Blair tættur í sundur

Jón Baldvin Hannibalsson eðalkrati skrifar athyglisverða grein í Moggann í dag þar sem hann rífur Tony Blair og stefnu hans í sig. Blair skrifaði nýlega grein í The Economist um þá lærdóma sem hann dregur af tíu ára valdaferli sínum. Hann hefur einkum lært það að hægri mönnum sé best treystandi fyrir verndun lýðræðisins (með hervaldi) og vinstri mönnum fyrir velferðinni.

Þessa niðurstöðu telur Jón Baldvin fráleita og er svo sannarlega hægt að taka undir það eins og ótal dæmi sanna. Í stað þess að standa vörð um frið og lýðræði og fara sáttaleiðir er búið að setja heiminn á annan endann á nokkrum árum og skapa nýjar hættur sem heimurinn á eftir að glíma við í áratugi.

Jóni Baldvin verður sérstaklega tíðrætt um fylgispekt Blair við Bush og stjórn hans og þær hrikalegu afleiðingar sem Írakstríðið hefur og mun hafa í Mið-Austurlöndum. Þá ræðir hann líka um aumingjalegar tilraunir Blair til að koma Palestínumönnum til varnar en Bandaríkjamenn hafa ekki hlustað á hann heldur styðja Ísraelsstjórn og halda ríkinu uppi hvað sem þeir brjóta af sér. Það þarf nú vart að minna á hvernig Bandaríkjastjórn brýtur mannréttindi á föngum og má í því sambandi minna á dóm sem féll vegna Kanadamanns sem var handtekinn 15 ára gamall í Afganistan og hefur verið í haldi síðan án dóms og laga. Réttindi barna eru ekki einu sinni virt!

Niðurstaða Jóns er sú að Blair hafi dregið Verkamannaflokinn niður í svaðið en í því sambandi má minna á að þrátt fyrir mikla andstöðu innan flokksins hefur Blair haft meirihlutann með sér. Það kemur flokknum nú í koll.

Ég furðaði mig mjög á því í aðdraganda Íraksstríðsins hvers vegna Bretar voru að láta draga sig út í Íraksfenið en bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Píslarvottar nútímans skýrði málið að nokkru. Írak er smíði Breta og þeir áttu og eiga enn mikilla hagsmuna að gæta á þeim slóðum. Bretar eru líka í olíuiðnaðinum og halda greinilega enn að þeir geti vaðið um heiminn með her sinn þótt það sé reyndar í skjóli USA.

Það verður mikið verk fyrir arftaka Blair að hreinsa upp skítinn eftir hann, takist það yfirleitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband