stærsta sveitafélags utan Reykjavíkur kemst upp með að heimsækja alræmdan súlustað, hvaða "þjónustu" sem hann kaupir þar. Hvar eru kröfurnar um að hann segi af sér fyrir að heimsækja stað sem grunaður er um að vera með konur í þjónustu sinni sem seldar hafa veirð mansali? Mansal er hluti af því ofbeldi sem konur eru beittar viða um heim. Mál hans verður prófsteinn á vilja samfélagsins til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.
Bloggar | Breytt 4.6.2007 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)