2.6.2007 | 20:35
25 ára afmæli kvennaathvarfsins
Tíminn hann er fugl sem flýgur hratt. Að hugsa sér að 25 ár séu liðin frá stofnun Samtaka um kvennaathvarf. Það var haldið upp á það í dag með ljómandi góðri samkomu í Iðnó þar sem blandað var saman stuttum ræðum og söng.
Ég rifjaði upp í mínu ávarpi að það voru ekki síst umræður á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 1980 sem vöktu athygli okkar hér á landi á umfangi kynbundins ofbeldis. Ég sé í stefnuskrá Kvennaframboðsins í Reykjavík sem einmitt bauð fram vorið 1982 að þá hafði verið gerð könnun sem benti til þess að ofbeldi gegn konum væri verulegt vandamál. Því hófst umræða um nauðsyn þess að koma upp athvarfi fyrir konur þar sem þeim yrði veitt skjól og ráðgjöf.
Síðan eru liðin 25 ár en ofbeldið hefur ekki minnkað nema síður sé. Gistinóttum kvenna og barna fjölgar í athvarfinu og í máli framkvæmdastýru athvarfsins í fréttum RÚV í kvöld kom fram að ofbeldið væri að verða grófara.
Á þessum 25 árum höfum við öðlast mikla þekkingu á eðli og umfangi kynbundins ofbeldis. Þegar kvennaathvarfið var stofnað var t.d. ekkert farið að tala um kynferðislega misnotkun á börnum. Sú umræða kom upp síðar. Já, þekkingin hefur aukist og aðgerðir hafa verið samþykktar til að draga úr ofbeldinu en að mörgu leyti hefur þróunin gengið í þveröfuga átt. Klámvæðing, vændi og mansal er stundað sem aldrei fyrr. Alþjóðlegir samningar hafa verið gerðir til að draga úr kynbundnu ofbeldi, það hefur verið skilgreint í lögum og aðgerðaáætlanir samdar, t.d. hér á landi en samt benda rannsóknir til þess að ofbeldið sé að aukast. Fyrir nokkrum árum tókst að koma því inn í alþjóðalög að kynbundið ofbeldi eins og nauðganir á átakasvæðum teldust til stríðsglæpa en þar með var hægt að ákæra karla fyrir skipulagðar nauðganir sem iðulega hafa átt sér stað í styrjöldum. Ekkert bendir þó til að það dragi úr nauðgunum á átaksvæðum sbr. ástandið í Sómalíu.
Kynbundið ofbeldi á sér mun dýpri rætur en svo að hægt sé að rífa þær upp á nokkrum árum með lögum og aðgerðaáætlunum. Það þarf miklu meira til.
Í fyrra hlustaði ég á feministann Judith Butler sem benti á hvernig kynferðislegri niðurlægingu væri beitt í sífellt meira mæli til að niðurlægja "óvininn". Vísaði hún m.a. til þeirrar meðferðar sem fangar í Abu Graib fangelsinu í Bagdad höfðu mátt sæta og mikið var fjallað um í fjölmiðlum á sínum tíma. Þar komu konur því miður líka að málum við að niðurlægja fanga kynferðislega. Kynbundið ofbeldi er því farð að beinast að körlum líka, sem nýtt "stríðsvopn". Judith Butler kallaði eftir bandalögum feminista og annarra til að vinna saman gegn vaxandi mannfyrirltningu og valdníðslu.
Þekking á kynbundnu ofbeldi og afleiðingum þess hefur margar hliðar og augljóst að fangaverðir hafa lært mikið af klámmyndunum sem tröllríða fjölmiðlum. Þær ganga að mjög miklu leyti út á að hlutgera og niðurlægja konur, konur þjóna, karlar "njóta".
Það hefur aldrei verið brýnna en nú að sameinast gegn kynbundnu ofbeldi í öllum þess myndum, þar með talið klám, vændi og mansal. Allt hangir þetta saman. Skilningsleysi og kvenfyrirlitning eru svo gegnumgangandi að samfélag okkar lætur ofbeldi gegn konum líðast, sbr. dóm eftir dóm sem sýna að ofbeldi gegn konum þykir mun léttvægari glæpur en t.d. þjófnaður eða eiturlyfjasmygl.
Hvað segir það um samfélag okkar ef bæjarstjóri eins stærsta sveitafélags utan Reykjavíkur kemst upp með að heimsækja alræmdan súlustað, hvaða "þjónustu" sem hann kaupir þar. Hvar eru kröfurnar um að hann segi af sér fyrir að heimsækja stað sem grunaður er um að vera með konur í þjónustu sinni sem seldar hafa veirð mansali? Mansal er hluti af því ofbeldi sem konur eru beittar viða um heim. Mál hans verður prófsteinn á vilja samfélagsins til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.
Bloggar | Breytt 4.6.2007 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)