10.6.2007 | 18:09
Clinton hinn kvensami
Ég skellti mér í sund áðan í góða veðrinu. Á heimleiðinni hitti ég vinkonu mína sem var að koma frá Vínarborg. Þar bar helst til tíðinda að tveir tignargestir voru í heimsókn og settu mark sitt á mannlífið í borginni með öryggisgæslu og fjölmiðlafári. Annar var Pútín forseti Rússlands og var öryggisgæslan aðallega vegna hans. Hinn var Bill Clinton sem kominn var til Vínar til að afla fjár í þágu baráttunnar gegn alnæmi í Afríku.
Fjáröflunarsamkoma var haldin við höllina Schönbrunn sem var aðsetur keisaranna í Austurísk-Ungverska keisaradæminu þar til þeim síðasta var kurteislega sagt að hypja sig 1918. Clinton til halds og trausts var leikkonan Sharon Stone sem óneitanlega er afar glæsileg kona. Fjölmiðlum fannst þau skötuhjúin brosa ískyggilega mikið hvort til annars en eins og þeir minnast sem muna eftir valdatíð Clintons þá lék kvensemi forsetans fyrrverandi hann grátt.
Fjölmiðlar hundeltu Clinton og Stone og mynduðu í bak og fyrir. Forsíður voru undirlagar af fréttum af þeim með getgátusniði. Nú er bara að vona að Clinton hagi sér almennilega og fari ekki að eyðileggja fyrir Hillary konu sinni. Nýtt framhjáhalds- eða kynlífshneyksli gæti orðið henni dýrkeypt í þeirri baráttu sem framundan er um tilnefningu sem forsetaframbjóðandi fyrir hönd demókrata.
Hillary á þegar á brattann að sækja en ég er sannfærð um að fengur yrði að henni sem forseta, hún heldur fram allt öðrum gildum en bókstafstrúarliðið sem nú býr í Hvíta húsinu. En hún kemst aldrei þangað ef Bill lætur kvensemina stjórna sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2007 | 15:50
Blair tættur í sundur
Jón Baldvin Hannibalsson eðalkrati skrifar athyglisverða grein í Moggann í dag þar sem hann rífur Tony Blair og stefnu hans í sig. Blair skrifaði nýlega grein í The Economist um þá lærdóma sem hann dregur af tíu ára valdaferli sínum. Hann hefur einkum lært það að hægri mönnum sé best treystandi fyrir verndun lýðræðisins (með hervaldi) og vinstri mönnum fyrir velferðinni.
Þessa niðurstöðu telur Jón Baldvin fráleita og er svo sannarlega hægt að taka undir það eins og ótal dæmi sanna. Í stað þess að standa vörð um frið og lýðræði og fara sáttaleiðir er búið að setja heiminn á annan endann á nokkrum árum og skapa nýjar hættur sem heimurinn á eftir að glíma við í áratugi.
Jóni Baldvin verður sérstaklega tíðrætt um fylgispekt Blair við Bush og stjórn hans og þær hrikalegu afleiðingar sem Írakstríðið hefur og mun hafa í Mið-Austurlöndum. Þá ræðir hann líka um aumingjalegar tilraunir Blair til að koma Palestínumönnum til varnar en Bandaríkjamenn hafa ekki hlustað á hann heldur styðja Ísraelsstjórn og halda ríkinu uppi hvað sem þeir brjóta af sér. Það þarf nú vart að minna á hvernig Bandaríkjastjórn brýtur mannréttindi á föngum og má í því sambandi minna á dóm sem féll vegna Kanadamanns sem var handtekinn 15 ára gamall í Afganistan og hefur verið í haldi síðan án dóms og laga. Réttindi barna eru ekki einu sinni virt!
Niðurstaða Jóns er sú að Blair hafi dregið Verkamannaflokinn niður í svaðið en í því sambandi má minna á að þrátt fyrir mikla andstöðu innan flokksins hefur Blair haft meirihlutann með sér. Það kemur flokknum nú í koll.
Ég furðaði mig mjög á því í aðdraganda Íraksstríðsins hvers vegna Bretar voru að láta draga sig út í Íraksfenið en bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Píslarvottar nútímans skýrði málið að nokkru. Írak er smíði Breta og þeir áttu og eiga enn mikilla hagsmuna að gæta á þeim slóðum. Bretar eru líka í olíuiðnaðinum og halda greinilega enn að þeir geti vaðið um heiminn með her sinn þótt það sé reyndar í skjóli USA.
Það verður mikið verk fyrir arftaka Blair að hreinsa upp skítinn eftir hann, takist það yfirleitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2007 | 15:29
Frábær kvikmynd
Loksins lét ég af því verða í gær að drífa mig í bíó til að sjá þýsku myndina Líf annarra. Og þvílík mynd! Mig dreymdi Stasi í nótt.
Myndin lýsir ástandinu í Austur-Þýskalandi um miðjan níunda áratug síðustu aldar rétt áður en Gorbasjof koms til valda í Sovétríkjunum en austurblokkin hrundi eins og hún lagði sig nokkrum árum síðar.
Litli en færi Stasimaðurinn fær það verkefni að fylgjast með pari, leikskáldi og leikkonu, ekki af því að þau séu grunuð um andóf gegn sæluríki sósíalismans heldur er ráðamaður að misnota vald sitt. Það á að finna eitthvað á leikskáldið. Í stuttu máli sagt gerist það sem ekki á að gerast, eftir því sem Stasimaðurinn kemst betur inn í líf listamannanna vaknar samúð hans, þau lifa því lífi sem hann á ekki kost á. Til þess að eyðileggja nú ekki myndina fyrir þeim sem þetta lesa og eiga eftir að sjá hana, segi ég ekki meira. Það er mjög margt sem kemur fram í myndinni um samfélagið, vald og valdaleysi, ástir og svik og hvernig gott fólk getur látið til sín taka.
Þarna er valinn leikari í hverju rúmi. Sebastian Koch leikur rithöfundinn en hann sást nýlega í ríkissjónvarpinu í hlutverki arkitektsins Albert Speer. Fyrir nokkrum árum var hann margverðlaunaður fyrir leik sinn í sjónvarpsmyndunum um Mannfjölskylduna (Klaus Mann) og hann var líka verðlaunaður fyrir mynd um von Stauffenberg, þann sem stýrði tilraun til að myrða Adolf Hitler 1944. Martina Gedeck leikur leikkonuna en hún er ein virtasta kvikmyndaleikkona Þýskalands þótt ég kannist ekki við að myndir með henni hafi verið sýndar hér á landi. Svo er það loks Ulrich Mühe sem hefur hlotið verðlaun fyrir túlkun sína á Stasimanninum en mér er hann minnisstæður úr sjónvarpsmyndinni Nikolaikirche sem sýnd var fyrir nokkrum árum og fjallaði einmitt um mótmælin í Leipzig sem leiddu til þess að landamæraverðir opnuðu hliðin og múrinn féll.
Látið Líf annarra ekki fram hjá ykkur fara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)